Hoppa yfir valmynd
16.03. 2022 Utanríkisráðuneytið

Annað samningstímabil við stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum - 15. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Fjórtán Íslendingar, fjórar fjölskyldur með börn, eru á Grænhöfðaeyjum sumarið 1981 og hafa þá verið tæpt ár syðra á vegum Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin. Verkefnið er til átján mánaða og á að ljúka með haustinu, 30. september. Í Mindelo eru þau Magni Kristjánsson útgerðarstjóri og Sigríður Guðbjartsdóttir og tvö ung börn þeirra, Guðbjartur og Bryndís, Halldór Lárusson skipstjóri og Ragna Árnadóttir og ungur sonur, Ásgeir, Árni Halldórsson vélstjóri og María Gunnarsdóttir og dóttir þeirra Kristín - og fjórða íslenska fjölskyldan sest að í Mindelo nokkru eftir komu hinna, Egill Bjarnason rafvirki og Margrét kona hans með tvo unga syni, Halldór og Ríkharð.

„Vélbáturinn Bjartur hélt áleiðis til Grænhöfðaeyja fyrir tæpu ári síðan til að aðstoða þarlenda við uppbyggingu og þróun fiskveiða. Á ýmsu hefur gengið hjá Magna Kristjánssyni og hans mönnum á Bjarti, en upp á síðkastið hafa veiðarnar þó gengið betur en áður og telja þeir sig nú hafa sannað, að fiskveiðar megi stunda frá Grænhöfðaeyjum á nútímalegan hátt,“ segir í frétt Morgunblaðins 14. maí 1981.

Daginn eftir, 15. maí, birtir Þjóðviljinn stutta frétt með fyrirsögninni „Þetta gengur orðið sæmilega“ en orðin eru höfð eftir Magna. Spurður að því hvernig Íslendingunum hafi liðið fyrsta árið á Grænhöfðaeyjum svarar hann: „Við sem höfum verið á sjónum, höfum haft það ágætt, en það hefur verið erfiðara hjá þeim sem eru í landi. Sennilega hefur dvölin verið erfiðust fyrir börnin. Hér vantar næstum allt sem við erum vön að heiman og krakkarnir hafa líka verið hálf lasin á stundum, en okkur líður svo sem bærilega.“ Fram kemur í fréttinni að afráðið sé að Magni taki við sem skipstjóri á Berki NK eftir dvölina á Grænhöfðaeyjum.

Halldór Lárusson skipstjóri lýsir dvölinni á Grænhöfðaeyjum lítillega í viðtali við Morgunblaðið síðar á árinu og segir: „Ég kunni ágætlega við mig á Capo Verde-eyjum, enda býr þar hreint indælisfólk og harðduglegt, en því vantar bara tækifærin til að nýta sér þau. 80 prósent af því sem þeir lifa á, er innfluttur varningur. Þarna búa um 350.000 manns en annað eins býr erlendis, mikið á Norðurlöndunum, og þeir senda peninga heim til fólksins síns, sem eru afskaplega vel þegnir og koma í góðar þarfir, því á eyjunum ríkir geysilega mikil fátækt.“

Bjartur á heimleið

Skipstjórinn er spurður um það hvernig báturinn hafi reynst. „Þessi bátur er ekki heppilegur fyrir þessar veiðar. Það er fyrst og fremst vegna þess að í honum er aðeins bráðabirgðaútbúnaður fyrir trollveiðar, en það kom fljótlega í ljós, að togveiðar gáfu einmitt bestu raunina. Svo er Bjartur ekki gerður fyrir heitt loftslag og vélarrúmið var oft eins og bakarofn. Bjartur eru byggður fyrir kaldara loftslag. Kælibúnaðurinn var ekki nógu góður fyrir þessa breiddargráðu.“

Um hausið berast fréttir af því að Bjartur kunni að vera á heimleið. Morgunblaðið segir 17. september í frétt að líklegt sé að Bjartur verði seldur og búast megi við því að það fáist um 750 „gamlar“ krónur fyrir skipið. Morgunblaðinu er að sögn kunnugt um að tillögur hafi borist til utanríkisráðherra um frekari aðstoð við Grænhöfðaeyjar þess efnis að Bjartur verði seldur og smíðað verði minna skip í staðinn, „skip sem hentar betur til veiða við Grænhöfðaeyjar,“ eins og segir í fréttinni.

Birgir Hermannsson hjá Fiskifélaginu segir í Vísi 3. nóvember að meiningin sé að smíða nýjan bát, um 100 tonna, og senda hann til Grænhöfðaeyja. Birgir segir að tilgangurinn sé tvíþættur, „annars vegar að hafa nýtt og traust skip á staðnum, sem þá þyrfti minna viðhald og í öðru lagi að kynna fiskimönnum þar syðra íslenska skipasmíði með það í huga að selja þeim báta sem smíðaðir eru hér.“ Í fréttinni kemur líka fram að samningur milli þjóðanna sé útrunninn og hafi ekki verið endurnýjaður.

Utanríkisráðherra í heimsókn og skrifar undir samning

Síðar í sama mánuði, nóvember 1981, kemur Silvino da Luz utanríkisráðherra Grænhöfðaeyja í opinbera heimsókn til Íslands gagngert til þess að skrifa undir nýjan samstarfssamning um tvíhliða þróunarsamvinnu milli þjóðanna. „Ráðherrann mun eiga viðræður við utanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra og forsætisráðherra og mun heimsækja forseta Íslands að Bessastöðum,“ sagði t.d. í frétt Vísis 27. nóvember. „Það hefur náðst mikill árangur með þeirra aðstoð sem Íslendingar hafa veitt okkur á Capo Verde og ég tel að við getum margt af ykkur lært. Ekki bara á sviði fiskveiða heldur getið þið kennt okkur ýmislegt á sviði jarðvarmanýtingar, uppbyggilegrar heilbrigðisþjónustu og á sviði félagslegrar uppbyggingar,“ er haft eftir ráðherranum í Tímanum 28. nóvember. Í fréttinni er staðfest að í undirbúningi sé smíði nýs fiskiskips „sem verður sérstaklega hannað með aðstæður á Capo Verde í huga. Skipið verður svokallað fjölveiðiskip, sem hægt verður að gera út á mörg veiðarfæri,“ segir í fréttinni. Skipið á að verða 150 lesta.

Endurnýjaður samningur um tvíhliða þróunarsamvinnu var undirritaður 27. nóvember af utanríkisráðherrum beggja þjóðanna, Ólafi Jóhannessyni og Silvano da Luz. „Þessi samningur á eftir að koma okkur að góðum notum og við hyggjum gott til samvinnunnar við Íslendinga, hún hefur verið eins og bent hefur verið á kosið hingað til. ... Takmarkið með þessari samvinnu er að reyna að fá úr því skorið hverjir fiskveiðimöguleikar eru á hafsvæðinu við Cape Verde, og að stuðla að sem árangursríkastri og hagkvæmustu nýtingu þeirra möguleika í þágu íbúa Capo Verde,“ var haft eftir ráðherranum í frétt Morgunblaðsins tveimur dögum síðar.

Þjóðviljinn birtir ítarlegt viðtal við ráðherrann 4. desember með fyrirsögninni: Siðferðilegur styrkur meira verður en auður og völd. Í viðtali er vikið að þróunarsamvinnu þjóðanna og spurt um þýðingu tækniaðstoðarinnar frá Íslandi fyrir efnahaginn. „Í tvö ár höfum við notið aðstoðar frá Íslandi við að byggja upp sjávarútveg okkar, sem er afar mikilvægt fyrir almenna þróun efnahagslífsins. Þótt útflutningur okkar sé ekki nægilega mikill nú, þá er hann að 70 hundraðshlutum sjávarafurðir, - túnfiskur og humar - og það er okkur lífsnauðsyn að taka upp nútíma aðferðir við skipulagningu sjávarútvegsins. Tækniaðstoðin frá Íslandi, sem nú hefur verið framlengd til næstu fjögurra ára, felst í aðstoð við fiskileit og könnun miðanna, þróun veiðitækni og þjálfun sjómanna í siglingum og meðferð nútíma veiðarfæra. Ég er sannfærður um að starf þetta eigi eftir að skila ríkulegum árangri. Við metum það einnig mikils, að aðstoðinni frá Íslandi fylgja engar efnahagslegar eða stjórnmálalegar skuldbindingar.“

Bjartur kemur til Íslands aftur í byrjun desember en fyrr um haustið hafði sérstaklega verið auglýst eftir áhöfn til þess að sigla skipinu heim. „Við komuna verður Bjartur seldur,“ segir í frétt Morgunblaðsins 2. desember, „og hafa margir spurst fyrir um skipið, sem er hentugur vertíðarbátur.“ Því er við að bæta að Bjartur er enn að veiðum en báturinn er gerður út á línuveiðar frá Grindavík og heitir í dag Sighvatur og ber einkennisstafina GK-57. Hann var smíðaður í Austur-Þýskalandi árið 1965 og því orðinn 47 ára. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum