Hoppa yfir valmynd
25.08. 2022 Utanríkisráðuneytið

ABC barnahjálp: Ný kvenna- og fæðingardeild opnuð í Úganda

Fyrsta barnshafandi konan skráð inn á nýju kvennadeildina. Ljósmyndir: ABC - mynd

Kvenna- og fæðingardeild var formlega opnuð fyrr í mánuðinum á skólalóð ABC barnahjálpar í Rockoko í norðurhluta Úganda. ABC barnahjálp fjármagnaði framkvæmdir með stuðningi utanríkisráðuneytisins, nytjamarkaðar ABC og annarra styrktaraðila. „Við erum gríðarlega stolt af því að geta fært samfélaginu í Rockoko þessa nýju aðstöðu sem gjörbreytir allri heilbrigðisþjónustu á svæðinu,“ segir Laufey Birgisdóttir framkvæmdastjóri ABC barnahjálpar.

Skóli á vegum íslensku samtakanna hefur verið starfræktur i þorpinu Rockoko í Padel-héraði í rúmlega aldarfjórðung. Fyrir fjórum árum fauk þak af húsnæði skólaskrifstofunnar og heilsugæslu skólans í ofsveðri og þá var heilsugæslan lögð niður og skrifstofan færð yfir í kennarastofu. Að sögn Laufeyjar óskuðu skólastjórnendur og forystufólk í héraðinu fyrr á árinu eftir stuðningi ABC barnahjálpar við að byggja upp sjúkrahús og heilsugæslu í þorpinu sem myndi þjóna stóru svæði. Ákveðið var að ABC kæmi að uppbyggingu kvenna- og fæðingardeildar.

„Það var mikill hátíðisdagur í byrjun mánaðarins þegar við opnuð heilsugæsluna formlega,“ segir Laufey en hún ásamt þingmanni kjördæmisins, öðrum fulltrúum héraðsins, starfsfólki og öllum nemendum skólans tóku þátt í viðhöfn í tilefni opnunarinnar. „Þetta var mikill hátíðisdagur enda gríðarleg ánægja og þakklæti sem skein út úr hverju andliti og öllum ræðum og kveðjum sem voru fluttar þennan dag.“

Daginn eftir var fyrsti opnunardagur kvenna- og fæðingardeildarinnar. „Já, okkur brá heldur betur í brún þegar við mættum snemma morguns og við sáum á annað hundrað manns í röð fyrir utan hliðið. Á fyrsta dagi voru 372 sjúklingar skráðir, 80 prósent þeirra konur og börn, og því engum vafa undirorpið að þörfin er gríðarleg,“ segir Laufey.

Tólf sjúkrarúm eru á kvennadeildinni og tvö rúm á fæðingardeildinni. Þar er ennfremur skurðdeild þar sem aðstaða er fyrir skurðaðgerðir eins og keisaraskurði og minniháttar inngrip, auk aðstöðu fyrir konur til að jafna sig eftir aðgerðir.

Á síðusta áratug hefur tekist að draga talsvert úr mæðradauða í Úganda. Árið 2011 létust 438 konur af barnsförum, miðað við þúsund fædd börn, en sú tala var komin niður í 368 árið 2021. „Með nýju kvenna- og fæðingardeildinni leggja Íslendingar sitt af mörkum til að bæta hag fátækra kvenna sem búa við mjög erfiðar aðstæður, ekki síst með því að tryggja betri aðstæður við fæðingar og draga þannig úr bæði mæðra- og barnadauða,“ segir Laufey Birgisdóttir hjá ABC barnahjálp.

  • $alt
  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
5. Jafnrétti kynjanna
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum