Hoppa yfir valmynd
09.08. 2022 Utanríkisráðuneytið

Næringarskortur ógnar lífi þúsunda barna á Haítí

Skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu, næringu og vatni vegna aukinna átaka, gríðarlegar verðhækkanir, verðbólga og skortur á matvælaöryggi í Cité Soleil á Haítí gerir það að verkum að eitt af hverjum fimm börnum þar þjáist nú af bráðavannæringu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þar segir að ofbeldisfull átök glæpagengja undanfarin misseri í Cité Soleil, einu af hverfum höfuðborgarinnar Port-au-Prince, hafi víða lokað á aðgengi íbúa að heilbrigðisþjónustu. Vannæring barna er þar mikið vandamál.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum UNICEF þjást um 20 prósent barna undir fimm ára aldri í Cité Soleil að bráðavannæringu. Það er fimm prósentum yfir neyðarviðmiði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

„Við getum ekki setið hjá og horft upp á börn farast úr vannæringu og tengdum kvillum. Þúsundir barna eru í lífshættu þar sem flestar heilsugæslur í nágrenni þeirra eru lokaðar. Ofbeldisverkum í Cité Soleil verður að linna svo vannærð börn geti fengið þá neyðaraðstoð sem þau þurfa sárlega á að halda,“ segir Bruna Maes, fulltrúi UNICEF á Haítí.

Greining á stöðu mála í apríl síðastliðnum sýndi fram á skelfilega næringarstöðu barna á svæðinu. Síðan þá hefur orðið mikil aukning á átökum glæpagengja sem dregið hefur úr aðgengi fólks að grunnþjónustu. Ofan á það og fyrri neyð samfélagsins bætist svo fæðuskortur, verðbólga, verðhækkanir. Allt kemur þetta verst niður á börnunum.

UNICEF og heilbrigðisráðuneytið á Haítí hafa unnið að því að dreifa næringarfæði, næringarmjólk og nauðsynlegum lyfjum auk þess að styðja við heilbrigðisstarfsfólk til að auka skimun og þjónustu vegna vannæringarmála. Undanfarið hafa 9.506 börn verið skimuð vegna alvarlegrar vannæringar og nær tvö þúsund börn fengið meðhöndlun.

Um 250 þúsund manns búa í Cité Soleil og á síðustu vikum hafa á 471 látið lífið í átökum glæpagengja, særst eða horfið sporlaust. Þrjú þúsund manns hafa flúið heimili sín, þar á meðal hundruð fylgdarlausra barna.

Frá 20. júlí hefur UNICEF dreift nærri einni milljón lítra af drykkjarvatni, dreift 500 hreinlætispökkum og sett af stað tvær færanlegar heilsugæslur á svæðinu til að veita íbúum aðgengi að heilbrigðis- og næringarþjónustu.

UNICEF kallar eftir því að stríðandi fylkingar í Cité Soleil láti af ofbeldisverkum sínum til að tryggja saklausum íbúum aðgengi að lífsnauðsynlegri grunnþjónustu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
2. Ekkert hungur
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum