Hoppa yfir valmynd
03.02. 2023 Utanríkisráðuneytið

Hringfarinn styrkir ABC barnahjálp í verkefni Broskalla í Afríku

Styrktarfélagið Broskallar hjálpar nemendum á fátækustu svæðum í Afríku að komast í háskóla með því að veita aðgang að kennslukerfi sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa þróað. Hringfarinn Kristján Gíslason styrkti verkefnið um fimm milljónir króna og hefur stuðlað að aðkomu fleiri íslenskra samtaka. Broskallar vinnur nú meðal annars með ABC barnahjálp og hefur skóli á vegum samtakanna fullan aðgang að efni kennslukerfisins í gegnum spjaldtölvur sem nemendur fá frá styrktarfélaginu fyrir tilstilli Hringfarans.

Í frétt á vef ABC barnahjálpar segir að kennslukerfið nefnist „tutor-web“ og hafi að geyma kennsluefni, meðal annars í stærðfræði, tölfræði og tölvunarfræði, ásamt æfingum sem aðstoða nemendur við að tileinka sér námsefnið. Kerfið var þróað af þeim Gunnari Stefánssyni, prófessor við Raunvísindadeild HÍ, og Önnu Helgu Jónsdóttur, dósent við sömu deild, í samstarfi við tölvunarfræðinga. Það hefur undanfarinn áratug verið nýtt í tölfræði- og stærðfræðikennslu bæði við Háskóla Íslands og í framhaldsskólum hér á landi.

Menntun í ferðatösku

Þeir nemendur sem standa sig vel vinna sér inn rafmyntina „Broskalla“ (SmileyCoin) og hún er geymd í rafrænu veski og hægt að nýta til að kaupa vöru eða þjónustu af ýmsu tagi. Starfsemin í Kenýa fer fram í gegnum verkefnið „Menntun í ferðatösku“ en það inniheldur spjaldtölvur fyrir nemendur og þjón (server) sem geymir námsefnið. Kristján hefur staðið að baki kostnaði við kaup á spjaldtölvum fyrir heimavist ABC skólans í Næróbí í Kenýa. „Verkefnið hefur gengið vel og nemendur hafa sýnt mikinn áhuga á að standa sig vel og leysa verkefnin. Fyrstu nemendurnir hafa þegar útskrifast og fengu þeir spjaldtölvu í verðlaun,“ segir í fréttinni.

Nánar á vef ABC

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum