Hoppa yfir valmynd
11.01. 2023 Utanríkisráðuneytið

Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna veitir stuðning til Kamerún og Búrúndi

Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna, CERF, hefur í vikunni veitt neyðarstyrki til tveggja ríkja í Afríku, Kamerún og Búrúndi, vegna alvarlegrar stöðu mannúðarmála í löndunum. Til Kamerún er varið sem nemur sex milljónum Bandaríkjadala og til Búrúndi þremur og hálfri milljón.

Á nýliðnu ári áttu tæplega fjórar milljónir íbúa Kamerún allt undir mannúðaraðstoð, ýmist vegna ofbeldis eða flóða. Hundruð þúsunda neyddust til að flýja heimili sín og misstu þar með lífsviðurværi sitt og fæðuöryggi. Mannúðarkreppan í Kamerún er verulega undirfjármögnuð og á síðasta ári tókst einungis að afla fjár fyrir 42 prósentum af áætlaðri fjárþörf. Sameinuðu þjóða stofnanir og alþjóðastofnanir ráðstafa neyðarstyrknum, þar á meðal Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuð þjóðanna, FAO, og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

Neyðarfjármagni til Búrúndi verður ráðstafað af tveimur fyrrnefndum stofnunum, WFP og FAO, en í landinu eru tæplega fjörutíu þúsund íbúar sem vart hafa til hnífs og skeiðar. Öfgar í veðurfari síðla nýliðins ár settu strik í reikninginn hjá þjóðinni, fyrst seinkaði regntímabilinu og síðan komu úrhellisrigningar sem leiddu til þess að smábændur misstu mikið af uppskerunni. Níu af hverjum tíu íbúum landsins eru smábændur. Þeir og fjölskyldur þeirra horfa fram á „mögur“ misseri, hækkun á matvælum og færri atvinnutækifærum í landbúnaði. Neyðarstyrkur CERF verður nýttur í þágu viðkvæmustu heimilanna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum