Hoppa yfir valmynd
01.12. 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland og UNICEF bæta vatns og hreinlætisaðstöðu í skólum og heilsugæslustöðvum í Úganda

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Úganda fóru nýlega með fulltrúum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, til héraðanna Terego og Madi-Okollo í norðurhluta landsins til að heimsækja tvær heilsugæslustöðvar og þrjá grunnskóla sem íslensk stjórnvöld hafa stutt á svæðinu. Samstarf Íslands og UNICEF felur í sér að bæta aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu í skólum og heilsugæslustöðvum í norðurhluta Úganda þar sem fjöldi flóttamanna hefst við.

Sem dæmi um árangur af samstarfinu má nefna Onyomu grunnskólann en þar höfðu nemendur og kennarar til þessa notað þrjú salerni saman. Hlutfallið var þannig að eitt salerni var fyrir 242 drengi og eitt fyrir 197 stúlkur, en á landsvísu er ekki mælt með að það séu fleiri en 40 manns á hvert salerni. Eftir að nýja aðstaðan bættist við varð hlutfallið 1:48 fyrir drengi og 1:39 fyrir stúlkur. 

Á meðal þess sem UNICEF leggur einnig áherslu á er að bæta við hreinlætisaðstöðu fyrir stúlkur á blæðingum, en ein helsta ástæða þess að stúlkur missa úr eða hætta í skóla á þessum slóðum er skortur á aðgengi að hreinlætisvörum eða aðstöðu vegna blæðinga. 

Sendiráð Íslands í Úganda hefur átt farsælt samstarf við UNICEF síðastliðin fjögur ár. Stuðningur Íslands beinist bæði að flóttafólki og gistisamfélögum þeirra í héruðunum Adjumani, Terego og Madi-Okollo í Vestur-Níl í norðurhluta Úganda.

  • Ísland og UNICEF bæta vatns og hreinlætisaðstöðu í skólum og heilsugæslustöðvum í Úganda - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum