Hoppa yfir valmynd
24.11. 2022 Utanríkisráðuneytið

Fimm konur drepnar á hverri klukkustund af fjölskyldumeðlimi

Ljósmynd: Shutterstuck - mynd

Fimm konur eru myrtar á hverri klukkustund af fjölskyldumeðlimum, segir í nýrri skýrslu UN Women. Rúmlega helmingur kvenna og stúlkna sem myrtar voru á síðasta ári voru drepnar af maka eða nánum ættingja. Sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hefst á morgun, föstudag, með ljósagöngu UN Women.

Dauðsföllin eru „skelfilega mörg“ segir í frétt frá Sameinuðu þjóðunum sem segjast óttast að raunverulegt ástand sé líklega mun verra. Í skýrslunni kemur fram að 45 þúsund konur og stúlkur hafi á síðasta ári verið drepnar af maka eða nánum ættingja innan fjölskyldunnar.

Samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna voru 81.100 konur og stúlkur drepnar af yfirlögðu ráði á síðasta ári. „Af öllum konum og stúlkum sem myrtar voru af yfirlögðu ráði á síðasta ári voru um 56 prósent drepnar af mökum eða öðrum fjölskyldumeðlimum... sem sýnir að heimilið er ekki öruggur staður fyrir margar konur og stúlkur," eins og segir í frétt frá UN Women.

Kvennamorð eru flest framin í Asíuríkjum en í þeim heimshluta voru 17,800 konur og stúlkur drepnar á síðast ári. Þegar kemur að fjölskylduofbeldi eru Afríkuríkin verst, segir í skýrslunni. Enn fremur segir í skýrslunni að marktæk fjölgun kvennamorða hafi orðið í upphafi heimsfaraldurs kórónuveirunnar árið 2020 í Bandaríkjunum og Vestur- og Suður-Evrópu.

Þótt í átta af hverjum tíu morðum séu það karlmenn sem eru myrtir eru gerendur þeirra í langflestum tilvikum utan fjölskyldunnar. Aðeins í ellefu prósenta tilvika voru þeir myrtir af maka eða nánum ættingja.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum