Hoppa yfir valmynd
04.02. 2022 Utanríkisráðuneytið

Fyrsti tvíhliða samningurinn við stjórnvöld í Kenía - 10. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Samningurinn við Kenía um þróunaraðstoð Íslands á sviði fiskveiða hafði verið í undirbúningi frá því í ágústmánuði 1976. Stofnunin Aðstoð Íslands við þróunarlöndin undirbjó samninginn sem var fyrsti samningur Íslands við eitt þróunarríki um samstarf í þróunarmálum og „markaði byrjun nýs kafla í þróðunaraðstoð okkar,“ eins og segir í fyrsta tölublaði Fréttabréfs um þróunarmál sem kom út löngu síðar, árið 1984. Samninginn undirrituðu þeir Joel Wanyoike, sendiherra Kenía á Íslandi, og Benedikt Gröndal utanríkisráðherra, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Áður en þeir rituðu nöfn sín sagði íslenski ráðherrann að þetta væri góð byrjun á væntanlegri áframhaldandi aðstoð Íslands við Kenía. „Hann sagði Kenya-menn vænta mikils af aðstoðinni og sagðist vera fullviss um, að kunnátta Íslendinga á sviði fiskveiða kæmi Kenya-búum að góðum notum,“ eins og segir í Morgunblaðsfrétt daginn eftir, 13. júní 1979.

Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir enn fremur: „Verkefni þetta er liður í starfsemi Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin. Íslenskur skipstjóri, Baldvin Gíslason, mun leiðbeina og kenna á vegum Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin og stjórna tilraunaveiðum í 12 mánuði, en í samningnum er ákvæði um að framlengja megi þann tíma. Enn fremur eru lögð til öll veiðarfæri í skip það sem Baldvin Gíslason hefur til afnota. Guðjón Illugason, skipstjóri, fór á árinu 1977 til Kenya í könnunarleiðangur til undirbúnings þróunaraðstoðinni.

Ýmislegt óljóst í málum þessum

Tildrögin að ferð Guðjóns voru þau að í ágúst 1976 komu hingað til lands L.P. Odero sendiherra Kenía á Íslandi og G. Ngugi verslunarfulltrúi, báðir með aðsetur í Svíþjóð. „Ferð þeirra hingað til lands var í því skyni að ræða við íslensk stjórnvöld um tiltekna aðstoð við Kenya,“ segir í fréttabréfi Aðstoðarinnar í janúar árið eftir. „Hittu þeir hér á landi ráðherra og ýmsa embættismenn og ræddu þá möguleika að Íslendingar gæfu eða lánuðu Kenya-mönnum með hagstæðum kjörum tvö fiskiskip (200 lestir) svo og veittu aðstoð við að þjálfa Kenya-búa í notkun skipanna og veiðarfæra. Á fundi með fulltrúum úr sjávarútvegsráðuneytinu, Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Félagi íslenskra fiskiskipaeigenda kom það í ljós, að ýmislegt var óljóst í málum þessum, en sú hugmynd kom aftur á móti fram, að senda Íslending til Kenya til að kynna sér aðstæður og möguleika á aðstoð við Kenya. Á fundi sínum nýverið samþykkti stjórn Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin, að bjóða fram fjármagn til að kosta ferð sérfræðings til Kenya í því augnamiði að kynna sér aðstæður og möguleika á sviði fiskveiða. Er gert ráð fyrir, að sérfræðingur þessi geri síðan skýrslu um athuganir sínar sem lögð yrði fyrir stjórnvöld.“

Guðjón Illugason skipstjóri sendur á vettvang

Þessi sérfræðingur var Guðjón Illugason skipstjóri sem hafði um árabil unnið fyrir FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og dvalið langdvölum á Indlandi, í Pakistan og Úganda. Hann fór til Kenía í ársbyrjun 1977 og sneri aftur 4. mars sama ár. Í skýrslu sem hann skrifaði um ferð sína og athuganir bendir hann á möguleika fyrir Íslendinga til að veita Keníamönnum aðstoð á sviði fiskveiða. Hún sé fólgin í því að ráða íslenskan fiskiskipstjóra til þess að taka að sér skipstjórn á bátnum Shakwe fimm ára gömlum 120 tonna stálbáti, sem legið hafði við bryggju í Mombasa en „í eigu fiskideildar Kenya“ eins og segir í fréttabréfi Aðstoðarinnar. „Með þessu var verið að benda á þann möguleika að hægt sé að hefja tilraunaveiðar úti fyrir strönd Kenya í því skyni að kanna fiskimið þar. Kenyamenn hafa lítið sem ekkert gert í þeim málum til þessa. Engin áætlun mun vera í gangi hjá Kenyastjórn um stórfellda sókn í fiskveiðum. Þá eru möguleikar Íslendinga til að taka að sér stór og fjárfrek verkefni heldur ekki möguleg né raunhæf að svo komnu máli,“ segir enn fremur í fréttabréfinu.

Baldvin Gíslason ráðinn í fullt starf

Skýrslan lá fyrir frá Guðjóni á vordögum 1977. Aðstoðin sendi síðan, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið, hugmyndir um samstarf til stjórnvalda í Kenía. Í lok árs höfðu engin svör borist. Samkvæmt frásögnum fjölmiðla hófst formlegt samstarf sumarið 1978 en þá kom Baldvin Gíslason ásamt fjölskyldu sinni til Mombasa í Kenía, nánar tiltekið í lok júlímánaðar það ár. Samningurinn um þróunaraðstoðina var hins vegar ekki undirritaður fyrr en tæpu ári síðar, eða 12. júní 1979. Baldvin Gíslason er fyrsti starfsmaðurinn sem ráðinn er í fullt starf í íslenskri þróunarsamvinnu. Hann hafði - eins og kom fram í síðasta pistli - verið fenginn til þess að fara til Grænhöfðaeyja á vegum Aðstoðarinnar síðla árs 1977. Þar dvaldi hann um þriggja vikna skeið og skrifaði skýrslu um eyjarnar og stöðu fiskveiða. Baldvin hafði starfað fyrir FAO og var nýkominn frá verkefni í Jemen þegar hann var ráðinn til starfa hjá Aðstoðinni við verkefnið í Kenía.

Næst verður nánar fjallað um störf Baldvins í Kenía en hann dvaldi þar í fjögur ár fram til júlíloka 1982. Þá lauk verkefninu. „Stjórnvöld í Keníu hafa lokið miklu lofsorði á störf Baldvins,“ sagði í fyrsta Fréttabréfi ÞSSÍ 1984. – Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum