Hoppa yfir valmynd
31.03. 2022 Utanríkisráðuneytið

Ævintýri á Boa Vista II - 17. hluti

Við skildum við strandaglópa í sandinum á Boa Bista eyjunni undir kvöld í síðasta sögubroti þar sem gullinn máninn silfraði en níu menn af þremur þjóðernum, fjórir Íslendingar, fjórir Grænhöfðungar og einn Portúgali, áttu bágt með njóta fegurðarinnar. Holurnar sem þeir höfðu grafið sér voru orðnar blautar í flóðinu og moskítóflugurnar létu ófriðlega í myrkrinu. Magni Kristjánsson útgerðarstjóri skrifaði þessa frásögn í Sjómannadagsblað Neskaupstaðar árið 1984 en atburðirnir gerðust síðla árs 1980.

„Ég hafði afskrifað með öllu að nokkur tilraun yrði gerð í myrkrinu að komast um borð. Þeir innfæddu stungu saman nefjum og þar kom að þeir færðu í tal við mig að ganga til byggða. Mér fannst þessi möguleiki í fyrstu fjarstæðukenndur. Enginn þekkti leiðina, né vissi vegalengd til Sal Rei, en það var næsti mannabústaður sem vitað var um með vissu. Tveir innfæddir ásamt Portúgalanum óskuðu við athugun eftri að fá að ganga til byggða. Þrír innfæddir, ásamt mér og strákunum yrðu þá eftir. Eftir nokkrar bollalengingar ákvað ég að leyfa þeim gönguna. Og það sem meira var, ég ákvað að senda strákpjakkana með þeim. Moskítóið gerðist æ aðgangsfrekara og ég sá fram á afar erfiða nótt fyrir þá fullorðna, hvað þá óharðnaða unglinga. Ég treysti Brava, öðrum þeirra innfæddu, sem fara vildu, afar vel. Hann var flugsynt hraustmenni, rólegur og ráðagóður. Ég tók af honum loforð að fylgja ströndinni og stoppa ef ófærur yrðu á vegi þeirra og alls ekki að fara inn í landið. Í hans traustu höndum fannst mér strákarnir betur komnir á göngu um nóttina í von um mat og húsaskjól ásamt vörn gegn moskítóflugunum, heldur en að liggja í vonleysi í fjörunni. Þessir fimm gengu því út í tunglskinsbjarta nóttina líklega um kl. 22:30 til 23:00.

Veisla hjá moskítóflugunum

„Ég var nú ásamt þremur innfæddum eftir í fjörunni og moskítóflugurnar voru sífellt að angra. Sérstaklega hændust þær að mér. Félagar mínir hvolfdu léttabátnum yfir litla dæld og skriðu fljótlega undir og sofnuðu. Ég gekk um ströndina fram og aftur og hugsaði margt. Ég hafði áhyggjur af drengjunum ásamt þeim sem með þeim voru á göngunni, en traust mitt á Brava var mikið og áhyggjurnar rénuðu. Tunglið var komið hátt á loft og ég reyndi að nota það til tímamælingar. Ég taldi mér trú um að með því að leggjast annað slagið í flæðarmálið og halda mér sífellt votum myndi ég losna við moskítóbit. Við þetta setti að mér hroll sen ég náði honum úr mér með því að skokka um ströndina. Þorsti ásótti og melónurnar sem nota átti til glaðnings við heimkomuna voru nýttar ein af annarri. Ég vætti varir og munn með vökvanum en borðaði ekki mikið. Þannig leið nóttin við sífelldar endurtekningar.“

Og allir komu þeir aftur

„Við fyrstu morgunskímu var ég orðinn hálfslappur. Ég ræsti félagana undir bátnum og það var ekki laust við að þeir hefðu sinadrátt eftir leguna undir bátskrílinu. Fljótlega sást hreyfing á Bjarti og ekki tók langa stund að ná okkur um borð. Síðan var keyrð full ferð með ströndinni í átt til Sal Rei, sem var ca. 12-14 sjómílur í burtu. Vandlega var hugað að mannaferðum á leiðinnni, en einskis varð vart.

Okkur létti þegar við komum til Sal Rei en þá biðu göngumenn okkar heilir á húfi. Þeir komu til Sal Rei um kl. 4 eða 5 um nóttina og fengu mat og gistingu hjá hjálpsamri lögreglu staðarins. Ég greiddi beinann og síðan var haldið heim á leið. Fæstir fengu teljandi bit af völdum moskítóflugnanna nema ég. Að einum til tveimur dögum liðnum komu í ljós líklega nokkur þúsund bit. Þetta olli miklum kláða og háum hita, sem þó brátt rénaði. Læknarnir sem dældu í mig ýmiss konar móteitri fyrir suðurferðina, hafa líklega komið í veg fyrir að ég fengi á einu bretti flesta þá sjúkdóma sem hægt er að fá í hitabeltinu.

Og allt er gott þegar endirinn er góður. Einn úr hópnum, Zeka, sextán ára borubrattur sláni sagði við mig nokkrum dögum eftir þennan atburð. „Magni, do you know what Boa Vista means?“ -“No,“ sagði ég.

„Boa Vista means a good place.“

Hér lýkur að sinni sögubrotum um aðdraganda og upphaf alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands. -Gsal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta