Hoppa yfir valmynd
30.01. 2023 Utanríkisráðuneytið

Húsfyllir á kynningarfundi um nýsköpunarsjóð á sviði hreinnar orku í Lilongve

Hluti þeirra sem sóttu kynningarfundinn í Malaví. - mynd

Sendiráð Íslands í Lilongve stóð fyrir kynningarfundi í síðustu viku um sjóð Norræna þróunarsjóðsins Energy and Environment Partnership Trust Fund (EEP Africa) í Lilongve. Ísland hefur unnið að þróunarsamvinnu í Malaví í yfir þrjá áratugi og umhverfis- og loftslagtengd verkum að verða leiðandi í baráttunni við loftslagsvandann.

Að sögn Ingu Dóru Pétursdóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Lilongve leiðir kynningin á sjóðnum vonandi til fjölgunar umsókna frá Malaví og fleiri styrkja. Ísland gerðist aðili að EEP Africa á síðasta ári með 200 milljóna króna framlagi frá 2022-2025 og styður það við stefnu ríkisstjórnarinnar um stuðning við loftslagstengd verkefni í þróunarsamvinnu. Áherslur sjóðsins samræmast áherslum Íslands um þróunartengda loftslagssamvinnu á sviði sjálfbærrar orku, jafnréttis og auðlindanýtingar.

EEP Africa veitir styrki til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í 15 löndum Afríku til nýsköpunar á sviði loftslagsverkefna með áherslu á hreina orku. Hvert verkefni getur hlotið styrki frá 40 milljónum og allt upp í 150 milljónir og þau verkefni sem sýna framúrskarandi árangur að verkefnatíma liðnum fá frekari fjárfestingu.

„Ljóst er að það er mikill áhugi í Malaví á sjóðnum og þeim möguleikum sem fjárfesting frá EEP Africa getur haft í för með sér því færri komust að en vildu á kynningarfundinn. Fulltrúar sjóðsins sögðu frá starfssemi sjóðsins og fóru yfir umsóknarferlið og veittu góð ráð. Einnig voru fulltrúar malavískra fyrirtækja sem þegar hafa hlotið stuðning frá EEP Africa með kynningu á verknum sínum,“ segir Inga Dóra.

Dæmi um framúrskarandi verkefni frá Malaví eru Wala og Yellow Solar Power. Wala, sem var lítið fyrirtæki í eigu kvenna, hefur tekið stórstígum framförum á tveimur árum eftir að það hlaut 200 þúsund evra styrk til þess að þróa sólarknúin vatnsveitukerfi og hefur skapað tæplega 200 ný störf. Yellow Solar Power sérhæfir sig í dreifingu á sólarknúnum ljósum til heimilisnota í dreifbýli þar sem er ekkert rafmagn. Fyrirtækið fékk 500 þúsund evra styrk fyrir tveimur árum og hefur nú þegar náð til 48 þúsund manns og ráðið 400 manns í vinnu.

 

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum