Hoppa yfir valmynd
02.02. 2022 Utanríkisráðuneytið

Lifir Aðstoðin eða deyr? - 9. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Í síðustu söguköflum hefur verið horft á fyrstu íslensku stofnunina sem sett var á laggirnar af hálfu stjórnvalda til að sinna opinberri þróunarsamvinnu - Aðstoð Íslands við þróunarlöndin, eins og stofnunin hét. Hún starfaði í tíu ár, frá 1971 til 1981, og hafði úr litlu að spila, ávallt í fjársvelti og bjó við aðstöðuleysi. Björn Þorsteinsson var eini starfsmaður Aðstoðarinnar, í hálfu starfi, en stofnunin tók á þessum tíma þátt í samnorrænum verkefnum í Kenía, Tansaníu og Mósambík, auk þess sem undirbúningur hófst í lok sjöunda áratugarins um fyrsta sjálfstæða verkefnið í tvíhliða þróunarsamvinnu: samstarfið við Grænhöfðaeyjar. Meira um það síðar.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1977 hafði fjárveitinganefnd Alþingis tvöfaldið framlög til Aðstoðarinnar, úr 12,5 milljónum í 25 milljónir, og þá skrifaði Björn dagblaðsgrein og sagði meðal annars að „dagar kraftaverkanna væru ekki liðnir þrátt fyrir allt.“ Hann skýrir ummælin með þessum orðum:

„Þeim sem ekkert þekkja til málsins þykir eflaust einum of sterkt til orða tekið, að tala um undur og kraftaverk. Til glöggvunar er ekki úr vegi að skjóta inn smávegis um þrautagöngu Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin frá því að lögin um hana voru samþykkt á Alþingi vorið 1971. - Allan þennan tíma hefur stofnunin verið meira og minna óstarfhæf vegna fjárskorts. Alþingi hefur einfaldlega ekki farið eftir eða tekið mark á fjárbeiðnum hennar. .. Meira að segja hefur komið fyrir, að fá varð aukafjárveitingu eitt árið vegna þess að Alþingi sinnti ekki fjárbeiðni svo að hægt væri að standa við gerða samninga.“ (Þjóðviljinn 26. febrúar 1977,, bls. 7).

Þótt hækkun framlaga sé talsverð í krónum talið verður raunhækkunin lítil við efnhagsaðstæður eins og ríktu hér á þessum tíma, í 50% verðbólgu. Þolinmæðin gagnvart áhugalitlum stjórnvöldum virðist vera á þrotum í lok ársins 1977 því Björn skrifar í Fréttabréf Aðstoðarinnar í desember:

Til hvers var verið að koma þessari stofnun á fót ef henni á ekki að verða kleift að starfa?

„Aðstoð Íslands við þróunarlöndin er ætlað samkvæmt lögum að annars kynningar- og upplýsingastarfsemi um þróunarlöndin. Þessari starfsemi hefur stofnunin ekki getað sinnt að neinu ráði vegna þess að fjármagn til þessa þáttar hefur ekki verið fyrir hendi. Þá hefur stofnunin ekki getað haldið opinni skrifstofu svo að nokkur mynd sé á né ráðið starfsmann til að annast þau störf sem brýnust eru. Þá hefur samvinna Íslendinga við hin Norðurlöndin á sviði uppýsinga og kynningar á þróunarlöndunum verið stórlega ábótavant þrátt fyrir góðan vilja stjórnar Aðstoðarinnar og mikinn velvilja frændþjóða okkar í þessum efnum. Allt er þetta vegna þess að hingað til hefur ekki þýtt að nefna upphæðir vegna stjórnunar, skrifstofu eða útgáfustarfsemi. Það skal á það minnt hér að lokum að þann 1. apríl 1978 verður Aðstoð Íslands við þróunarlöndin 7 ára gömul og vilji menn skoða þau lög sem henni er ætlað að vinna eftir er ekki að efa að sumir munu hugsa til hvers var verið að koma þessari stofnun á fót, ef henni á ekki að verða gert kleift að starfa?“

Tómlæti á tímum ójöfnuðar á Íslandi

Björn Þorsteinsson spurði þannig í desember 1977 og þegar í fyrstu viku næsta árs, 5. janúar 1978, skrifar hann grein í Þjóðviljann og veltir m.a. fyrir sér hugsanlegum skýringum á áhugaleysi og tómlæti þings og þjóðar á þróunaraðstoð. „Meðan þjóðfélagsóréttlætið ríður húsum hér á landi er vart að vænta þess að Íslendingar skipti sér af óréttlæti annars staðar í heiminum,“ segir hann í greininni.

Hann nefnir fyrst í greininni ójöfnuðinn á Íslandi, félagslegan og efnahagslegan, nefnir að vandkvæði þjóðfélagsins séu ætíð lögð á herðar þeim sem bera þyngstu byrðarnar. Hann vísar til kjarasamninga þar sem fleiri krónur eru jafnharðan teknar til baka í verðhækkunum og óðaverðbólgu. Samt sé því haldið fram við hátíðleg tækifæri að hvergi sé betra að búa en á Íslandi. „Íslendingar hafa undanfarin ár verið ærið afskiptalitlir um hagi annarra þjóða, sérstaklega á þetta við um þróunarlöndin, 2/3 hluta mannkynsins, sem búa við ömurleg lífsskilyrði. Þótt við séum sérstök þjóð með eigin menningu komumst við ekki hjá því í minnkandi heimi hraðfara tækni að hafa samskipti við annað fólk og aðrar þjóðir. Við erum ekki lengur einangruð þjóð, fjarri skarkala heimsins. Vandamál þróunarlandanna koma okkur því sannarlega við, þó ekki væri nema frá siðferðilegu sjónarmiði séð. Hitt er svo annað mál hvort við erum líkleg til að láta okkur eymd meðbræðra okkar nokkru skipta. Varla er það líklegt á meðan hinn almenni launamaður hér á landi verður að vinna myrkranna á milli til þess að hafa í sig og á. Því að þeir sem sætta sig við slíkt óréttlæti í sínu eigin þjóðfélagi eru ekki líklegir að láta sig eymd fólks í fjarlægum löndum skipta.“ (Þjóðviljinn 5. janúar 1978, bls. 7).

Lifir Aðstoðin eða deyr?

Í lok ársins 1978 er mælirinn næstum fullur og Björn skrifar í 5. tölublað Aðstoðarinnar í desember. „Það hlýtur að koma að því einn góðan veðurdag að Aðstoð Íslands við þróunarlöndin hrökkvi upp af vegna fjársveltis. Það fer því að verða fullkomin ástæða til þess að spyrja hvers vegna í ósköpunum hæstvirt Alþingi var að samþykkja lög um þessa stofnun fyrir rúmum 7 árum?“ Og svo bætir hann við: „En það er líkast til tilgangslaust að koma með svona spurningu, það fæst víst enginn til að svara henni.“

Þessi harðorða grein vekur heilmikla athygli og Alþýðublaðið slær upp fyrirsögn á forsíðu: “Lifir „Aðstoð Íslands við þróunarlöndin“ næstu jól“ - en tilvitnunin er sótt í lokaorð greinarinnar í Fréttabréfinu: „Það verður spennandi að fylgjast með því hvort Aðstoð Íslands við þróunarlöndin nær að lifa næstu jól eða hvort hún leggur upp laupana fyrir þann tíma. Ekki er nú hægt að segja að 8 ár sé hár aldur. Og svona til gamans að lokum er rétt að benda á, að á síðasta ári mun þróunaraðstoð Íslands hafa numið nálægt 0,06% af þjóðarframleiðslunni. Ef þessi tala (40 millj.) verður áfram þegar fjárlög hafa verið afgreidd má búast við að þróunaraðstoð Íslendinga hafi minnkað um 15-20%. Seint munu Íslendingar ná 1% markinu með þessu endemis áframhaldi.“

Tíminn grípur á lofti þessar línur og spyr í fyrirsögn: Minnkar þróunaraðstoð Íslendinga um 15-20%? - Fjárlagafrumvarpið gerir ekki ráð fyrir að hægt verði að sinna samningsbundnum framlögum á næsta ári. Tíminn rekur líka skrif Björns í Fréttabréfi Aðstoðarinnar.

„Það verður víst saga til næsta bæjar að íslenska ríkið skuli kippa burtu öllum grudvelli undan samningi, sem það er nýlega búið að gera,“ skrifar Björn Þorsteinsson ómyrkur í máli. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum