Hoppa yfir valmynd
13.03. 2023 Utanríkisráðuneytið

Langlífasti hitabeltisstormur sögunnar gerir usla í Malaví

Hitabeltisstormurinn Freddy fór yfir suðurhluta Malaví í nótt með ofsaveðri, hellirigningu og hávaðaroki, flóðum og skriðuföllum. Að minnsta kosti ellefu eru látin og sextán saknað eftir að hús í grennd við Blantyre urðu undir aurskriðum. Að sögn Ingu Dóru Pétursdóttur forstöðukonu íslenska sendiráðsins í Lilongve eru innviðaskemmdir miklar og veruleg hætta á að yfirstandandi kólerufaraldur fari aftur algerlega úr böndunum. Spáð er áframhaldandi úrhelli í dag en það dregur úr ofsanum þegar líður á daginn.

Freddy er þegar orðinn langlífasti hitabeltisstormur sögunnar á suðurhveli jarðar. Hann hefur verið á ferð um Indlandshaf í rúman mánuð og stöðugt gengið í endurnýjun lífdaga allt frá því hann myndaðist fyrst undan strönd Norður-Ástralíu 6. febrúar. Hvað eftir annað hefur Freddy gengið á land á Madagaskar og Mósambík, á mismunandi stöðum, og hvarvetna skilið eftir sig slóð eyðileggingar, auk manntjóns. Að minnsta kosti 41 hefur látið lífið í veðurhamnum, sautján á Madagaskar, ellefu í Mósambík og Malaví, og tveir í Simbabve.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin segir að á 32 daga ferðalagi hafi hitabeltisstormurinn orðið að langlífustu hitabeltislægð sögunnar. Fellibylurinn John átti fyrra met, en hann var viðvarandi á Mið-Kyrrahafi í 31 dag árið 1994.

Óttast er að tölur um manntjón af völdum ofsaveðursins eigi eftir að hækka því sambandslaust er við ýmiss svæði þar sem hamfarirnar voru mestar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum