Hoppa yfir valmynd
03.03. 2022 Utanríkisráðuneytið

Íslendingar setjast að í Mindelo á Grænhöfðaeyjum - 14. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Þar var komið sögu að þrír Íslendingar eru ferðbúnir um borð í Bjarti í Hafnarfjarðarhöfn og eiga fyrir höndum siglingu suður til Grænhöfðaeyja. Það er sunnudagur 4. maí 1980 og Halldór Lárusson skipstjóri segir við blaðamann á Vísi: „Þetta er gamall bátur og það er gjarnan erfitt að koma þeim af stað, en þegar þeir eru komnir af stað, þá eru þeir góðir.“ Eins og síðar kemur í ljós reynist báturinn ekki standa undir hrósinu en á þessari stundu er skipstjórinn kátur og bætir við: „Mér líst ágætlega á þessa ferð alla, við erum með fjölskyldurnar með okkur og ég hef áður verið á veiðum á svipuðum slóðum.“ (Vísir, mánudaginn 5. maí­ 1980).

Á leiðinni til Grænhöfðaeyja kemur Bjartur við á Norðfirði og sækir veiðarfæri, eins er skipið tekið í slipp, botnhreinsað og yfirfarið. Viðdvölin eystra átti að vera tveir dagar sem urðu að tíu dögum því ýmiss konar bilanir komu í ljós. Auk Halldórs eru um borð sem ráðnir voru af Aðstoðinni til að styðja við bakið á stjórnvöldum á Grænhöfðaeyjum í fiskimálum, þeir Árni Halldórsson vélstjóri og Magni Kristjánsson útgerðarstjóri en hann hafði verið aflasæll skipstjóri á Norðfirði. Einnig var um borð Steinmóður Einarsson vélstjóri. Bjartur siglir fyrst áleiðis til Írlands, tekur olíu í Cork og heldur að því búnu suður til Grænhöfðaeyja úti fyrir vesturströnd Afríku - og kemur þangað 7. júní. Fjölskyldur Íslendinganna fljúga skömmu síðar frá Íslandi til móts við eiginmenn og feður og koma sér fyrir á framandi slóðum í hermannabröggum í borginni Mindelo.

Það næsta sem fréttist af Íslendingunum á Grænhöfðaeyjum er frásögn og vísukorn í „Fólk í fréttum“ Morgunblaðsins í lok júní en þar segir að Guðbjartur Magnason hafi látið það verða sitt síðasta verk áður en hann hélt ásamt foreldrum sínum til Grænhöfðaeyja, að skora sigurmark Þróttara frá Neskaupstað í leik í 5. flokki Íslandsmótsins gegn Leikni frá Fáskrúðsfirði. Umræddur Guðbjartur er ungur sonur útgerðarstjórans Magna sem segir í samtali við blaðið að talsverður knattspyrnuáhugi sé á Grænhöfðaeyjum en íþróttin sé þó stunduð á nokkurn annan hátt en heima á Íslandi. „Knattspyrnuskór eru ekki algengir á eyjunum og menn spila því gjarnan berfættir í sandinum..“ og svo flýtur með vísukorn sem hann sendi vinum eystra, svohljóðandi:

Fjölyrða mætti um fótbolta hér

fjörið og úthaldið makalaust er.

Samspil og kerfi þó sýnast mér fá

og síst til þess fallin að árangri ná.

Þjálfun þá vantar, en þrekið er nóg

og þannig mun einnig um hentuga skó.

Síðar um sumarið taka að berast af því fréttir að Bjartur standi ekki undir væntingum. „Lélegt og illa búið“ segir í fyrirsögn í Vísi 21. júlí og umsögnin höfð eftir vélstjóranum sem fylgdi skipinu suður á bóginn, Steinmóði Einarssyni. „Mér virðist þetta skip vera mjög lélegt og illa búið í þessa ferð enda voru bilanir að koma fram svo til alla leiðina. Skipið er orðið sextán ára gamalt og ég held að búið sé að kreista út úr því það sem hægt er og lítið orðið eftir. Það var búið að vera í algjörri niðurníðslu í mörg ár og þó að reynt hafi verið að tjasla eitthvað upp á það áður en lagt var af stað, var það meira til að koma því frá landinu heldur en að það væri gert eitthvað varanlegt.“ Sveinmóður lýsir bilunum sem fram komu á Norðfirði og segir það síðan skoðun sína að „við megum stórskammast okkur fyrir að hafa sent þetta skip og það hefði verið meiri reisn að senda eitthvað betra sem treysta mætti.“ (Vísir 21. júlí).

Gunnar G. Schram er þá stjórnarmaður Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin og svarar þessari gagnrýni þannig að þetta hljóti að vera málum blandið því skipið hafi sérstaklega verið gert upp fyrir stórar fjárhæðir. „Gagnrýnin sem kom fram á skipið var miklu fremur sú, að það væri of stórt og of vel búið fremur en hitt, enda tel ég það hreina fjarstæðu að menn sem hafa verið með skipið í nokkrar vikur séu að gefa yfirlýsingar um hæfni þess. Aðstæður þarna suður frá eru allt aðrar en hér í norðurhöfum og ekki raunhæft að gera sömu kröfur til vélanna og við þær aðstæður sem hér eru.“

Talsvert löngu síðar er í Fréttabréfi ÞSSÍ staðfest að Bjartur hafi reynst illa - og ýmislegt annað en báturinn gerði Íslendingunum erfitt fyrir. „Ýmsir erfiðleikar mættu íslensku skipstjórnarmönnunum í þessari frumraun. Báturinn hentaði ekki alls kostar og bilaði mikið; leitað var að fiskitegundum sem sagnir gengu um að fyndust í miklu magni og veiða mætti í nót en reyndust tálsýn; vatnsöflun og viðgerðir í landi voru erfiðleikum háð á þessum tíma; húsnæðisvandræði og tungumálaerfiðleikar gerðu mönnum erfitt fyrir. Þrátt fyrir þetta var leitað fiskjar og gerðar togveiðitilraunir sem voru nýjung á eyjunum. Veidd var fiskitegundin sargo og gerðar tilraunir með að fljúga með aflann ferskan á erlendan markað. Gerðar voru yfirgripsmiklar sjávarhitamælingar. Innlend áhöfn fékk þjálfun í meðferð skips, veiðarfæra og fiskileitartækja.“ (Fréttabréf um þróunarmál, nr. 2. 2. árg. 1. tbl. mars 1986).

Björn Dagbjartsson síðar framkvæmdastjóri ÞSSÍ lýsir fyrstu árunum á svipaðan hátt í Fréttabréfi ÞSSÍ árið 2001 þegar hann segir: „Segja má að fyrstu tvö árin hafi einkennst af reynsluleysi með tilheyrandi erfiðleikum. Undirbúningi verkefnisins var einnig ábótavant og var árangur starfsins eftir því.“ (Fréttbréf ÞSSÍ 29. tbl. 16. árg. apríl 2001).

Í næsta hluta verður fjallað frekar um fyrstu misseri Íslendinga á Grænhöfðaeyjum. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum