Hoppa yfir valmynd
22.10. 2019 Utanríkisráðuneytið

Blóðug barátta gegn blæðingaskömm

Sólrún María Ólafsdóttir og Guðný Nielsen, verkefnastjórar hjá Rauða krossi Íslands, segja blæðingaskömm geta haft hræðilegar afleiðingar fyrir stúlkur og konur. Ljósmynd: Fréttablaðið/ Sigtryggur Ari - mynd

„Blæðingaheilbrigði (e. Menstrual Hygiene Management) er notað yfir ýmsar athafnir og aðgerðir sem tryggja að stelpur og konur hafi næði, aðstæður og efni til að geta á öruggan og heilbrigðan hátt tekist mánaðarlega á við blæðingar sínar af sjálfstrausti og reisn,“ útskýrir Guðný Nielsen en hún og Sólrún María Ólafsdóttir, verkefnastjórar á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins á Íslandi, segja brýnt að berjast gegn blæðingaskömm. Málefnið sé margþætt og krefjist margþættra aðgerða. 

Eftirfarandi grein birst fyrst í tímariti Rauða krossins, Hjálpum.

Eitt af því sem er óhjákvæmlegur fylgikvilli blæðinga er þörfin á túrvörum en það er fleira sem þarf að taka inn í myndina. „Að vinna að blæðingaheilbrigði snýr ekki einungis að því að tryggja aðgengi að dömubindum og slíku heldur er samhengið mun víðara, enda að mörgu sem þarf að huga.“

Blæðingum fylgja ýmsar athafnir sem krefjast næðis og hreinlætis. „Það þarf einnig að tryggja aðgengi að viðeigandi hreinlætisaðstöðu, það þarf að huga að hvar hægt sé að henda notuðum bindum og töppum eða hvar og hvort sé hægt að þvo og þurrka margnota bindi og slíkt,“ segir Sólrún.

Þá er mikil þörf á að fræða konur og sjá til þess að þær hafi greiðan aðgang að upplýsingum er varða blæðingaheilbrigði. Á sama tíma þarf að gæta þess að tillit sé tekið til menningarlegs samhengis á ólíkum svæðum. „Auk þess skortir mjög oft mikið upp á fræðslu og aðgengi að upplýsingum um blæðingar og tengd málefni. Þegar við vinnum að blæðingaheilbrigði þurfum við alltaf að huga að menningu og siðum á hverjum stað, hverjar eru þarfirnar og hvað er viðeigandi.“

Byrði blæðingaskammar víða

„Mörg þekkjum við blæðingaskömm að einhverju leyti,“ segir Guðný. „Við felum kannski túrtappann inni í lófanum þegar við förum á salernið í vinnunni og setjum fleira í verslunarkerruna þegar við fórum kannski í búðina eingöngu til að kaupa dömubindi.“

Blæðingaskömm sé merkilega víðtækt vandamál. Ástæðurnar og viðhorfin að baki eru oftar en ekki keimlík, á milli ólíkra staða. „Það er merkilegt, en við höfum fundið fyrir því, þar sem við höfum verið með fræðslu um blæðingaheilbrigði fyrir fólk víða að úr heiminum, hversu útbreidd blæðingaskömm er, og svipaðar hugmyndir um óhreinindi og skömm leynast í ólíkum menningarheimum.“

Á sumum menningarsvæðum ríki mikil bannhelgi gagnvart blæðingum. „Víða eru blæðingar gríðarlegt tabú og blæðingaskömmin þeim mun ýktari. Hætturnar sem stúlkurnar kljást við koma úr öllum áttum. „Stúlkur á blæðingum verða oft fyrir aðkasti skólabræðra sinna og kennara. Við þekkjum átakanleg dæmi þess að karlkyns kennarar, sem krefja skólastúlkur um kynlíf, noti blæðingaskömm sem verkfæri til að niðurlægja stúlkur sem neita þeim.“

Þetta hefur víðtæk og alvarleg áhrif á líf stúlkna og getur jafnvel aftrað þeim frá skólagöngu. „Skiljanlega kjósa margar stúlkur frekar að vera heima hjá sér en í skóla þá daga sem þær eru á blæðingum og það er óásættanlegt! Rauði krossinn á Íslandi leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna og valdeflingu stúlkna og kvenna,“ segir Sólrún.

Blæðingar í hringiðu hamfara eða átaka

Gefa þarf stúlkum og konum á átaka- og á hamfarasvæðum sérstakan gaum en líkt og önnur náttúruleg fyrirbæri, er ógerningur að stjórna því hvenær og hvar blæðingar eiga sér stað. „Blæðingar kvenna og stúlkna hætta ekki í hamförum og átökum, en í gegnum tíðina hefur oft gleymst að huga að þörfum þar að lútandi þegar neyðaraðstoð er veitt, sérstaklega þar sem það er víða tabú að ræða blæðingar og því kemur þessi þörf ekki fram þegar neyðaraðstoð er skipulögð,“ útskýrir Sólrún.

 „Skortur á dömubindum og öðrum lausnum, jafnvel nærbuxum, er einn augljósasti vandinn þegar fólk neyðist til að yfirgefa heimili sín í skyndi.“

Stúlkur og konur á flótta og í flóttamannabúðum upplifa gjarnan mikið skilnings- og varnarleysi í óviðunandi aðstæðum. „Skortur á aðstöðu til að skipta á bindum/ túrtöppum og henda, eða skortur á aðstæðum til að þrífa fjölnota blæðingalausnir er annað algengt vandamál í búðum þar sem fólk hefst við í neyð. Þar er oft skortur á næði sem getur valdið miklu álagi og streitu, sérstaklega þar sem blóðskömm er mikil. Allt þetta ofan á þau óþægindi sem stúlkur og konur takast á við á blæðingum þar sem ekki er neyðarástand.“

Afleiðingarnar geta verið ógurlegar. „Ef ekki er hugað að blæðingaheilbrigði við skipulagningu neyðarstarfs er því hætta á að konur og stúlkur neyðist til að nota óhrein gömul klæði eða annað til að taka við blæðingum sínum með aukinni hættu á sýkingum og óþægindum.“ 

„Ef konur neyðast til að að bíða myrkurs til að fara á salernið til að forðast að blóðblettir sjáist eru þær í meiri áhættu að að verða fyrir kyndbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Auk þess sem ótti um að sjáist í tíðablóð veldur því að konur og stúlkur einangrast og geta síður tekið þátt í mikilvægum athöfnum, ganga í skóla, sækja sér vistir og svo framvegis, allt getur þetta valdið kvíða og álagi á konur og stúlkur.“

Blæðingaheilbrigði í brennidepli

Rauði krossinn hefur hrint af stað ýmsum úrræðum sem stuðla að því að opna umræðuna. Hefur það verið gert meðal annars með því að fræða karlmenn og drengi og virkja þá til liðs í þessari þýðingarmiklu baráttu. „Við höfum opnað þetta mikilvæga samtal við íbúa á verkefnasvæðum okkar; konur, menn, drengi og stúlkur.“ segir Guðný.

Guðný segir verkefnið ærið. Það geti reynst tímafrekt að sporna gegn djúpstæðum þekkingarskorti á málefninu á sama tíma og reynt er að gæta umburðarlyndis í garð þeirra sem þurfa á fræðslu að halda. „Vanþekkingar á málefninu gætir víða og skaðlegar hefðir geta verið svo rótgrónar að það tekur oft langan tíma að koma á breytingum. Við nálgumst málefnið af virðingu og í náinni samvinnu við íbúa“

Þá er líka mikilvægt að fræða þá sem koma að verkefnunum. „Nákvæmar leiðbeiningar og ýmist fræðsluefni hefur verið þróað og þýtt á nokkur tungumál, og er nú í notkun á hamfarasvæðum og  víðar. Það er mikilvægt að starfsfólk og sjálfboðaliðar, bæði karlar og konur, sem taka þátt í neyðaraðstoð séu upplýst og geti rætt þetta oft á tíðum viðkvæma málefni svo fundnar séu viðeigandi lausnir fyrir hvern stað. Konur og stúlkur eiga ekki að vera heftar af blæðingum, hvorki á hamfarasvæðum þar sem nóg er samt að huga að, né annars staðar.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
4. Menntun fyrir öll
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum