Hoppa yfir valmynd
24.03. 2022 Utanríkisráðuneytið

Ævintýri á Boa Vista - 16. hluti

Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni eru birt í Heimsljósi nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu.

Við ljúkum upprifjun af fyrstu Íslendingunum á Grænhöfðaeyjum á árunum 1980 til 1981 með því að grípa ofan í frásögn sem Magni Kristjánsson útgerðarstjóri skrifar um svaðilför þar syðra sem hann nefndi „Ævintýri á Boa Vista“ og birtist í Sjómannadagsblaði Neskaupsstaðar árið 1984. Þar segir frá ferðalagi á Bjarti á svæðið suður af eyjunni Boa Vista á tilraunaveiðar með troll en um borð er 17 manns, Íslendingarnir þrír, Halldór skipstjóri, Árni vélstjóri og Magni útgerðarstjóri, 11 heimamenn í áhöfn, portúgalskur rafvirki og synir þeirra Magna og Halldórs, Bjartur og Ásgeir, báðir tólf ára. Hér birtist fyrri hluti frásagnarinnar.

Það er þriðjudagsmorgunn, komið haust, hægur vindur. Segir ekki af ferðum fyrr en undir morgun næsta dags þegar komið er á líklega veiðislóð og hafist var handa við að koma trollinu út. „En þá kom babb í bátinn. Gírinn framan við aðalvél, sem knýr togvindur bilaði og ljóst var að ekki væri hægt að gera við nema í landi.. og fengist ekki viðgert fyrr en eftir helgi. Til að nýta tímann var ákveðið að doka við á slóðinni til föstudagskvölds og þjálfa innfædda við netavinnu í tvo daga. Síðan var lagst við akkeri við suðurströnd Boa Vista.“

Hentu sér útbyrðis

„Boa Vista er á að giska 15-18 km. í þvermál og suðurhlutinn óbyggður. Á norðvesturhorni eyjarinnar er bærinn Sal Rei, en annars er hún strjálbýl. Og eins og flestar eyjarnar mestmegnis eyðimörk. Eftir hádegi fékk frívaktin að bregða sér í land á öðrum skjöktbátnum. Einir 5 innfæddir nýttu sér það leyfi. Það kom þægilega á óvart þegar þeir komu um borð aftur undir kvöld að meðferðis höfðu þeir safaríkar melónur svo og döðlur, sem að vísu líkuðu ekki eins vel. Kváðust þeir hafa gengið ca. 30-40 mín. inn á eyjuna og fundið þar svæði sem moraði í melónum og nokkra döðlupálma. Tiltölulega lítið var af gómsætum ávöxtum á eyjunum nema bananar, sem allir voru löngu leiðir á. Við hugðum því á landgöngu daginn eftir til að ná í melónur að færa fjölskyldunum við heimkomuna. Eftir hádegi daginn eftir var búist til landgöngu. Nokkur undiralda var í logninu og Bjartur lá ca. 500 metra frá landi. ...Þegar komið var fast að sandströndinni sást að brim var meira en í fyrstu sýndist og brugðið gat til beggja vona með landtöku. ...Við reyndum að sæta lagi en ekki tókst betur til en svo að í miðjum brimróðrinum brotnaði önnur árin. Ekki leið á löngu þar til alda reis og ljóst var að hún myndi falla á bátinn. Um leið og aldan hrifsaði bátinn, hentu allir sér útbyrðis. Bátinn fyllti og hann kúveltist eins og fjöl. Við náðum strax landi og engum varð meint af. Eilítið urðu þó strákarnir skelkaðir.“

Á melónumiðum

Þeir leggja síðan af stað, ellefu talsins, í áttina að „melónumiðunum“ og koma 45 mínútum síðar þar sem melónur „liggja hist og her á sandinum eins og risastór egg“. Þeir fylla netpoka af melónum og heimamenn bæta á sig döðluklösum, halda að því búnu klyfjaðir til strandar. „Sumir báru tugi kílóa og gangan var þreytandi. Um 5 leytið var komið að bátnum og 2 klst. til myrkurs. En nú voru aðstæður allar erfiðari en við landtökuna. Hálfflætt var og mun meira brim. Einnig var feikna straumur vestur með ströndinni. Ég vildi ekki tefja um of vegna aðsteðjandi myrkurs og þóttist vita að ef nokkuð væri, myndu aðstæður versna með auknu flóði. Árni vélstjóri reið á vaðið, ásamt þremur innfæddum. Nokkrir melónupokar fygldu. Bátinn fyllti fljótlega en flugsyndir Cabo Verde mennirnir hálfsyntu með bátinn gegnum skaflana. ... Við sáum að í nokkurt óefni var komið.“

Strandaglópar á ókunnri strönd

Áður en varði skall hitabeltismyrkrið á. Níu einstaklingar, tveir tólf ára, af þremur þjóðernum voru strandaglópar á ókunnri strönd. Magni segir að ljóst hafi verið að öllum yrði kalt þegar á kvöldið liðið svo fáklæddir sem þeir voru. Þá er tekið til við að grafa holur í sandinn til að hafa skjól og hita hvorir af öðrum. Þegar menn höfðu nokkrum klukkutímum síðar komið sér fyrir í holunum bar tvennt óvænt og óþægilegt að höndum. „Flóðið varð óhemjumikið og bleytti holurnar, sem þó höfðu verið gerðar undir bökkum, efst í fjörunni. Og það sem kannski verra var. Moskítóflugurnar fóru á kreik. Moskító er afar fágætt á eyjunum. En þarna voru þær í þúsundatali, litlar og meinleysislegar en öllum var ljós sú ógn sem af þeim stafaði. ... Það kom kurr í þá innfæddu og við skriðum úr holunum. Flestir tóku að ausa sjó á kroppinn og menn héldu að þannig slyppu þeir við bit. Ég gróf strákana að mestu í sandinn en reyndi að halda andlitum þeirra rökum í von um að þeir losnuðu við bit. Ástandið var vægast sagt heldur bágt. Umhverfið var ægifagurt. Gullinn máni silfraði hafið og brimið ómaði við endalausa sandströndina. En það var ergilegt að sjá bátinn vagga skammt frá landi og geta ekki komist um borð.“

Framhald í næstu viku. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum