Hoppa yfir valmynd
31.01. 2023 Utanríkisráðuneytið

COVID-19: Einn af hverjum þúsund jarðarbúum hafa látist

Rauði krossinn telur að heimurinn sé ekki reiðubúinn fyrir næsta heimsfaraldur. Ljósmynd: Rauði krossinn - mynd

Hvorki jarðskjálftar, þurrkar né aðrar náttúruhamfarir hafa í skráðri sögu kostað fleiri mannslíf en heimsfaraldur COVID-19. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans fjalla í nýjum skýrslum um faraldurinn og afleiðingar hans. Fram kemur að áætlaður fjöldi dauðsfalla af völdum faraldursins sé kominn upp í rúmlega 6,5 milljónir einstaklinga á innan við þremur árum, sem svarar til þess að einn af hverjum þúsund jarðarbúum hafi látist af völdum veirunnar. Samtökin meta það svo að heimurinn sé ekki reiðubúinn fyrir næsta heimsfaraldur.

Rauði krossinn segir að COVID-19 sé hörmung án hliðstæðna. Kórónuveirufaraldurinn hafi verið stærsta hörmung í manna minnum, nánast á hvaða mælikvarða sem er. Auk dauðsfalla hafi heilu hagkerfin orðið fyrir skakkaföllum. Félagsleg og hagræn áhrif heimsfaraldursins séu á sama tíma einnig gríðarleg. Enn fremur hafa óbein áhrif heimsfaraldursins snert líf nánast allra samfélaga á jörðinni. Engar hörmungar á undanförnum áratugum hafa haft slík gríðarleg áhrif.

„Getan til að koma í veg fyrir, greina og bregðast snemma við neyðarástandi á sviði lýðheilsu samhliða öðrum áföllum og streitu er mannúðarleg, félagsleg og efnahagsleg nauðsyn af tveimur ástæðum. Sú fyrsta er að áföll og streita, þar á meðal öfgar í veðurfari, verða tíðari og ákafari og geta okkar til að bregðast við þeim er takmörkuð. Hitt er að skilyrði fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma, þar með talin fólksfjölgun, ófyrirséð þéttbýlismyndun, ferðalög milli landa og viðskipti, halda áfram að vaxa um fyrirsjáanlega framtíð. Við höfum einfaldlega ekki efni á að bíða lengur. Við verðum að fjárfesta í miklu sterkari viðbúnaðarkerfum. Með því munum við fjárfesta í framtíð okkar,“ segir í skýrslu Rauða krossins.

 

Skýrslurnar:

EVERYONE COUNTS COVID-19/ Rauði krossinn

World Disaster Report 2022/ Rauði krossinn

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum