Hoppa yfir valmynd
08.03. 2023 Utanríkisráðuneytið

Kynjajafnrétti náð eftir þrjár aldir að óbreyttu

Að mati António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna er sá árangur sem náðst hefur í réttindamálum kvenna að hverfa fyrir augum okkar allra víðs vegar um heiminn. Hann segir í ávarpi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna í dag, 8. mars, að síðustu spár bendi til þess að miðað við núverandi þróun taki það þrjú hundruð ár að ná fullu jafnrétti kynjanna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands sótti 67. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í New York þessa vikuna. Hún var þátttakandi í hliðarviðburði Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem Ísland fer með formennsku. Viðburðurinn fjallaði um viðbrögð Norðurlandanna við stafrænu ofbeldi. Fulltrúi UN Women á Íslandi ræddi við forsætisráðherra í New York, meðal annars um bakslagið í jafnréttisbaráttunni sem mörgum hefur orðið tíðrætt um að undanförnu (sjá meðfylgjandi myndband).

„Bakslagið hefur verið á mörgum vígstöðum. Það var áberandi þegar þjóðir heims voru margar hverjar að herða þungunarrofslöggjöfina, að þá var Ísland að fara í þveröfuga átt og samþykkti framsækna þungunarrofs löggjöf sem tryggir og viðurkennir rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Þannig við höfum bæði verið að stíga skref áfram, en við finnum auðvitað fyrir bakslaginu líka. Eitt dæmi um það, er það sem við erum að ræða á þessari ráðstefnu: Þessi stafræna veröld þar sem við sjáum mikið stafrænt ofbeldi, ekki síst gagnvart konum og yngri konum sérstaklega. Þannig að við erum núna að fara leggja fram tillögu um aðgerðir gegn hatursorðræðu sem ég vona að muni taka þau mál upp á yfirborðið. Svo höfum við samþykkt ákveðið lagaákvæði um kynferðislega friðhelgi sem á að takast á við stafrænt kynferðisofbeldi.“

Jafnréttismál hafa sem kunnugt er verið um langt árabil þverlæg áhersla í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Átta af hverjum tíu þróunarsamvinnuverkefnum hafa sérstök jafnréttismarkmið. Ísland hlaut á síðasta ári gullvottun frá UNDP, Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, fyrir vinnu á sviði jafnréttismála og þróunarsamvinnu. Þá hefur Ísland markað sér stöðu í samstarfi sem beinir sjónum að kvennakúgun í einstaka löndum, meðal annars Íran og Afganistan.

Verkefnið „Kynslóð jafnréttis“ – Generation Equality Forum – er veigamikið samstarf á sviði jafnréttismála af hálfu utanríkisráðuneytisins og Ísland leiðir einnig alþjóðlegt aðgerðarbandalag gegn kynbundnu ofbeldi.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum