Hoppa yfir valmynd
19.01. 2022 Utanríkisráðuneytið

Að brúa bilið milli hins skóaða og berfætta – 5. hluti

Sagan sem hér er rakin um aðdraganda að fyrstu íslensku löggjöfinni um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands rekur ekki þátttöku Íslendinga í starfi alþjóðstofnana um þróunarsamvinnu á þessum árum. Sú þátttaka var talsverð og Íslendingar voru bæði í Afríku og Asíu við störf, einkanlega á vegum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Einn af þeim var Einar Kvaran vélfræðingur sem dvaldi um árabil á Seylon (Sri Lanka) og síðar á Filippseyjum.  - mynd

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Punktur var settur við sögubrotin í síðustu viku þegar fyrir lá seint á árinu 1969 að fram kæmi á þingi frumvarp um stofnun sjóðs til aðstoðar við þróunarríkin. Þá voru liðin um fjögur ár frá því utanríkisráherra skipaði nefnd til að vinna að athugun á slíkum stuðningi Íslands við fátæk ríki en þá nefnd skipuðu Ólafur Björnsson prófessor sem var formaður, Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins og Ólafur Stephensen þáverandi framkvæmdastjóri Rauða krossins. Nefndin skilaði bráðabirgðaáliti en sökum efnahagsörðugleika var endanlegri tillögugerð frestað. Ungt fólk, í menntaskólum og Háskólanum, ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna með Æskulýðssamband Íslands í fararbroddi hélt hins vegar á lofti kröfunni um opinberan stuðning Íslands við þróunarríkin. Unga fólkið efndi m.a. til söfnunar undir kjörorðinu Herferð gegn hungri og hélt Hungurvökur um páska tvö ár í röð, auk þess sem ályktanir og áskoranir voru sendar Alþingi.

Þeir Björn Þorsteinsson og Ólafur E. Einarssonar drógu þennan tíma saman í fáein orð í pistli sínum í Rétti 1971: „Ungt fólk í öllum stjórnmálaflokkum og fleiri félagssamtökum hóf undirskriftasöfnun með áskorun á alþingi að samþykkja löggjöf um þróunaraðstoð; framhaldsskólanemar tóku fulltrúa frá stjórnmálaflokkunum til bæna á hungurvökum og legið var í þingmönnum frá öllum flokkum að flytja frumv. um þróunarsjóð. Var slíkt frumvarp flutt á tveim þingum, en hlaut aldrei afgreiðslu. Árangur af þeim tillöguflutningi var þó sá, að nefnd utanríkisráðherra sá sig tilneydda að skila áliti. Þá höfðu ungir menn beitt sér, hver í sínum flokki fyrir samþykkt tillagna á flokksþingum um, að hið opinbera veitti þróunaraðstoð.“

Ingiberg Magnússon myndlistarmaður velti fyrir sér stöðunni eftir Hungurvöku vorið 1969 í  pistli í tímaritinu Eintaki 1. apríl:

„Fjölmiðlunartæki nútímans flytja líf fjarlægra þjóða inn í stofurnar okkar. Þau gera okkur að ábyrgum aðilum í lífi þeirra, gera vandamál þeirra að okkar. Hungur hinna vanþróuðu þjóða er hungur okkar eigin menningar. Að lokinni hungurvöku er það ljóst að íslenzkt æskufólk veit að vandamál mannkynsins verða ekki leyst með hernaðarbandalögum og Hallelújaópum atvinnuhrópara, heldur með því að brúa bilið milli hins hungraða og sadda, milli hins skóaða og hins berfætta.“

Á sama tíma, eða 2. apríl 1969, skrifar Ragnar Kjartansson formaður Æskulýðssamtaka Íslands grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Áhorfendur eða þátttakendur. Þar segir meðal annars:

„Baráttan fyrir hugmyndinni um opinberan, íslenzkan hjálparsjóð er hafin. Nú þegar eru nokkur ár síðan Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu Ólafs Björnssonar um athugun málsins, og samningu frumvarps. Þá má geta þess að málið er á stefnuskrá allra stjórnmálaflokkanna, svo og hafa þing ASÍ og fleiri aðilar gert eindregnar samþykktir og lýst yfir stuðningi. Í samhaldi af því hefur Herferð gegn Hungri, samhliða ýmis konar öðru fræðslustarfi, staðið fyrir fræðsluáætlun um kynningu á hugmyndinni um löggjöf um opinberan hjálparsjóð, og nauðsyn hans.“

Lokorðin í grein Ragnars eru af skáldlegum toga: Gamalt máltæki segir: „Sveltur sitjandi kráka, en fljúgandi fær“ - Um leið og við þurfum að herða eigin vængjatök, ber okkur skylda til að taka þátt í að kenna þeim flugtakið, er ekki kunna fyrir, og deila þannig framfarasókn okkar, með öðrum er minna mega sín.“

Frumvarp um þróunarsjóð

Hugmyndin um sérstakan þróunarsjóð var ekki ný af nálinni þegar frumvarpið var lagt fram síðla árs 1969, eins og sést t.d. á grein Gunnars G. Schram í Morgunblaðinu vorið 1967. Þá var málið búið að velkjast í þinginu allt frá því 3ja manna nefndin skilaði af sér bráðabrigðatillögum til ríkisstjórnarinnar haustið 1966. Frumvarp um málið kom síðan fram í þinglok 1968 og síðan aftur 1969, en var í bæði skiptin tekið af dagskrá, og var ekki formlega lagt aftur fram fyrr en 10. desember 1969. Flutningsmenn voru úr öllum flokkum, þeir Pétur Sigurðsson, Benidikt Gröndal, Jónas Árnason og Jón Skaptason.

Í fyrstu grein sagði: Stofna skal opinberan sjóð, sem beri heitið „Þróunarsjóður“ – og síðan var upptalning á hlutverkum sjóðsins, þar sem m.a. kemur fram að hann eigi að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um ráðstöfun þess fjár sem veitt eru til þróunarmála í fjárlögum hvers árs og aukinheldur að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um fjárframlög. Sjóðurinn á einnig að skipuleggja þátttöku Íslands í framkvæmdum í þágu þróunarlanda á vegum Sameinuðuð þjóðanna og vinna að skipulagningu framkvæmda í þágu þróunarlanda sem kunna að vera kostaðar af íslenska ríkinu, „annað hvort einu samn eða í samstarfi við aðrar þjóðir“, eins og segir í frumvarpinu.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Eitt stærsta vandamál heimsins nú á dögum er tvímælalaust hið ört vaxandi bil milli ríkra þjóða og snauðra. Sú staðreynd, að um 1400 milljónir íbúa jarðar svelta og um 950 milljónir skortir nauðsynleg næringarefni, meðan auður fárra iðnaðarþjóða vex stöðugt, er meiri ógnun við heimsfriðinn í framtíðinni en nokkur deilumál þjóða í milli.

Hin ört vaxandi fólksfjölgun, sérstaklega í þróunarlöndunum, á mikinn þátt í eymd og þjáningu íbúanna. Árið 1960 voru íbúar jarðar 3 milljarðar, en 1965 voru þeir orðnir 3.3 milljarðar. Á fyrstu sextíu árum þessarar aldar hefur íbúafjöldi jarðar nær tvöfaldazt, og ef mannkyninu fjölgar jafnmikið á ári og undanfarið, má búast við tvöföldun á 35 ára fresti.

Hinn sveltandi hluti heimsins hlýtur að rísa gegn hinum auðugu þjóðum, ef hinar síðarnefndu breyta ekki algjörlega um afstöðu gagnvart fátæku þjóðunum og veita þeim réttlátan hlut í auðæfum heimsins í stað stöðugs arðráns. Undirstaða auðlegðar flestra iðnaðarþjóða er lágt verð hráefnis og ódýrt vinnuafl í þróunarlöndunum. Má benda á, að heimsmarkaðsverð á hráefnum og matvælum, sem er aðalútflutningur þróunarlandanna, lækkaði úr 27% árið 1953 í 19.3% árið 1966 og þessi lækkun heldur áfram.“

Síðar í greinargerðinni segir:

Aðstoð við þróunarlöndin hefur ekki verið samþykkt einu sinni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, heldur oft, og er vitað, að sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hefur verið í hópi þeirra sendinefnda, sem goldið hafa jáyrði við samþykkt þessarar ályktunar (en gert fyrirvara um 1% markið). Vissulega er því eðlilegt, að aðstoð Íslands sé byggð á grundvelli þessarar ályktunar, og þó að nú sé harðara á dalnum hjá okkur en oft áður, skiptir það litlu máli, þegar örbirgðin í þróunarlöndunum er höfð í huga og hið yfirvofandi hættuástand í þeim heimshluta. Þegar rætt er um hlut Íslands í aðstoð við þróunarlöndin, er hollt að minnast þess, hve skammt er síðan hungurdauði ógnaði tilveru íslenzku þjóðarinnar. Þá sættu Íslendingar ámóta viðskiptakjörum og þróunarlöndin í dag. 90% íbúanna stunduðu landbúnað í dreifbýlinu, en innlendur iðnaður var eingöngu heimilisiðnaður. Fæðingartalan var há, en dánartalan enn hærri. Það er ekki öld síðan Ísland bar öll einkenni þróunarlands, og enn í dag byggjum við afkomu okkar á einhæfum útflutningi hráefna. Því má segja, að söguleg reynsla þjóðarinnar skyldi okkur til að ríða á vaðið og verða meðal fyrstu þjóðanna, er gera tilmæli Sameinuðu þjóðanna að veruleika. Slíkt næst aðeins með skipulegri aðstoð hins opinbera í krafti lagasetningar, en ekki eingöngu með fórnfúsu starfi einstaklinga eða félagasamtaka þrátt fyrir góðan vilja. Mikilvægt er, að mikill hluti væntanlegrar aðstoðar Íslands fari í gegnum Sameinuðu þjóðirnar eða hjálparstofnanir þeirra.“

Það er skemmst frá því að segja að frumvarpi var tekið til fyrstu umræðu á tveimur fundum í neðri deild Alþingis, 15. desember 1969 og 19. janúar 1970 en síðan tók forseti málið af dagskrá. „.. og var það ekki á dagskrá tekið framar,“ eins og segir í skjölum Alþingis.

Í næsta pistli: Fyrstu lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum