Hoppa yfir valmynd
28.01. 2022 Utanríkisráðuneytið

Fyrstu tvíhliða verkefnin í Tansaníu, Kenía og Mósambík - 8. hluti

Viðtal við Baldur Óskarsson í Tansaníu í tímaritinu Hlyni. - mynd

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Fjársvelti og aðstöðuleysi einkenndu starf Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin þau tíu ár sem stofnunin starfaði. Hún var stofnuð árið 1971 og starfaði til ársins 1981 þegar Þróunarsamvinnustofnun Íslands tók til starfa. Aðstoðin, eins og hún var oftast nefnd, var á hrakhólum með húsnæði á starfstíma sínum og hafði aðeins starfsmann í hlutastarfi hér heima, Björn Þorsteinsson, sem síðar varð bæjarritari í Kópavogi. Þegar á árunum 1972 til 1974 tók Aðstoðin þátt í því, í samráði við utanríkisráðuneytið, að kosta dvöl íslenskra skipstjórnarmanna í Indlandi þar sem þeir leiðbeindu heimamönnum við fiskveiðar. En hver voru fyrstu og helstu verkefni Aðstoðarinnar í tvíhliða þróunarsamvinnu og hvar?

Því svarar Björn Dagbjartsson sem síðar varð framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og vísar til aðildar Íslands árið 1973 að svokölluðum Oslóarsamningi frá 1968. Björn skrifar:

„Mest af því fé sem veitt var til „Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin“ fram til ársins 1980 fór í það að greiða framlag Íslands til norrænna samstarfsverkefna. Samstarfið var mjög náið. Verkefni voru þannig uppbyggð að eitt Norðurlandanna hafði yfirumsjón og stjórn þess með höndum. Stöður voru auglýstar á öllum Norðurlöndunum og reynt að sjá til þess að vörur og þjónusta sem til þyrfti væri keypt í því norræna landi sem hagkvæmast var. Framlög runnu öll í einn pott samkvæmt norræna deililyklinum (fordelingsnøglen) þar sem Ísland greiðir 1%. Stjórn verkefnisins gerði svo grein fyrir fjármálunum, bæði áætlaðri fjárþörf samkvæmt framkvæmdaáætlun, sem og notkun fjár og framgangi verkefna.

Á þessum árum tók Ísland þátt í uppbyggingu samvinnureksturs í Tansaníu og Kenýa og stórum landbúnaðarverkefnum í Tansaníu og Mósambík. Margir Íslendingar voru ráðnir til þessara verkefna og Ísland tók þátt í að undirbúa og fylgjast með verkefnum í gegnum sérstakar nefndir og ráð sem til þessa voru sett á stofn.“ (Fréttabréf um þróunarmál, 1999; 14 (2), bls. 3-4).

Í grein Ólafs Björnssonar formanns stjórnar Aðstoðarinnar í tímaritinu 19. júní sem út kom 1975 gerir hann nánar grein fyrir þessum fyrstu þremur samnorrænu verkefnum sem Ísland á aðild að í tvíhliða þróunarsamvinnu, þ.e. svokölluð samvinnuverkefni í Kenía og Tansaníu, og landbúnaðarverkefni í Tansaníu. Verkefnið í Mósambík kemur til sögunnar síðar.

„Samvinnuverkefnin felast í leiðbeiningum um rekstur fyrirtækja með samvinnusniði. Er þar um að ræða fyrirtæki á sviði vörudreifingar, framleiðslu, lánastarfsemi og fleira. Allmargir ráðunautar eru starfandi í báðum löndunum og veita meðal annars leiðbeiningar um rekstur fyrirtækjanna, reikningshald og samvinnufræðslu. Landbúnaðarverkefnið í Tanzaníu felst hins vegar í því að Norðurlöndin reka sameiginlega stofnun, sem veitir ýmis konar fræðslu um jarðrækt og kvikfjárrækt og rekur auk þess víðtæka tilraunastarfsemi í ýmsum greinum landbúnaðar, sem rekinn er í Tanzaníu. Nú eru alls starfandi níu Íslendingar sem ráðunautar við þessi verkefni í þessum tveimur Afríkuríkjum. Starfa þeir allir við samvinnuverkefnin í Kenyu og Tanzaníu. Tveir eru að störfum í Tanzaníu, þeir Baldur Óskarsson og Gunnar Ingvarsson. Í Kenyu eru starfandi sjö ráðunautar, þeir Haukur Þorgilsson, Jóhannes Jensson, Ólafur Ottósson, Óskar Óskarsson, Sigfús Gunnarsson, Sigurlinni Sigurlinnason og Steinar Höskuldsson.“

Í fyrsta tölublaði Fréttabréfs Aðstoðarinnar frá janúar 1977 eru upplýsingar um fyrirhugað verkefni í Mósambík. Þar segir: „Í nokkurn tíma hafa umræður um að stofna til fleiri samnorrænna verkefna en í Tanzaníu og Kenya verið ofarlega á baugi á formannaráðstefnum norrænu þróunarlandastofnananna. Hefur einkum komið til álita að veita Mosambique aðstoð á líkum grundvelli og gert er í Kenya og Tanzaníu. Íslendingar hafa ekki getað tekið jákvæða afstöðu til þessa máls þar eð fjármagn til slíks verkefnis yrði að fá hjá fjárveitingavaldinu, en til þessa hefur ekki fengist meira en svo að hægt hefur verið að standa við skuldbindingar þær sem Íslendingar tóku á sig vegna verkefnanna í Kenya og Tanzaníu.“

Meira síðar. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum