Hoppa yfir valmynd
27.01. 2023 Utanríkisráðuneytið

Nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

Geir Finnsson, forseti LUF afhendir Isabel Díaz friðarlilju til tákns um kjör hennar til ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði mennta, vísinda og menningar. - mynd

Á fjórða fundi leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga, LUF, í vikunni var Isabel Alejandra Díaz kosin ungmennafulltrúi Íslands á vegum Sameinuðu þjóðanna, á sviði mennta, vísinda og menningar. Næst flestu atkvæðin hlaut Benedikt Bjarnason, fulltrúi Ung norræn, og hann mun starfa sem varafulltrúi. Þetta er í fyrsta skipti kosið er á lýðræðislegan hátt í stöðu ungmennafulltrúa á sviði mennta, vísinda og menningar. 

Isabel býr yfir nokkurri reynslu á sviðinu, en hún hefur setið í háskólaráði HÍ, Röskvu, auk þess að hafa verið kjörin forseti Stúdentaráðs HÍ. Hún hefur starfað sem verkefnastjóri Tungumálatöfra og setið í ýmsum hópum á sviði mennta-, menningar- og félagsmála, til dæmis samráðsvettvangi um jafnrétti kynjanna á vegum Jafnréttisráðs og samhæfingarhópi stjórnvalda um atvinnu- og menntaúrræði.

„Ég er sannfærð um að hlutverk rannsókna, lista og nýsköpunarstarfs sé að skila þekkingu inn í samfélagið í takt við það sem það þarfnast hverju sinni, og að það sé órjúfanlegur þáttur þeirrar sjálfbærrar þróunar sem við viljum sjá í umhverfinu okkar. Það tengist óhjákvæmilega heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og nauðsyn þess að innleiðing þeirra sé skýr og markviss. Þessi tiltekna staða ungmennafulltrúa getur sannarlega verið liður í því að miðla meðal annars starfsemi UNESCO til ungs fólks, skapa heildstæðari sýn á aðkomu þeirra og í senn verið rödd þess gagnvart stjórnvöldum þegar kemur að mennta, vísinda og menningarmálum,“ sagði Isabel í framboðsræðu sinni.

Hún mun sitja á aðalráðstefnu UNESCO, í íslensku UNESCO nefndinni, sækja norræna samráðsfundi og ungmennaþing UNESCO í fyrir hönd íslenskra ungmenna.

Skipun og þátttaka ungmennafulltrúans er samstarf LUF, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Nánar á vef LUF

https://luf.is/isabel-alejandra-diaz-nyr-ungmennafulltrui-a-svidi-mennta-visinda-og-menningar/

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum