Hoppa yfir valmynd
22.02. 2021 Utanríkisráðuneytið

Lokanir skóla stefna stúlkum í hættu

Við gerum okkur eflaust öll grein fyrir áhrifum Covid-19 á stöðu fólks um allan heim. Staðreyndin er sú að hamfaraástand líkt og faraldrar, stríð eða náttúruhamfarir, eiga það til að ýta undir vandamál sem voru nú þegar til staðar. Jafnrétti kynjanna er langt frá því að vera náð á heimsvísu, en samkvæmt skýrslu Sameinuðu Þjóðanna um áhrif Covid-19 á konur hefur staða stúlkna og kvenna farið versnandi og konur komið verr út úr faraldrinum en karlar að mörgu leyti, sérstaklega í efnaminni ríkjum. Þá hafa skólar lokað dyrunum fyrir um 90% nemenda í heiminum vegna Covid-19, þar af eru yfir 740 milljónir stúlkur. Á Íslandi sem og í öðrum efnameiri ríkjum hefur áhersla verið lögð á fjarnám í samkomubanni til þess að milda höggið á menntun í samfélaginu, en í efnaminni ríkjum er fjarnám oft ekki möguleiki. Ekki hafa allir aðgang að interneti og námsgögn heima við eru oft af skornum skammti. Gera má ráð fyrir að um 500 milljón börn hafi ekki aðgang að fjarnámi í samkomubanni og dragist því aftur úr í námi. Stúlkur hafa minni aðgang en strákar, til að mynda er aðgengi að neti í símanum 26% lægra hjá stúlkum. Auk þess er menntun drengja oftar í forgangi og stúlkur fyrr teknar úr námi þegar efnahagur þrengist, til þess að sjá um heimilið eða vinna.

Lokun skóla hefur ekki einungis neikvæð áhrif á menntun stúlkna heldur á almenna velferð þeirra og heilsu. Þegar hart er í ári líkt og nú vegna faraldursins, eru mörg dæmi um að stúlkur séu giftar frá fjölskyldum sínum til þess að létta byrðina á heimilinu. Faraldurinn eykur einnig líkur á kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn stúlkum og konum, ótímabærum þungunum, óöruggum þungunarrofum og mansali. Í samkomubanni hefur heimilisofbeldi einnig stóraukist. Allt hefur þetta skelfileg áhrif á líf stúlkna og kvenna víðsvegar um heim, og eykur líkur á að þær snúi ekki aftur til náms þegar skólar opna. Hjá CLF skólanum í Úganda eru stúlkur sem koma úr erfiðum félagslegum aðstæðum og mikilli fátækt studdar til náms, og eru þær nú margar hverjar í mjög viðkvæmri stöðu. CLF á Íslandi hafa því áhyggjur eru af því að margar muni ekki snúa aftur í lok samkomubanns meðal annars vegna ótímabærra barneigna og giftinga. Þetta er dæmigerður vítahringur fátæktar sem við viljum gera allt sem í valdi okkar stendur til að sporna við. Þegar stúlkur flosna upp úr námi og eignast ungar börn eru meiri líkur á að börnin fái ekki mikil tækifæri á menntun heldur og að vítahringurinn endurtaki sig.

Það er erfiðara að fylgja stúlkum eftir og passa upp á öryggi þeirra þegar þær mæta ekki í skóla. Auk hefðbundins skólahalds víðs vegar um heiminn hefur starfsemi sem heldur utan um heilsu, öryggi og velferð stúlkna verið lokað eða starfa nú með miklum takmörkunum. Þetta hefur einnig þau áhrif að erfiðara er fyrir stúlkur að tilkynna ef brotið er gegn þeim. Ferðatakmarkanir, samgöngubönn og útgöngubönn gera það erfiðara að nálgast stúlkur og veita þeim þá þjónustu og vernd sem þær eiga rétt á.

Langvarandi neikvæð áhrif Covid-19 faraldursins á menntun stúlkna, heilsu og velferð eiga eftir að koma betur og betur í ljós á næstu mánuðum. Þó heildarmyndin sé ekki orðin skýr þá er mjög mikilvægt að bregðast strax við því sem við vitum nú þegar. Ef við bíðum of lengi eftir niðurstöðum skýrslna og rannsókna þá verður það orðið of seint með skelfilegum afleiðingum fyrir þúsundir stúlkna og kvenna.

En hvað er í stöðunni? Það er ýmislegt sem hægt er að gera og almenningur getur hjálpað með því að styðja þau fjölmörgu samtök sem eru að vinna gott starf í þágu menntunar stúlkna og kvenna. Regnhlífarsamtökin Girls not Brides hafa bent á ýmsar leiðir til þess að bregðast við áhrifum Covid-19 á menntun stúlkna. Leitast þarf við að auka aðgengi stúlkna að námi í faraldrinum, til dæmis með stafrænu fjarnámi ef mögulegt er. Ef stafrænt fjarnám er ekki í boði líkt og raunin er hjá nemendum CLF, er til að mynda hægt að styðja stúlkur til náms með útdeilingu á USB lyklum, útvarpi og prentuðum námsgögnum til þess að læra heiman frá. Að bjóða uppá neyðarstuðning fyrir stúlkur og útdeila nauðsynjavörum likt og mat, hreinlætis- og tíðarvörum getur verið mjög gagnlegt. Gríðarlega mikilvægt er að koma í veg fyrir skaðlega siði svo sem barnahjónabönd og umskurði, til dæmis með auknu upplýsingaflæði og fræðslu til fólks í gegnum útvarp, samfélagsmiðla og aðra miðla. Einnig þarf stúlkum að bjóðast aðgengilegar leiðir þess að tilkynna brot og leita aðstoðar. Mikilvægt er að stúlkur hafi aðgengi að upplýsingum og úrræðum þegar kemur að kyn- og frjósemisheilsu og stuðningsnet til að þurfa ekki að leita út á vinnumarkaðinn og jafnvel í áhættumikil störf í stað þess að halda áfram námi. Einnig verðum við að horfa til framtíðar og undirbúa opnun skóla með það markmið að ná sem flestum nemendum aftur inn í kennslustofurnar, með sérstaka áherslu á stúlkur og aðra viðkvæma hópa. Í því átaki er mikilvægt að fá sem flesta hagsmunaaðila með í lið; fjölskyldur, samfélög, samtök og stjórnvöld, og þar höfum við öll hlutverki að gegna.

Fyrir þá sem vilja kynna sér stöðu mála betur í efnaminni ríkjum heimsins er bent á þáttinn: Stóra myndin: Covid og heimsbyggðin, sem sýndur var á Rúv 11. feb síðastliðinn og er að finna inn á Sarpinum á heimasíðu Rúv.

Höfundar eru formaður og meðstjórnandi CLF á Íslandi.

Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneytið.

Greinin birtist áður í Fréttablaðinu 19. Febrúar 2021

Heimildir

https://www.un.org/development/desa/dspd/wp-content/uploads/sites/22/2020/08/sg_policy_brief_covid-19_and_education_august_2020.pdf

https://sdgs.un.org/goals/goal4 

https://www.unwomen.org/en/news/stories/2020/12/what-happened-after-covid-19-hit-uganda

https://www.girlsnotbrides.org/educating-girls-during-covid-19/

https://www.cgdev.org/blog/covid-19-and-girls-education-what-we-know-so-far-and-what-we-expect-happen

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum