Hoppa yfir valmynd
24.02. 2022 Utanríkisráðuneytið

Ferðbúast til átján mánaða dvalar á Grænhöfðaeyjum - 13. hluti

Frétt úr Morgunblaðinu apríl 1980. - mynd

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Fyrsta stóra tvíhliða verkefni Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu fólst í samstarfi við stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum sem stóð yfir í tæpa tvo áratugi, frá 1981 til 1999. Aðdragandi verkefnisins hefur verið rakinn áður. Þar var komið sögu að fyrir lá á skrifstofu Aðstoðarinnar við þróunarlöndin síðla árs 1979 uppkast að samningi að beiðni stjórnvalda á Grænhöfðaeyjum um stuðning við fiskveiðar. Kostnaðurinn var metinn á 160 milljónir en hafði ekki verið tekinn inn í fjárlagfrumvarp ársins 1980.

Úr fjármálunum rættist við endanlega gerð fjárlaga og ákvörðun er tekin um að Aðstoð Íslands við þróunarlöndin kaupi skip fyrir tilraunaveiðar og þjálfun. Þá er send út fréttatilkynning, dagsett föstudaginn 15. febrúar, svohljóðandi:

Aðstoðin kaupir skip

„Ákveðið hefur verið að veita Cap Verde aðstoð við eflingu fiskveiða á eyjunum í samræmi við beiðni stjórnvalda þar um þróunaraðstoð héðan. Aðstoðin mun felast í því að sent verður fiskiskip með skipstjóra og vélstjóra til veiðitilrauna og þjálfunar, auk þess sem kunnáttumaður á sviði útgerðar og sjóvinnu mun veita aðstoðarverkefni þessu forstöðu í landi og stunda ýmis leiðbeiningarstörf. Munu menn þessir væntanlega dveljast á Cap Verde í eitt og hálft ár. Stálskipið Víkurberg, 208 rúmlestir, smíðað árið 1965, hefur verið keypt til verkefnis þessa og verður það á næstunni búið út til fararinnar en stefnt er að því að það geti lagt af stað til Cap Verde í næsta mánuði.“ Fyrsti kaupandi að skipinu, sem smíðað var í Austur-Þýskalandi, var Síldarvinnslan á Neskaupstað og því var gefið nafnið Bjartur.

Í Þjóðviljanum daginn eftir, 17. febrúar 1980, er rekinn forsaga málsins, ferð Baldvins Gíslasonar skipstjóra suður eftir, og heimsóknir fiskimálastjóra eyjanna og sendiherra hingað til lands, skýrt er frá stjórnamálasambandi landanna og för Einars Benediktssonar sendiherra, Árna Benediktssonar og Birgis Hermannssonar til Grænhöfðaeyja, eins og áður hefur verið sagt frá hér. Síðar í sömu viku birtir Morgunblaðið frétt með fyrirsögninni „Víkurberginu breytt í Grænhöfðaför“ og greinir frá því að verið sé að vinna að ýmsum breytingum á skipinu hjá Vélsmiðjunni Bjarma í Hafnarfirði. „Meðal annars er verið að útbúa skipið fyrir togveiðar, línuveiðar og veiðar með humargildrur.“ Í fréttinni segir að kaupverð skipsins hafi verið 230 milljónir, seljandinn hafi verið Þormóður rammi á Siglufirði. „Þeir þrír, sem ráðnir verða í fyrrnefndar stöður, eiga að kenna innfæddum að fara með skip og veiðarfæri, kenna siglingafræði, sjá um tilraunaveiðar á gjöfulum hafsvæðum þarna í kring. Að 18 mánuðum liðnum verður skipið væntanlega afhent innfæddum að gjöf frá Íslendingum, en fram að því mun skipið sigla undir íslenskum fána.“

Halldór, Magni og Árni

Auk þess að auglýsa eftir þremur starfsmönnum í verkefnið, skipstjóra, vélastjóra og útgerðarmanni, birtist auglýsing í byrjun apríl 1980 frá Aðstoðinni þar sem auglýst er eftir notuðum veiðarfærum. Þar segir m.a. „Samgöngur við eyjarnar eru ekki greiðar frá Íslandi. Ekki er heldur fullljóst hvers konar veiðarfæri né veiðiaðferðir henta. Því er lagt kapp á að hafa sem fjölbreyttastan veiðibúnað með héðan að heiman strax í upphafi.“ Fram kemur í auglýsingunni að leitað sé eftir hverskyns búnaði í góðu ásigkomulagi, m.a. loðnunót, togveiðarfærum hverskonar, gálgum og rúllum, léttabáti, sextant, sjóúri og fleiru. Tekið er að gjafir sem kunni að berast A.Í.V.Þ. vegna þessa verkefnis verði metnar til fjár og geti leitt til skattívilnana. „Vinsamlegast hafið samband við Halldór Lárusson, sími 2761, Keflavík, eða Magna Kristjánsson, sími 7255, Neskaupstað,“ segir í auglýsingunni.

Þarna eru semsagt nafngreinir í fyrsta sinn tveir af þremur Íslendingum sem eru þessa vordagana árið 1980 að undirbúa ferð til Grænhöfðaeyja í þróunarverkefni. Halldór Lárusson er skipstjórinn, Magni Kristjánsson er útgerðarstjórinn, og þriðji maður er Árni Halldórsson vélstjóri. „Þeir fara með fjölskyldur sínar og vera 12 manns í Íslendinganýlendunni á Grænhöfðaeyjum,“ segir Morgunblaðið 23. apríl. Þar kemur líka fram að skipið verði 18 til 20 daga á leiðinni. Umsækjendur um stöðurnar voru um fjörutíu talsins.

Viðhöfn við höfnina í Hafnarfirði

Halldór, Magni og Árni leggja af stað á Bjarti að kvöldi laugardagsins 3. maí og það er fjölmenni í brúnni á gamla Víkurberginu sem nýjanleik hefur verið nefnt Bjartur því allir stjórnarmenn Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin eru komnir til að kveðja. Að morgni þessa merkisdags í sögu íslenskrar þróunarsamvinnu er eftirfarandi skrifað á forsíðu Tímans: „Í kvöld mun Bjartur RE leggja af stað til Grænhöfðaeyja og er ráðgert að skipið verði komið á ákvörðunarstað þann 23. n.k., en það mun koma við til þess að sækja veiðarfæri á Austfjörðum og í Cork á Írlandi til þess að taka olíu.“ Síðar í fréttinni kemur fram að fjölskyldur íslensku áhafnarinnar muni fara suðureftir síðar, en ætlunin sé að Bjartur verði þarna í ár, til að byrja með, en sex mánuðum lengur, ef vel gengur og um semst, eins og segir í fréttinni.

Framhald í næstu viku. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum