Hoppa yfir valmynd
16.02. 2022 Utanríkisráðuneytið

Íslenskur skipstjóri kennir í Kenía - 12. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

„Íslenskur skipstjóri kennir Kenyamönnum“ er fyrirsögn í Morgunblaðinu 3. ágúst 1978 og hefst á þessum orðum: „Baldvin Gíslason skipstjóri fór í gærmorgun til Kenya, en næstu vikur mun hann kynna sér aðstæður þar í sambandi við fiskveiðar og undirbúa ferð sína þangað í haust. Þangað mun hann fara til árs dvalar á vegum Aðstoðar Íslands við þróunarríkin. Mun Baldvin aðstoða Kenyamenn við uppbyggingu fiskveiða við strendur Kenya og verður hann skipstjóri á 120 tonna stálbát. Á bátnum verða stundaðar veiðitilraunir, könnun á fisktegundum og kennsla, en fram til þessa hafa Kenyamenn aðallega stundað fiskveiðar í vötnum landsins, svo sem Viktoríuvatni.“

Skemmtilegt vit í aðstoðinni

Baldvin Gíslason var fyrsti starfsmaður íslenskrar þróunarsamvinnu í fullu starfi og fyrsti tvíhliða samningur Íslands við þróunarríki, við Kenía, fólst í því að Íslendingar greiddu Baldvini laun og kostuðu dvöl hans syðra í eitt ár, í borginni Mombasa, ásamt því að leggja til veiðarfæri og annan búnað. Baldvin flutti ásamt fjölskyldu sinni til Kenía, en eiginkona hans, Helena Sigtryggsdóttir, starfaði m.a. sem sjálfboðaliði í blindraskólum og með þeim voru tvö elstu börnin á grunnskólaaldri, Gísli Rúnar og Helena Líndal sem gengu í einkaskóla í Mombasa.

Eina árið umsamda varð hins vegar að fjórum árum og þegar Baldvin sneri heim með fjölskylduna í júlílok 1982 var hann spurður að því hvort aðstoðin hefði komið að gagni: „Já, mér fannst mjög skemmtilegt vit í henni, þótt í smáum stíl væri. Þeir sem ég kenndi fóru með sína þekkingu á aðra staði og þannig breiðist þetta út.“ (Helgarpósturinn 23. janúar 1983).

Baldvin Gíslason er fæddur á Akureyri 1943. Hann lauk vélastjóranámi 1963 og prófi frá Stýrimannaskólanum 1965. Hann fór á togara frá Akureyri og síðar var hann stýrimaður og skipstjóri í Vestmannaeyjum og framkvæmdastjóri fyrir eignir Eiríks „ríka“.  Árið 1975 hóf hann störf fyrir FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, og var fyrst sendur til norðurhluta Jemen með höfuðaðsetur í borginni Hodeidah við Rauðahafið.  Þar var hann um tveggja ára skeið en veiktist heiftarlega af lifrarbólgu. „Ég varð það veikur að við urðum að fara úr Jemen í betra loftslag til að ég jafnaði mig. Kenía var það land sem Sameinuðu þjóðirnar mæltu með,“ sagði Baldvin löngu síðar í viðtali við Morgunblaðið (Mbl. 21. desember 2008).

Veggklukkan eina tækið sem virkaði!

Baldvin lýsir aðstæðum í Kenía þegar hann kemur þangað með þessum orðum: „Ég fór út í byrjun ágúst ´78 og skoðaði ströndina og bátinn, sem þá var í ansi slæmu ástandi enda ekki verið á sjó í þrjú ár. Það var til dæmis nánast ekkert sem starfaði af tækjunum í brúnni, nema veggklukkan. Ég kom síðan aftur heim og undirbjó veruna suðurfrá, setti upp tvö troll, úr efni frá Hampiðjunni, báturinn átti að vera tilbúinn um mánaðamótin október-nóvember. Þegar út var komið bað ég strax um ný tæki í bátinn, sem rekinn er af Kenya stjórn, en þar steytti ég brátt á því stóra skeri sem ríkisbáknið er þar í landi. Dýptarmælirinn kom í apríl ´81, talstöðin kom í janúar á þessu ári og radarinn er ekki kominn enn.“ (Morgunblaðið 12. september 1982).

Ingi Þorsteinsson viðskiptafræðingur skrifar grein í Vísi árið 1979 um störf Baldvins í Kenía undir heitinu „Íslensk tæknihjálp í Kenya gefst vel“ og lýsir þar SHAKWEE, bátnum sem stjórnvöld í Kenía létu af hendi fyrir rannsóknir og veiðar en nafn bátsins merkir sjófugl. Hann var smíðaður í Mombasa fyrir fiskirannsóknardeildina þar sem rannsóknarskip. Báturinn var í algerri niðurníðslu og langan tíma tók að gera hann sjófæran. „Á meðan beðið var eftir varahlutum, þá notaði Baldvin tímann til námskeiðahalds fyrir áhöfnina í vélaviðgerðum og netaviðgerðum,“ segir Ingi í greininni. Og bætir við: „Eftir að „SHAKWEE“ komst loksins á flot mjög vanbúinn öllum nútíma tækjum í brúnni, hefur árangur af starfi Baldvins farið að koma í ljós. Þegar Baldvin var inntur eftir hverju hann þakkaði góðan árangur sem náðst hefði í veiðiferðum bátsins, svaraði hann því til að pesónulega hefði hann aldrei ætlað að gera nein kraftaverk í sambandi við fiskveiðar í Kenya, heldur að veiðarfærin og meðferð þeirra gerðu kraftaverkin.“

Stýrimannaskóli í stofunni heima

Sjálfur lýsir Baldvin verkefninu með þessum orðum í Morgunblaðinu árið 2008: „Ég starfrækti eins konar stýrimannaskóla heima í stofu, þar kenndi ég einfalda siglingafræði. Trollviðgerðir og uppsetning fór fram í garðinum við húsið okkar og skipshöfnin varð okkur náin. ... Dvölin í Kenía er einn eftirminnilegasti tími ævi minnar, oft erfið en samt vel þess virði.“

Í öðru viðtali fer Baldvin líka fögrum orðum um kynni sín af heimamönnum. „Fólkið í Kenya er mjög gott og allir áhafnarmeðlimir urðu heimilisvinir okkar... Það er dýrmæt reynsla að hafa búið á slíkum stað og kynnst þessu fólki sem um svo margt er ólíkt okkur, og getað orðið því að liði. (Morgunblaðið 12. september 1982).

Baldvin segir í samtali við Heimsljós að það sé mjög nauðsynlegt að gera vel við alla sem koma að vinnu sem þessari. Sjálfur kveðst hann ævinlega hafa haft þrennt að leiðarljósi í störfum í þróunarríkjum - virða trúa manna, borða sama mat og heimamenn, og reyna að setja sig inn í tungumálið. „Þessi þrjú atriði eru þau mikilvægustu í svona annars erfiðu starfi og starfsumhverfi,“ segir hann.

Baldvin Gíslason og fjölskylda tóku sig upp nokkrum árum eftir heimkomuna frá Kenía og fluttust til Hull í Bretlandi þar sem þau hjónin hafa rekið fyrirtækið Gíslason Fish Selling Ltd í aldarfjórðung. Meðfram fyrirtækjarekstrinum veitti Baldvin um árabil ráðgjöf til alþjóðastofnana og fyrirtækja um fiskveiðar og sjávarútveg. Í Morgunblaðsgrein árið 1996 segir t.d. að hann hafi veitt ráðgjöf varðandi sókn á fjarlæg mið. „Hann fór til Viktoríuvatns á vegum indversks fyrirtækis og í vetur til Kolumbíu að kanna möguleika á veiðum fyrir íslenska útgerð. Næst heldur hann til Eritreu,“ segir í greininni. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum