Hoppa yfir valmynd
27.10. 2022 Utanríkisráðuneytið

UN Women og 66°Norður vinna með samvinnufélagi kvenna í Tyrklandi

Landsnefnd UN Women á Íslandi og fyrirtækið 66°Norður hafa með stuðningi utanríkisráðuneytisins komið á þriggja ára samstarfi við samvinnufélagið SADA sem rekið er af sýrlenskum flóttakonum í samstarfi við tyrkneskar konur í Tyrklandi. Félagið heldur úti þríþættri starfsemi, textílframleiðslu, leðurvinnslu og veitingaþjónustu.

Fulltrúar UN Women á Íslandi og 66°Norður heimsóttu SADA í borginni Gaziantep í suðurhluta Tyrklands nýlega. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast starfsemi og umgjörð SADA Cooperative betur, en það var stofnað í mars árið 2019 með stuðningi frá UN Women,  ASAM (Association for Solidarity with Asylum Seekers and Migrants) og Alþjóðavinnumálastofnuninni, ILO.

Samkvæmt grein á vef UN Women er hugmyndin að SADA sprottin frá konunum sjálfum og markmiðið er að efla atvinnuþátttöku kvenna á svæðinu, efla tengsl á milli flóttafólks og heimamanna og styðja við varanlegt fjárhagslegt sjálfstæði kvennanna.

Aðeins 15 prósent af þeim sýrlensku konum sem búsettar eru í Tyrklandi hafa einhverskonar fasta atvinnu. Önnur 12 prósent reyna að framleiða vörur eða taka að sér tilfallandi verkefni gegn greiðslu. Flestar fá lág laun fyrir vinnu sína, vinna langa vinnudaga og við óviðunandi aðstæður. Af þeim konum sem ekki eru á vinnumarkaði, formlegum eða óformlegum, segjast aðeins 17 prósent vera í atvinnuleit. Umönnun barna, foreldra eða veikra fjölskyldumeðlima, heimilishald og heilsubrestir eru helstu ástæður þess að sýrlenskar konur komast ekki á atvinnumarkað.

Nánar á vef UN Women

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum