Hoppa yfir valmynd
12.01. 2022 Utanríkisráðuneytið

Æskufólk leiðir herferð gegn hungri - 3. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Þegar punktur  var settur aftan við síðasta pistil var Alþingi búið að samþykkja fyrstu þingsályktunartillögu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, þ.e. tillöguna frá Ólafi Björnssyni hagfræðingi og þingmanni Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að kannað yrði á hvern hátt Íslendingar gætu best skipulagt aðstoð við þróunarlöndin þannig að hún mætti koma að sem mestum notum. Þetta var vorið 1965, síðasta dag marsmánaðar. Um haustið, í september, skipaði Emil Jónsson utanríkisráðherra þriggja manna nefnd til að fjalla um málið. Sú nefnd skilaði loks af sér áliti hálfum áratug síðar, 1970, en margt gerðist í millitíðinni og minnst af því inni á Alþingi.

Það var unga fólkið á Íslandi sem hélt á lofti merki þróunarsamvinnu á sjöunda áratugnum – þótt hugtakið þróunarsamvinna væri ekki komið til sögunnar. Ungt fólk, í stjórnmálaflokkum, framhaldsskólum, Háskólanum og félagasamtökum, tók upp málstað baráttunnar gegn hungri og æskulýðsmálasíður dagblaðanna tókust á um málaflokkinn. Síðsumars 1964 var fimmdálka fyrirsögn á síðu Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) í Morgunblaðinu: Íslenskt æskufólk leggi eitthvað af mörkum. Þar skrifar Ragnar Kjartansson greinina „Baráttan gegn hungri og fávisku - Verðugt verkefni“ og fjallar um þann mannskæða óvin sem hungrið sé og þær þjáningar, veikindi og dauðsföll sem af fæðuskorti leiði. „Við Íslendingar erum þess vel megnugir að senda hóp ungra, sérþjálfaðra manna til að taka þátt í því víðtæka og göfuga starfi að kenna og hjálpa vanmáttugum að hjálpa sér sjálfir.“ Hann viðrar síðar í greininni þá hugmynd að íslenskur æskulýður standi fyrir víðtækum söfnunum undir kjörorðinu „herferð gegn hungri,“ en FAO hafði víða um heim beitt sér fyrir slíkum herferðum. Ragnar telur verkefnið verðugt og vísar hugmyndinni til heildarsamtaka æskunnar á Íslandi, Æskulýðssambands Íslands. Nokkrum misserum síðar, vorið 1965, er hugmyndin orðin að veruleika.

En hinkrum aðeins. Æskulýðsfylkingin hélt með sama hætti og SUS úti síðu í Þjóðviljanum á þessum árum undir yfirskriftinni „Æskan og sósíalisminn“ og þar á bæ var lítil hrifning af ýmsu í málflutningi SUS í grein sem bar yfirskriftina „Sýndarmennska og aðstoðin við hin vanþróuðu lönd.“ Morgunblaðsgreininni er lýst sem fagurmála hugvekju um baráttuna gegn hungri „og Bandaríkin þar óspart lofuð,“ eins og sagt er. Ólafur R. Einarsson skrifar undir greinina og segir: „En arðrán auðvaldsþjóða Vesturveldanna á hinum sveltandi börnum og alþýðu þróunarlandanna gerir velviljuga aðstoð tilfinningaríks almennings að dropa í hafi.“ Fram kemur að Æskulýðsfylkingin muni styðja framkomna hugmynd um „herferð gegn hungri.“ Og lokaorðin: „Þessi verðugu verkefni sem æskulýðssambönd borgaraflokkanna á Íslandi styðja í orði í málgögnum sínum, hafa of oft reynst sýndarmennskan ein á borði.“

Og það er ekkert verið að tvínóna við hlutina. Æskulýðssamband Íslands ákvað á stjórnarfundi 25. ágúst að boða fulltrúa hinna fjögurra pólítísku æskulýðssambanda á fund til að kanna möguleika á aðgerðum til „styrktar því fólki í heiminum, sem við skort og hungur býr.“ Sá fundur var haldinn 1. september og kom þar fram mikill vilji fundarmanna. Rúmri viku síðar, 9. september, samþykkir stjórn ÆSÍ að skipa undirbúningsnefnd með Alþýðuflokksmanninn Sigurð Guðmundsson í forsæti, og sú nefnd vann um veturinn og skilaði áliti til stjórnar 16. mars 1965, „vel unnar tillögur og sérstaklega ítarlegar“ eins og segir í frétt af aðalfundi ÆSÍ síðar um vorið. Nefndin lagði til nafngiftina „herferð gegn hungri“ - skammstafað HGH. Því næst var framkvæmdanefnd skipuð.

Almenn fjársöfnun hófst um haustið og stóð yfir næstu mánuði - átti upphaflega aðeins að standa yfir í einn mánuð - þar sem um tvö þúsund manns lögðu hönd á plóg. Þegar herferðinni lauk kom í ljós að safnast höfðu tæpar 10 milljónir króna, eða þreföld sú upphæð sem gert var ráð fyrir í upphafi. Til marks um áhuga almennings má vitna í frétt Alþýðublaðins frá 11. desember 1965: „Athyglisvert er hve ungt fólk hefur látið sig málið skipta. Í Reykjavík tóku um 1100 manns úr hópi æskufólks þátt í fjársöfnuninni. Víða í sveitum þar sem nefndir voru ekki starfandi hófu kvenfélög, ungmennafélög, skólar og hreppsnefndin ótilkvödd söfnun með góðum árangri. Börn í skólum landsins hafa sýnt mikla framtakssemi í sambandi við ýmis konar fjáröflunarleiðir, hafa þau haldið hlutaveltur og skemmtanir, bazara og bögglauppboð...“

Peningarnir fóru til ákveðins verkefnis sem unnið var undir merkjum FAO - Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið var aðstoð við fiskimenn í samfélögum við Alaotra-vatnið á eyjunni Madagaskar við austurströnd Afríku. „Við vatn þetta sem er mjög auðugt af fiski, búa um 100 þúsund manns, sem lifa á fiskveiðum, en hafa mjög frumstæða veiðitækni og lélegan útbúnað. Ef þessir fiskimenn fengju betri veiðarfæri og væri kennt að nota þau, myndu þeir ekki einungis geta framfleytt sjálfum sér miklu betur en nú er, heldur einnig séð næstu héruðum, en þar ríkir nú mikill næringarskortur, fyrir fæðu,“ segir í ályktun Stúdentaráðs Háskóla Íslands haustið 1965 eftir að undirbúningsnefnd ÆSÍ hafði fengið úthlutað ákveðnu verkefni af hálfu FAO. Að minnsta kosti einn Íslendingur, Andri Ísaksson, fór suður til Madagaskar, dvaldi þar í vikutíma og kynnti sér verkefnið; Vísir sagði frá.

Í nóvember berst þakklætisbréf frá Madagaskar til Sigurðar Guðmundssonar formanns framkvæmdanefndar HGH frá Amiel forseta landsnefndar Madagaskar um Herferð gegn hungri. Þar segir m.a.: „Þér megið treysta því, að vinarbragð þetta mun sérstaklega verða metið af fiskimönnum við Alaotra-vatnið, sem búa við bág kjör, en munu nú geta útbúið sig veiðarfærum og komið veiðiaðferðum sínum í nútímahorf, til mikilla heilla fyrir Alaotra-héraðið. Það er mér sérstök ánægja að hugsa til þess að fiskimennirnir við Alaotra-vatn fá stuðning frá raunverulegum „bræðrum“ þar sem þjóð yðar hefur stundað fiskveiðar frá aldaöðli, og hin mikla fjarlægð, sem skilur oss að, mun ekki koma í veg fyrir, að mikil vinátta skapist milli þjóða vorra.“

Meira síðar. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum