Hoppa yfir valmynd
07.01. 2022 Utanríkisráðuneytið

Þrjár leiðir vænlegar til að veita þróunaraðstoð - 2. hluti

Grein Ingvars Gíslasonar í Tímanum. - mynd

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Ólafur Björnsson prófessor var eins og fram kom í fyrsta pistlinum frumkvöðull að umræðu um stuðning Íslands við þróunarríkin um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Hann flutti þingsályktunartillögu um aðstoð Íslands við þróunarlöndin í nóvembermánuði 1964, fyrir rúmum 57 árum. Í framhaldinu var skipuð nefnd  til að fjalla nánar um aðstoðina sem leiddi til þess að sjö árum síðar, 1971, voru samþykkt fyrstu lögin um þróunarsamvinnu á Íslandi. Þá varð til svokölluð: Aðstoð Íslands við þróunarlöndin - og sú lagasetning fyrir 50 árum rúmum var árið 2011 tilefni til afmælismálþings um íslenska þróunarsamvinnu.

Fram kemur í grein sem Ólafur Björnsson skrifaði í Stúdentablaðið árið 1965 að umræða á Íslandi um stuðning við þróunarríki hófst ekki fyrr en í byrjun sjöunda áratugarins. „Það er varla fyrr en eitt til tvö síðustu árin, að farið hefir verið að ræða þessa spurningu hér á landi,“ segir hann og vísar til spurningarinnar: Á Ísland að gerast þátttakandi í aðstoð við þróunarlöndin? Hann segir ýmsar ástæður liggja til þess að áhuginn hafi verið takmarkaður. „..sennilega hefir þar valdið mestu um, að svo virðist hafa verið litið á, að Ísland væri sjálft meðal þróunarlanda og bæri því sem slíku, fremur að vera þiggjandi en veitandi í þessu efni.“ Sjálfur segir hann því fari fjarri að Ísland sé í hópi þróunarlanda.

Hvers konar aðstoð við þróunarlöndin var í umræðunni þessi fyrstu ár? Grípum niður í fjórar heimildir um það efni frá þessum tíma, frá þingmönnunum Ólafi Björnssyni, Ingvari Gíslasyni, Gunnari G. Schram og endum á hugmyndum Sigurðar Bjarnasonar vorið 1965 en hann var þá formaður utanríkismálanefndar.

Í ræðu sem Ólafur Björnsson flutti þegar þingsályktunartillagan var lögð fram nefnir hann að fleira en fjárframlög til einhverra ákveðinna framkvæmda komi til greina. „En það er fleira en fjármagnsskortur, sem hamlar efnahagslegri þróun þessara landa. Fáfræði almennings og öðru fremur skortur á verkkunnáttu eru ekki síður meðal mikilvægustu orsaka þess, að lönd þessi hafa dregizt aftur úr í efnahagslegu tilliti. ...almenn verkkunnátta í þessum löndum er gjarnan öldum á eftir því, sem er hér á landi og í nágrannalöndum vorum. Verkkunnátta, sem hér er almenn, gæti því, ef hún næði til þessara þjóða, gerbylt lífskjörum þeirra. Slíkri kunnáttu gætum við bæði miðlað þessum þjóðum með því að senda menn til þessara landa í því skyni, að kenna það, sem að gagni mætti koma þar eða taka á móti fólki frá þróunarlöndunum til verklegs náms eða annars, sem að gagni mætti koma.“

Síðar í ræðunni segir Ólafur: „... kemur einnig til greina margs konar leiðbeiningarstarf á öðrum sviðum, svo sem heilbrigðismálakennslu og uppeldismála o.s.frv. Slík leiðbeiningastarfsemi gæti komið þessum löndum að miklum notum, en þarf ekki að kosta ýkja mikið þau lönd eða það land sem hana geta látið í té.“

Ingvar Gíslason alþingismaður og síðar ráðherra ræðir þingsályktunartillögu Ólafs í Tímanum 1. desember 1964 og tekur undir hugmyndina um að Íslendingar taki á móti fólki frá þróunarlöndunum - sem hefur heldur betur reynst skynsamleg leið eins og fjórir GRÓ skólanna hér á landi, Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn, bera glöggt vitni um.

Ingvar skrifar: „... við Íslendingar eigum ekki yfir að ráða fjármagni né tæknimenntuðu fólki, sem við höfum efni á að senda suður um álfur, en aðstoð okkar gæti mjög auðveldlega orðið í því formi að bjóða stúdentum frá þessum löndum til náms við Háskóla Íslands, t.d. í læknisfræði, eða námsmönnum í öðrum greinum.“ Ingvar tekur líka undir skoðanir Ólafs um verkkunnáttu og telur brýnt hagsmunamál að „koma upp viðhlítandi heilbrigðisþjónustu og menntakerfi...“ Hann gagnrýnir hins vegar erlenda uppbyggingaraðstoð sem hann segir byggjast á miklu skilningsleysi á háttum og högum fólksins og felist í nauðsyn þess „að ryðjast inn í þessi lönd með mikið fjármagn og stóriðjuframkvæmdir og hraða iðnvæðingu.“

Á Norðurlöndum og víðar höfðu á þessum tíma verið starfræktar svokallaðar „þróunarsveitir“ skipaðar sjálfboðaliðum sem fóru til þróunarlandanna og Gunnar G. Schram prófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr í Vísisgrein í febrúar 1965: Hvað um okkur Íslendinga? Og síðan svarar hann sjálfur: „Að vísu má segja að við höfum þegar hafið starf í þessu efni á svipuðum grundvelli og hér hefur verið drepið á. Íslenskir skipstjórar og sérfræðingar í fiskveiðum hafa dvalizt lengi austur við Indlandshaf og í fleiri löndum austur þar og kennt fiskveiðitækni. En það starf hefur farið fram á vegum alþjóðastofnana, fyrst og fremst FAO í Rómaborg, en ekki skipulagt beint héðan að heiman. Engu að síður vitum við hve vel það hefur gefist og hver þörf hefur reynzt á slíkri aðstoð. En því fetum við ekki í fótspor Norðurlandanna og stofnum okkar eigin þróunarsveit? Ég er ekki í nokkrum vafa um það að margir ungir Íslendingar, sjómenn, búfræðingar, iðnfræðingar og kennarar svo aðeins nokkrar starfsgreinar séu nefndar, væru fúsir til þess að fara utan og starfa sem sjálfboðaliðar í þróunarlöndunum um eins til tveggja ára skeið. Það sem á skortir er frumkvæðið, það að slíkri sveit sé komið á laggirnar.“

Utanríkismálanefnd ræddi þingsályktunartillögu Ólafs Björnssonar og varð sammála – 9. mars 1965 – um að leggja einróma til að hún yrði samþykkt óbreytt. Formaður utanríkismálanefndar, Sigurður Bjarnason, bar síðan tillöguna upp í Sameinuðu þingi 31. mars og vék þá m.a. að hugmyndum um það hvernig aðstoð Íslendingar gætu veitt.: „Í utanrmn. kom sú skoðun fram, að aðallega væri um 3 leiðir að ræða í þessum efnum. Í fyrsta lagi að styðja að dvöl fólks frá þróunarlöndunum hér á landi til þess að afla sér menntunar. Í öðru lagi, að Íslendingar sendi sérfræðinga héðan til þróunarlandanna. Í þriðja lagi, að Íslendingar veiti þá aðstoð, sem þeir geta í té látið, fyrir milligöngu alþjóðastofnana, sem við erum aðilar að. Vitað er, að Norðurlandaþjóðirnar hafa allar beitt sér fyrir aðstoð á ýmsum sviðum við þjóðir hinna svokölluðu þróunarlanda. Norðmenn hafa t.d. haldið námskeið heima í Noregi fyrir námsfólk frá Indlandi. Við Íslendingar höfum einnig sent skipstjórnarmenn til Indlands á vegum Landbúnaðar- og matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna til þess að kenna indverskum fiskimönnum fiskveiðar. Þá má geta þess, að Rauði kross Íslands hefur nú tekið upp samvinnu við Rauða kross hinna Norðurlandanna um ýmiss konar mannúðar- og heilbrigðisaðgerðir í Nígeríu. Munu þessi samtök hafa í hyggju að beita sér fyrir hliðstæðum hjálparráðstöfunum í fleiri Afríkulöndum."

Eftir að þingsályktunartillagan var samþykkt í marslok 1965 var skipuð nefnd í málið.

Meira í næsta pistli. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum