Hoppa yfir valmynd
08.05. 2023 Utanríkisráðuneytið

Tímamót í Malaví: Skrifað undir nýja samninga við héraðsstjórnir

Glatt á hjalla eftir undirritun samninganna.  - mynd

Í síðustu viku var skrifað undir tvo nýja samninga af hálfu sendiráðs Íslands í Lilongve, annars vegar við fyrsta áfanga héraðsþróunarverkefnis í Nkhotakota til ársins 2027 og hins vegar tveggja ára framlengingu á samningi um héraðsþróunarverkefni í Mangochi. Tveir ráðherrar úr ríkisstjórn Malaví tóku þátt í athöfn af þessu tilefni og skrifuðu undir samningana, ásamt fulltrúum héraðanna og forstöðumanni sendiráðs Íslands.

Nkhotakota er nýtt samstarfshérað í Malaví og héraðsþróunarverkefnið verður framkvæmt í samræmi við aðferðafræði Íslands, svonefnda héraðsnálgun, þar sem áhersla er lögð á eignarhald heimamanna. Verkefnin lúta að umbótum í grunnþjónustu við íbúana, á sviði heilbrigðismála, menntunar, vatns- og hreinlætis, jafnréttis kynjanna, valdeflingu ungmenna, auk loftslags- og umhverfismála. Héraðsyfirvöld eru framkvæmdaaðilar en sendiráð Íslands og utanríkisráðuneytið sinna eftirliti og úttektum. Heildarframlagið á verkefnatímabilinu nemur 1,6 milljarði íslenskra króna.

Nýr tveggja ára samningur við héraðsstjórn Mangochi, þar sem Ísland hefur stutt byggðaþróunarverkefni í rúman áratug, felur í sér að ljúka stórum verkefnum frá síðustu árum sem hafa tafist af ýmsum ástæðum, eins og heimsfaraldrinum og verðhækkunum. Um er að ræða meðal annars nýja fæðingardeild í sveitarfélaginu Makanjira og nýja skrifstofubyggingu fyrir héraðsyfirvöld. Nýja fæðingardeildin kemur til með að gjörbylta fæðingaraðstöðu og mæðra- og ungbarnavernd í þessari afskekktu sveit þar sem konur á barneignaaldri er rúmlega sextíu þúsund. Í dag þurfa þær að leita þjónustu á héraðssjúkrahúsinu í Mangochi, í hundrað kílómetra fjarlægð, um vegi sem eru jafnan ófærir yfir rigningartímann. Heildarkostnaður er áætlaður 550 milljónir króna.

Sosten Gwengwe fjármálaráðherra Malaví sagði við athöfnina að gott samstarf Malaví og Ísland bæri ávöxt sem sæist í bættum lífsgæðum íbúaanna. „Ísland studdi sambærileg verkefni í Mangochi og nú bætist Nkhotakota við sem samstarfshérað. Það sýnir traust og vilja íslenskra stjórnvalda til þess að halda áfram þróunarsamvinnu í Malaví og bæta lífsgæði fólks,“ sagði ráðherrann. Richard Chimwendo Banda ráðherra sveitarstjórnarmála skrifaði einnig undir samningana.

Inga Dóra Pétursdóttir forstöðumaður sendiráðs Íslands sagði við athöfnina að þetta væri stór stund í langri sögu þróunarsamvinnu Íslands og Malaví. Nú væri Ísland að færa út kvíarnar og hefja samstarf við nýtt hérað á sömu forsendum og í Mangochi, nýta þróunaráætlanir heimamanna og ná til þeirra sem búa við lökustu kjörin.

  • Fulltrúar stjónrvalda og héraðsstjórna ásamt forstöðumanni íslneska sendiráðsins skrifa undir samningana. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
6. Hreint vatn og hreint
4. Menntun fyrir öll
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum