Hoppa yfir valmynd
21.01. 2022 Utanríkisráðuneytið

Tvíhliða aðstoð forsenda frumvarpsins - 6. hluti

Alþýðublaðið, 1970. - mynd

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Þar var komið sögu að þriggja manna nefndin um aðstoð Íslands við þróunarlöndin hafði verið beðin um að skila svokölluðu endanlegu áliti eftir að hugmyndir um sérstakan „þróunarsjóð“ höfðu verið teknar af dagskrá þingsins. Endanlega álitið lá fyrir frá nefndinni, þeim Ólafi Björnssyni, Sigurði Guðmundssyni og Ólafi Stephensen, í febrúar 1970. Síðla sama árs, í októberlok, kom frumvarpið fram á þingi og Ólafur Björnsson fylgdi því úr hlaði fáeinum dögum síðar, 4. nóvember, enda var hann fyrstur þingmanna „til þess að bera þetta mál inn í þingið,“ eins og hann komst sjálfur að orði. Aðrir flutningsmenn frumvarpsins voru þeir Björn Jónsson, Jón Ármann Héðinsson, Karl Guðjónsson og Ólafur Jóhannesson.

Ólafur Björnsson gerði grein fyrir þeim drætti sem orðið hafði frá því nefndin var skipuð haustið 1965 og vísaði til efnahagsörðugleikanna sem skullu á seinni hluta ársins 1967, „sem hlutu að setja svip sinn mjög á alla fjárlagaafgreiðslu og þá auðvitað um leið á mat á möguleikum á því að leggja fé fram í þessu skyni sem öðru. Þessir efnahagsörðugleikar og það, hvað mjög þrengdi vegna þeirra að öllum fjárveitingum, urðu svo til þess, að hlé varð þá um skeið á störfum nefndarinnar.“

Frumvarpið var í þrígang rætt á þingi þennan veturinn, fyrst 4. nóvember 1970 á þingskjali 71, í annað sinn við aðra umræðu 26. nóvember sama ár og loks við þriðju umræðu 17. mars 1971. Það er full ástæða til þess að líta á viðhorfin sem uppi voru milli þingmanna og rýna aðeins í þau atriði sem ágreiningur var um. Fyrst er þó að líta á sjálft frumvarpið en í 1. grein þess segir: Komið skal á fót opinberri stofnun, er nefnist Aðstoð Íslands við þróunarlöndin.

Áhersla á kynningarhlutverk til að efla áhuga almennings

Í 2. greininni um hlutverk stofnunarinnar segir að hún skuli í fyrsta lagi gera tillögur um hugsanlegar framkvæmdir í þágu þróunarlandanna, skipuleggja slíkar framkvæmdir og hafa eftirlit með þeim. Í öðru lagi að vinna á annan hátt að auknum samskiptum Íslands og þróunarlandanna, á sviði menningarmála og viðskipta og leggja skuli áherslu á tiltekin verkefni þar efst á blaði er að vinna að kynningu á þróunarlöndunum og málefnum þeirra „með það fyrir augum að efla áhuga almennings á aukinni aðstoð við þau.“ Þá er vikið að auknum menningartengslum og nefndur m.a. möguleikinn að veita ungu fólki aðgang að hérlendum menntastofnunum. Einnig er minnst á viðskiptatengsl og fram kemur að stofnunin á líka að veita upplýsingar og leiðbeiningar til annarra sem hafa með höndum hjálparstarfsemi í þágu þróunarlandanna. Loks er eitt af hlutverkunum að skipuleggja og hafa eftirlit með verkefnum sem Íslandi kynnu að vera falin af hálfu Sameinuðu þjóðanna.

Í 3. greininni er stofnuninni heimilt að stofna til samskota meðal almennings í þágu ákveðinna verkefna; 4. greinin fjallar um stjórnina sem á að vera skipuð fimm mönnum sem kosnir eru af sameinuðu Alþingi; 5. greinin er heimild stjórnar til að leita sérfræðilegrar aðstoðar; 6. greinin fjallar um að kostnaður sé greiddur úr ríkissjóði og 7. greinin er um gildistöku laganna.

Ekki þörf sérstakrar löggjafar um framlög til alþjóðastofnana

Í frumvarpinu er sem sagt gert ráð fyrir að „komið skuli á fót opinberri stofnun, er nefnist Aðstoð Íslands við þróunarlöndin“ en í fyrri tillögum sem komu fram á þingi var ekki tekin afstaða til þess hvort aðstoðin yrði í mynd framlaga til alþjóðlegra stofnana eða með sérstakri stofnun sem hefði með höndum tvíhliða þróunaraðstoð, „en í henni felst það, að Íslendingar sjálfir mundu þá skipuleggja og annast framkvæmdir til aðstoðar í þróunarlöndunum annaðhvort einir eða eftir atvikum í samvinnu við aðra,“ eins og fram kom í máli Ólafs Björnssonar fyrsta flutningsmanns. Hann sagði þetta vera grundvallarmun „því að ef sú leið yrði farin að leggja aðstoðina einvörðungu fram sem framlag til alþjóðlegra stofnana, þá væri ...engin þörf sérstakrar löggjafar um þetta efni. Þá væri nóg, að t.d. starfsmönnum utanríkisráðuneytis eða fulltrúum Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna væri falið að gera tillögu um það til fjárveitinganefndar, hversu því fé, sem veitt væri á fjárlögum hverju sinni, væri bezt ráðstafað. ...Ef aðstoðin er hins vegar veitt í þeirri mynd, að Ísland taki sjálft virkan þátt í skipulagningu þeirra framkvæmda, ...þá er nauðsynlegt að koma á fót innlendri stofnun... Með samþykkt þessa frumvarps væri því tekin sú afstaða til þessa máls, að stefnt skuli að því, að aðstoðin verði í þessari mynd

Ólafur færði síðan margvísleg rök fyrir því að setja ætti á laggirnar slíka stofnun og lagði áherslu á það aðstoðin væri ekki það sama og alþjóðlegt líknarstarf. „Þriðji heimurinn svokallaði er voldugt og vaxandi afl á vettvangi hins alþjóðlega samstarfs. Ef við Íslendingar viljum vera virkir þátttakendur í því, er okkur nauðsynlegt að þekkja þennan heim, komast í snertingu við hann og kynna okkur vandamál hans. Við þurfum að eignast menn, sem sérfróðir eru á þessu sviði, og þeirrar þekkingar verður að mínu áliti bezt aflað með þátttöku í aðstoð við þróunarlöndin,“ sagði hann.

Geta skuldugir gefið?

Í lok ræðunnar gerði hann 1% viðmið Sameinuðu þjóðanna að umtalsefni og kvaðst telja eðlilegt að Íslendingar stefni að því á sama hátt og aðrar þjóðir, sem slíka aðstoð veita, að 1% af þjóðartekjunum renni til aðstoðar við þróunarlöndin. Um þetta atriði spunnust miklar umræður og breytingartillögur þegar frumvarpið var tekið til þriðju umræðu 17. mars árið eftir. Í millitíðinni fór önnur umræða fram 26. nóvember 1970. Við upphaf þeirrar umræðu nefndi Ólafur Björnsson að það sjónarmið hefði komið fram um málið á opinberum vettvangi, að „vegna þess að Íslendingar skulda talsvert erlendis, þá sé ekki rétt, að þeir gerist fjármagnsútflytjendur á þann hátt að veita aðstoð til þróunarlandanna.“ Og hann spurði undrandi: „...þætti okkur það ekki dálítið vafasamur boðskapur, ef sagt yrði við okkur, að svo lengi sem við ekki gætum greitt upp öll okkar lán í lánastofnunum og annars staðar, mættum við hvorki lána né gefa neinum neitt?“

Einar Ágústsson var eini fulltrúi allsherjarnefndar sem gerði fyrirvara þegar frumvarpið var afgreitt frá nefndinni. Hann gerði ítarlega grein í ræðu við 2. umræðu fyrir afstöðu sinni og fyrirvaranum sem fólst í efasemdum um réttmæti þess að setja sérstaka íslenska stofnun á laggirnar og óttanum við spillingu. „Það er almennt álitið, að sérfræðiþekkingu þurfi til þess að koma þessari aðstoð fyrir og það sé mjög auðvelt að gera jafnvel meira ógagn en gagn og það þurfi að búa vel um hnútana til þess að tryggja, að viðtakendur - sú þjóð, sem þiggur aðstoðina - noti hana rétt fólkinu til hagsbóta, en ekki þannig, að einstakir aðilar í viðtökulöndunum mati krókinn á slíkri aðstoð, eins og dæmi eru til um og dæmi væri hægt að nefna um. Og það, sem ég dreg í efa í þessu sambandi, er það, að Íslendingar geti aflað sér þessarar sérþekkingar á málefnum þróunarlandanna á þann hátt, að það kosti ekki of mikinn hluta af þeirri takmörkuðu aðstoð, sem Íslendingar geta í té látið.“ Og síðar í ræðunni sagði Einar: „Við erum aðilar að Sameinuðu þjóðunum, og við störfum á þeirra vettvangi. Hvers vegna eigum við ekki að nota þær leiðir, sem þar koma til greina? Hér starfar Rauði krossinn, deild úr Alþjóða Rauða krossinum. Er ekki hægt að notast við hann? Hann hefur 10 ára reynslu í þróunarhjálp.“

Ólafur Björnsson svaraði Einari og sagði af skiljanlegum ástæðum væri þróunaraðstoð og hjálparstarfi mjög blandað saman í almennum umræðum um þessi mál. „En alþjóðleg líknarstarfsemi hefur auðvitað því hlutverki að gegna að koma til hjálpar, þar sem neyðarástand skapast, senda matvæli, fatnað og annað til nauðstaddra, og slíkt ástand getur auðvitað skapazt í þróunarlöndum og í öðrum löndum. Hin eiginlega aðstoð við þróunarlöndin gegnir hins vegar fyrst og fremst því hlutverki að hjálpa þessum þjóðum til þess að nýta náttúruauðlindir sínar og aðra framleiðslumöguleika. Þess vegna get ég ekki á þetta fallizt, þó að starfsemi þeirra aðila hér á landi, sem taka þátt í alþjóðlegri líknarstarfsemi, sé alls góðs makleg.“

Þriðja umræða og samþykkt frumvarpsins í næsta pistli. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum