Hoppa yfir valmynd
26.01. 2022 Utanríkisráðuneytið

Fjársvelti og aðstöðuleysi nýrrar stofnunar - 7. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Í lok marsmánaðar árið 1971 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Flutningsmenn voru Ólafur Björnsson, Björn Jónsson, Jón Ármann Héðinsson, Karl Guðjónsson og Ólafur Jóhannesson.

Í 1. grein sagði: „Komið skal á fót opinberri stofnun, er nefnist Aðstoð Íslands við þróunarlöndin. 2. grein var svohljóðandi: Hlutverk stofnunarinnar skal vera: 1. Að gera tillögur um hugsanlegar framkvæmdir í þágu þróunarlandanna, er kostaðar yrðu af íslenzka ríkinu samkvæmt fjárlagaheimild, annaðhvort eingöngu eða í samstarfi við önnur lönd, skipuleggja slíkar framkvæmdir og hafa eftirlit með þeim. 2. Að vinna á annan hátt að auknum samskiptum Íslands og þróunarlandanna, bæði á sviði menningarmála og viðskipta. Lögin tóku gildi 1. apríl.

Stofnunin „Aðstoð Íslands við þróunarlöndin“ tók til starfa - að nafninu til - 1. apríl 1971 í samræmi við lögin sem samþykkt voru viku fyrr. Stofnunin hafði hins vegar engar fjárveitingar á þessu fyrsta ári en Alþingi kaus henni stjórn. „Fyrsta árið, sem stofnunin starfaði, hafði hún ekki til umráða neina fjárveitingu, og árið 1972 voru aðeins veittar þrjár milljónir til starfsemi hennar,“ segir Ólafur Björnsson prófessor og þingmaður í grein í 19. júní, ársriti Kvenréttindafélagsins, en hann var í apríl 1971 skipaður  formaður stjórnarinnar. Með honum í stjórn voru kosnir Gunnar G. Schram prófessor, Jón Kjartansson forstjóri, Ólafur R. Einarsson menntaskólakennari og Örlygur Geirsson stjórnarráðsfulltrúi. Gunnar flutti reyndar af landi brott skömmu síðar og þá kaus Alþingi Skúla Möller kennara í hans stað.

Á fyrsta starfsári „Aðstoðarinnar“ eins og stofnunin var oft kölluð „var rætt um að eðlilegt væri að Ísland tæki þátt í hinu norræna samstarfi sem þegar var komið á um aðstoð við þróunarlönd,“ eins og Björn Dagbjartsson orðar það í Fréttbréfi ÞSSÍ löngu síðar þegar hann skrifar um samstarfið við Norðurlöndin. Ísland gerðist árið 1973 formlegur aðili að svokölluðum Oslóarsamningi frá árinu 1968 um samstarf Norðurlandanna til aðstoðar þróunarríkjum.

Vísir að auknum samskiptum

„Fjárveitingar til stofnunarinnar hafa hér á landi verið af svo skornum skammti, að um tvíhliða aðstoð, sem neinu munar, hefir ekki verið að ræða. Hins vegar hefir Ísland átt aðild að hinum norrænu verkefnum síðan 1973 og hefir tekið þátt í kostnaði við þau samkvæmt reglum, sem Norðurlöndin hafa komið sér saman um. Þessi norrænu verkefni eru þrjú, svokölluð samvinnuverkefni í Kenyu og Tanzaníu og landbúnaðarverkefni í Tanzaníu,“ segir Ólafur Björnsson í grein sinni í 19. júní ritinu, árið 1975. „Starf Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin hefir hingað til verið svo smátt í sniðum, að varla er hægt að tala um meira en vísi að auknum samskiptum við þriðja heiminn,“ segir þar ennfremur.

Björn Þorsteinsson kennari var fyrsti og eini starfsmaður Aðstoðarinnar, lausráðinn alla tíð í hlutastarfi frá haustinu 1971. Björn skrifar um starfsemina fyrstu árin í 1. tbl. fréttabréfs Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin sem kom út fjölritað í janúar 1977, m.a. um fjárveitingar: Þær voru 3 milljónir 1972, 5 milljónir 1973, 5 milljónir 1974, 10 milljónir 1975 og 12.5 milljónir 1976. Um síðustu fjárveitingarnar skrifar Björn: „Báðar þessar fjárveitingar voru rétt nægilegar til að standa við samningsbundnu framlögin. Það var því útséð um það að stofnunin gæti sinnt að öðru leyti þeim verkefnum sem henni ber samkvæmt lögum. Á því er engra breytinga von, nema fjárveitingavaldið sjái sér fært að auka fjárveitingar til stofnunarinnar. Verður að vona að ráðamenn og Alþingi sjái sig um hönd í þessum efnum fyrr en seinna, því að lög, sem þessi hafa ærið lítið gildi ef ekki er hægt að framfylgja þeim. Verður að segja eins og er, að starfsgrundvöllur stofnunar, sem þessarar, er auðvitað enginn ef hún verður áfram í fjársvelti eins og hún hefur verið til þessa.“

Þróunarfé til Íslands meira en framlög til þróunarríkja

„Þiggjum yfirleitt meira úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna en við verjum til styrktar þróunarlöndum,“ sagði í fyrirsögn Tímans vorið 1976 en þá hafði komið út skýrsla stjórnar Aðstoðarinnar fyrir starfstímabilið 1971-1975. Tíminn segir: „Í ár má ætla að 1% þjóðartekna okkar verði um 1.5 milljarðar króna, og er þá ljóst að framlag Íslands þetta ár er aðeins um ½ prómill. ... Hitt er þó alvarlegra, að Íslendingar hafa þegið jafn mikið og þó oftar meira, úr sjóðum samkvæmt fjárlagafrumvarpi,“ segir þar. Í bókinni Stjórnarráð Íslands er einnig fjallað um þróunarsamvinnu frá þessu sjónarhorni en greiðslur frá UNDP, Þróunarstofnun SÞ, til Íslendinga voru stöðvaðar í mars 1976 þegar þær námu 400 þúsund dollurum og höfðu farið fram úr áætlun. „Í skýrslu sinni um utanríkismál 1976 nefndi utanríkisráðherra að „styrkir Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna væru fyrst og fremst ætlaðir hinum fátækari þróunarlöndum“ og hlyti það að vera kappsmál Íslendinga að árlegt framlag þeirra samsvaraði að minnsta kosti þeim greiðslum sem rynnu til landsmanna, svo svo hefði ekki verið hingað til. - Þróunaraðstoðin ákvað árið 1976 að úthluta Íslendingum sömu upphæð í þróunaraðstoð og þeir hefðu fengið næstliðin fimm ár. En ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að afþakka þessa aðstoð „á þeirri forsendu, að vanþróuð ríki ættu að hafa forgang og að rétt þyki að Ísland sé frekar gefandi en þiggjandi að sjóðum Sameinuðu þjóðanna.“ (Stjórnarráð Íslands, bls. 346-347, höf: Ólafur Rastrick og Sumarliði R. Ísleifsson).

Fjársvelti og aðstöðuleysi

Fjársvelti og aðstöðuleysi var einkennandi fyrir stofnunina þau tíu ár sem hún starfaði, Björn Þorsteinsson hafði t.d. aðstöðu í herbergiskytru, fyrst í Borgartúni 7 hjá Fasteignamati ríkisins og síðan hjá ÁTVR á Lindargötu. „Stofnunin er í sjálfheldu,“ er haft eftir Ólafi Björnssyni árið 1979 í grein Helgarpóstsins en hún hefst á þessum orðum: Sú stofnun sem sér um þátt Íslands í aðstoð við þróunarlöndin, „Aðstoð Íslands við þróundarlöndin“ er í fjárhagslegu svelti og hefur verið það frá því hún var sett á laggirnar með lögum frá Alþingi árið 1971. Á Alþingi hefur á sama tíma ríkt áhugaleysi um málefni stofnunarinnar, og illa hefur gengið að fá þingmenn til að samþykkja samningsbundin framlög til þrúnarhjálpar.“ Í greininni kemur m.a. fram haustið 1978 hafi Alþingi hafnað beiðni frá AÍÞ um fimm milljóna króna framlag til stjórnunar, skrifistofu og upplýsingastarfsemi. „Ef farið er að leggja út í eitthvert skrifstofuhald étur þetta sig meira og minna upp sjálft. Það er ekki meira fé en svo, sem við leggjum í þróunaraðstoð, að það á að renna í hana óskipt,“ er haft eftir Geir Gunnarssyni alþingismanni.

Vextir notaðir í styrki

Björn Þorsteinsson lýsir því í þessari sömu grein hvernig fjár er aflað til að senda fólk til þróunarlanda til að kynna sér málin af eigin raun, „...með því að taka framlögin frá ríkinu út jafnóðum og þau hafa fengist greidd, og leggja þau inn í banka. Þar hafa þau síðan legið á vöxtum þar til eftir þeim hefur verið kallað. Vextina höfum við síðan notað, með leyfi ráðuneytisins, til að styrkja fólk til ferða til þróunarlanda. Þrír Íslendingar fengu slíka styrki, fyrst Margrét Einarsdóttir sem sótti ráðstefnu í Osló „þar sem rædd voru vandamál kvenna í þróunarlöndunum með þátttöku fjölda kvenna þaðan,“ (ÓB í 19. júní ritinu), síðan Kristín Tryggvadóttir kennari sem fór til Tansaníu og safnaði efni í samfélagsfræðiverkefni, og loks Páll Heiðar Jónsson sem gerði nokkra útvarpsþætti um Grænhöfðaeyjar.

Þá tók stofnunin á árunum 1972 til 1974 þátt í því í samráði við utanríkisráðuneytið að kosta dvöl íslenskra skipstjórnarmanna í Indlandi þar sem þeir leiðbeindu mönnum við fiskveiðar. Í næsta pistli verður fjallað um verkefni Aðstoðarinnar á árunum 1971-1981. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum