Hoppa yfir valmynd
01.02. 2022 Utanríkisráðuneytið

Unnið að bættum hag stúlkna í Síerra Leóne

Friðsemd Sveinsdóttir (til hægri), ásamt Rebecca Larsson (til vinstri) forstöðukonu Aberdeen Women's Center, spítala þar sem konur geta gengist undir aðgerð vegna fæðingarfistils, og Rosetta E. Hazeley (miðjunni), samstarfskonu hjá UNFPA.  - mynd

Utanríkisráðuneytið styrkir nú þrjár ungliðastöður hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) og er ein þeirra hjá Mannfjöldasjóði SÞ (UNFPA) í Sierra Leóne. Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir flutti til Sierra Leóne í nóvember og hóf störf sem ungliði á landsskrifstofu UNFPA í höfuðborginni Freetown. Friðsemd er mannfræðingur með MA gráðu í hnattrænni heilsu. Þetta er ekki hennar fyrsta dvöl í álfunni en hún hefur áður unnið að bættri kyn- og frjósemisheilsu og valdeflingu stúlkna í Úganda. Eitt helsta hlutverk Friðsemdar hjá Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna er að styðja við kyn- og frjósemisheilsu ungmenna og þá sérstaklega stúlkna í Sierra Leóne.

Stúlkur og konur í Sierra Leóne eru hvað verst staddar í heiminum, en samkvæmt alþjóðlegum jafnréttisstuðli 2020 (Gender Equality Index) mælist landið í sæti 155. af 162 þegar kemur að kynjajafnrétti. Konur standa frammi fyrir ýmsum vandamálum allt frá barnsaldri. Kynbundið ofbeldi er útbreitt í landinu og limlestingar á kynfærum stúlkna svo algeng hefð að um 90 prósent kvenna hafa orðið fyrir slíkri misþyrmingu. Barnahjónabönd eru einnig algeng í Sierra Leóne en 29,6 prósent kvenna sem nú eru á aldrinum 20-24 ára voru giftar fyrir 18 ára aldur, og 8,6 prósent kvenna í sama aldurshópi voru giftar fyrir 15 ára aldur (DHS, 2019). Hefðin rænir börn æskunni og tækifærum til að mennta sig, og hefur slæm heilsufarsleg, andleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif á börn. Barnahjónabönd leiða til ótímabærra barneigna en einnig getur ótímabær þungun leitt til hjónabands fyrir stúlkur. Um 21 prósent stúlkna á aldrinum 15-19 ára í Sierra Leóne hafa hafið barneignir (DHS, 2019). Ein alvarlegasta afleiðing ótímabærra barneigna er svokallaður fæðingarfistill (e. obstetric fistula) þar sem vandkvæði við barnsfarir leiðir til þess að móðirin rifnar þannig að fistill myndast, til dæmis á milli legganga og ristils. Fistillinn leiðir til þess að konan hefur ekki stjórn á þvagi eða saur, sem veldur oft mikilli skömm og getur jafnvel leitt til útskúfunar kvenna í samfélaginu.

Öll þessi vandamál eru nátengd og því ekki hægt að einblína aðeins á eitt vandamálanna heldur þarf að vinna heildstætt að upprætingu þeirra. Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna vinnur ötult að bættri stöðu stúlkna, kvenna og ungs fólks í Sierra Leóne. Sjóðurinn hefur þrjú meginmarkmið að leiðarljósi í sínu starfi um allan heim: Að binda enda á mæðradauða, að binda enda á kynbundið ofbeldi og skaðlegar hefðir gegn stúlkum og konum, og að allar stúlkur og konur fái að velja hvort og hvenær þær eignist börn. Á landsskrifstofu Sierra Leóne er áhersla lögð á að vinna að kynjajafnrétti, með því að vinna að kyn- og frjósemisheilsu ungmenna, upprætingu kynbundins ofbeldis og gegn skaðlegum hefðum líkt og barnahjónaböndum og limlestingum á kynfærum stúlkna. Einnig er unnið að bættri mæðraheilsu, meðal annars með þjálfun ljósmæðra, skráningu og bættum forvörnum mæðradauða, og með því að bæta og hvetja til leghálsskoðana. Einnig vinnur UNFPA í Sierra Leóne ötult gegn fæðingarfistli. Þar koma íslensk stjórnvöld inn en utanríkisráðuneytið hefur nú styrkt Mannfjöldasjóðinn til 5 ára verkefnis með það markmið að útrýma fæðingafistli í Sierra Leóne. Friðsemd tekur þátt í verkefninu en landsteymið vinnur nú að verkefnaáætlun fyrir fyrsta árið.

Auk þess að koma að verkefni UNFPA gegn fæðingarfistli, styður Friðsemd meðal annars við framlag landsskrifstofunnar til alþjóðlegs verkefnis UNFPA og UNICEF gegn barnahjónaböndum. Um er að ræða verkefni sem er unnið í 12 af þeim löndum með hafa hæstu tíðni barnahjónabanda. Verkefnið er rausnarlega styrkt af stjórnvöldum Belgíu, Kanada, Ítalíu, Hollandi, Noregi, Bretlandi, sem og Evrópusambandinu og alþjóðlegu Zonta hreyfingunni. Verkefnið miðar að því að styðja við bágstaddar stúlkur sem eru í áhættuhópi hvað varðar barnahjónabönd. Árið 2021 studdi Mannfjöldasjóður Sierra Leóne samtals 4034 stúlkur í gegnum verkefnið, í 67 þorpum þriggja héraða. Áhersla er á að ná til þeirra verst stöddu fyrst; stúlkna á strjálbýlum svæðum með lítið eða ekkert aðgengi að þjónustu sem þær eiga rétt á, stúlkna í mikilli fátækt, stúlkna með fatlanir, þeirra sem eru nú þegar óléttar eða giftar, og þeirra sem ekki hafa kost á menntun. Í gegnum verkefnið er unnið heildstætt að því að uppræta siðinn. Unnið er með stjórnvöldum að bættu lagaumhverfi til verndar stúlkna, með hagsmunaaðilum á öllum stigum hvort sem það eru trúarleiðtogar, kennarar, foreldrar eða aðrir sem geta haft áhrif á umhverfi og hag barna. Mikil áhersla er lögð á að vinna með og fræða karlmenn um stöðu kvenna og áhrif skaðlegra hefða sem og þeirra hlutverk í að uppræta þær. Mannfjöldasjóður Sierra Leóne hefur einnig sett á laggirnar örugg athvörf (e. safe spaces) fyrir stúlkur í áhættuhópi þar sem þær geta notið stuðnings hver af annarri og sótt upplýsingar um réttindi sín, þjónustu sem er í boði og fengið uppbyggjandi fræðslu. Þar læra þær um mikilvægi menntunar og slæmar afleiðingar ótímabærra hjónabanda og barneigna, sem og um fjármál, leiðtogahæfni og annað sem hjálpar þeim að standa á eigin fótum og taka upplýsingar ákvarðanir um líf sitt. Aðgengi hefur verið bætt að ungmennamiðaðri kyn- og frjósemisheilsu þjónustu, meðal annars hvað varðar gæði og aðgengi upplýsinga, aðstöðu og aðgengi að getnaðarvörnum. Stúlkur fá einnig stuðning í gegnum verkefnið til að halda áfram námi, til dæmis með úthlutun námsgagna, dömubinda og annarra nauðsynja.

Friðsemd segir það gefandi og lærdómsríkt að fá að vinna með Mannfjöldasjóðnum og sérstaklega að svo heildstæðum verkefnum sem styrkja stöðu stúlkna og ungmenna í landinu. Hún vonast til þess að reynsla sín, menntun, og þá sérstaklega sjónarhorn mannfræðinnar, nýtist til góðs í verkefnunum og almennt í starfi með Mannfjöldasjóðnum. Einnig vonast hún til þess að reynsla sín í Sierra Leóne leiði til frekari starfa í þróunarsamvinnu í náinni framtíð og þá sérstaklega að bættum hag stúlkna og kvenna.

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
3. Heilsa og vellíðan
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum