Tvíhliða verkefni á Grænhöfðaeyjum - 11. hluti
Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.
Fyrsta stóra sjálfstæða verkefni Íslendinga í tvíhliða þróunarsamvinnu var við Grænhöfðaeyjar og hófst á starfstíma Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin. Skrifað var undir formlegt samkomulag um þróunarsamvinnu milli landanna árið 1981 en það hófst raunar árinu áður með komu skipsins M.S. Bjarts til eyjanna. Aðdragandinn er til muna lengri en upphaf samstarfsins má rekja til komu sendinefndar frá eyjunum hingað til lands sumarið 1977 undir forystu sjávarútvegsráðherra eyjanna. Stjórnmálasamband var tekið upp milli Íslands og Grænhöfðaeyja sumarið 1977 en þá voru tvö ár liðin frá því að eyjarnar hlutu sjálfstæði. Í fréttabréfi Aðstoðarinnar í desember 1978 segir um komu sendinefndarinnar:
Íslenskur skipstjóri sendur utan
„Sendinefnd þessi kom hingað í því skyni að ræða við íslenska ráðamenn um hugsanlega aðstoð Íslendinga við Cape Verde á sviði fiskveiða. Niðurstöður þessara viðræðna urðu þær að Aðstoð Íslands við þróunarlöndin í samráði við Utanríkisráðuneytið sendi Baldvin Gíslason skipstjóra til Cape Verdeeyja og fór hann þangað 23. nóvember 1977 og dvaldist þar til 15. desember sama ár. Kannaði Baldvin þar ýmsa möguleika á að aðstoða Cape Verdemenn í fiskveiðum. Eftir að Baldvin kom heim gerði hann mjög fróðlega skýrslu um eyjarnar og stöðu fiskveiða þar. Einnig lagði hann fram nokkrar tillögur um á hvern hátt Íslendingar gætu veitt aðstoð sem þeir réðu við. Þessar hugmyndir Baldvins voru síðan kynntar hér heima og einnig sendar Cape Verdemönnum.“
Og sagan er rakin áfram í Fréttabréfinu árið 1978:
„Næst gerðist það að 3 fulltrúar Cape Verdestjórnar komu hingað til lands í kynnisferð dagana 17.-30. apríl s.l. Þessir fulltrúar voru Corsino Fortes sendiherra Cape Verde í Lissabon, Humberto Bettencourt fiskimálastjóri eyjanna og Sergio de Oliveira skipstjóri. Meðan á dvöl þremenningana stóð skoðuðu þeir fiskvinnslufyrirtæki bæði í Reykjavík, Grindavík og Vestmannaeyjum, fiskiskip, skipasmíðastöðvar og niðursuðuverksmiðjur fyrir utan fyrirtæki eins og Kassagerð Reykjavíkur, Hampiðjuna og Stýrimannaskólann í Reykjavík. Þá ræddu gestirnir við ýmsa ráðamenn og embættismenn.
Í júlí s.l. kom svo bréf frá stjórn Cape Verde þar sem hún óskar eftir tækniaðstoð í fiskveiðum og var beiðni þessi byggð á tillögum Baldvins Gíslasonar. Þar var m.a. gert ráð fyrir að senda íslenskt fiskiskip með sérfróðum mönnum til að hefja tilraunaveiðar við Cape Verdeeyjar. Óskaði CapeVerdestjórn eftir því að þessi aðstoð hæfist á árinu 1979.“
Hugmyndin komin frá forsetanum
Birgir Hermannsson hjá Fiskifélagi Íslands segir í viðtali í Morgunblaðinu í nóvember 1979 að hugmyndin að því að fá Íslendinga til aðstoðar við uppbyggingu á sjávarútvegi á Grænhöfðaeyjum komi beint frá Aristides Pereira forseta Grænhöfðaeyja. Hann hafi gegnum sendiherrann í Lissabon komið með beiðni um að tekið yrði upp stjórnmálasamband milli ríkjanna og ennfremur beiðni um að Íslendingar veittu aðstoð við að þróa fiskveiðar þeirra. Corsino Fortes sendiherra kom öðru sinni til Íslands sumarið 1979 til að afhenda trúnaðarbréf sitt sem sendiherra. Þegar Einar Benediktsson sendiherra fór sömu erinda til Grænhöfðaeyja til að afhenda erindisbréf sitt var farið þess á leit við Birgi að verða honum samferða en auk þess slóst með í förina Árni Benediktsson frá SÍS, forstjóri fyrirtækis sem var ráðgefandi fyrir öll Sambandsfrystihúsin „og því réttur maður til að sjá hvernig hægt er að hjálpa á því sviði,“ eins og segir í Morgunblaðsgreininni.
Birgir var þessum málum líka kunnugur því hann hafði verið í átta ár við þjálfun og kennslu í Malasíu og Jamaíku á vegum FAO og hafði einnig starfað á rannsóknarskipum þeirra.
Ein ástæða þess að Grænhöfðamenn vilja heldur þiggja aðstoð Íslendinga en annarra þjóða er sú að þeir vilja halda stórveldunum frá sér, er haft eftir Birgi, en hann segir jafnframt að þeir séu jafnframt „fullir aðdáunar á okkur fyrir þá framtaksemi og hugmyndaauðgi sem þeim finnst við sýna við fiskveiðar, vinnslu og markaðsöflun.“
Birgir rökstyður í greininni ástæður þess að hann er því fylgjandi að Íslendingar hefji þróunarsamvinnu á Grænhöfðaeyjum. „Já, mér finnst alveg sjálfsagt að leggja lið. Þarna er um að ræða sérgrein og aðstoð frá okkur liggur því beint við.... Önnur rök eru þau að Portúgalar hafa þarna hagsmuna að gæta sem fyrri nýlenduþjóð og fylgjast vell með. Þeir mundu því sennilega fáanlegir til að kaupa meira af saltfiski frá okkur, án þess að þröngva okkur til að kaupa af þeim fleiri togara, ef slík hjálp kæmi frá okkur til Capó Verde. Auk þess sem við gætum hugsanlega fengið með góðum kjörum lánsfé frá erlendum bankastofnunum, sem vinna að aðstoð við þróunarlöndin. Við þetta má bæta að við höfum orðið okkur til skammar á undanförnum árum hvað þróunarhjálp snertir, sem kunnugt er.... Eftir að hafa skipst á sendinefndum og gefið í skyn að við séum reiðubúnir að hjálpa, ... sé ég raunar ekki að við getum dregið okkur í hlé. Íbúar Grænhöfðaeyja hafa setið af sér tækifæri til að leita hjálpar annars staðar, að þeir hafa mænt á okkur. Ég sé ekki hvernig við getum brugðist núna.“
Þrenns konar aðstoð
Árni Benediktsson var í viðtali í Vísi eftir ferðalagið til Grænhöfðaeyja sumarið 1979. „Þetta er fyrsta þjóðin, sem beinlínis biður okkur um aðstoð á þennan hátt, og okkur sem fórum til Cap Verde, yrði ekki sársaukalaust, ef á daginn kæmi, að þetta traust hefði ekki átt rétt á sér.“ Hann sá aðstoðina fyrir sér með þrennum hætti: „Í fyrsta lagi að senda fiskiskip með 3ja manna áhöfn með veiðarfærum til hringnóta- og togveiða og humargildrur. Þessi bátur verði síðan skilinn eftir, ef veiðarnar heppnast. Í öðru lagi verði ráðnar stúlkur frá Cap Verde í fiskiðnað hérna til að komast í snertingu við sem flesta þætti fiskvinnslu, og í þriðja lagi ráði sölusamtök sjávarútvegsins til sín menn í starfsþjálfun í sölumennsku og gæðaeftirliti, sem sé langt á eftir tímanum í Cap Verde.“ (Vísir, 15. október 1979, bls. 12.)
Augljóst er að Árni hefur áhyggjur af því að fjármunir til þróunarsamvinnu við Grænhöfðaeyjar fáist ekki en hugmyndir eru um að stuðningurinn feli í sér 160 milljóna króna framlag árið 1980. Ólafur Björnsson prófessor og stjórnarformaður Aðstoðarinnar staðfestir í Helgarpóstinum í nóvember 1979 að áhyggjur Árna eru ekki ástæðulausar. „Stærsta nýja verkefni okkar er aðstoð við fiskveiðar við Cape Verdeeyjar, en það hefur ekki verið tekið inn í fjárlagafrumvarpið ennþá. Við teljum æskilegt, að þar verði okkur ekki settur stóllinn fyrir dyrnar. Stjórnvöld á Cap Verde gera sér miklar vonir um þetta verkefni, þótt við höfum frá upphafi gert þann fyrirvara, að aðstoð verði aðeins veitt að við fáum fé á fjárlögum. Þá má kannski segja að það sé afsakanlegt, að þingið samþykki ekki tillögur þar sem ekki liggja fyrir nákvæmar áætlanir. En hér eru fyrir hendi nákvæmar áætlanir, og það stendur algjörlega á fjárveitingavaldinu,“ segir Ólafur Björnsson.
Björn Þorsteinsson „lausráðinn starfsmaður Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin“ eins og hann er kynntur í sömu Helgarpóstsgrein segir. „... við höfum ekkert fengið til þessa verkefnis ennþá, og ég fæ ekki séð annað en heiðarlegast væri að senda yfirvöldum Cap Verde bréf, þar sem þeim yrði vinsamlegast skýrt frá því að, að því miður geti ekkert orðið af þessu.“
Framhald í næstu viku. -Gsal