Hoppa yfir valmynd
12.05. 2023 Utanríkisráðuneytið

Neyðaraðstoð: Hjálparstarf kirkjunnar með nýtt verkefni í Malaví

Hjálparstarf kirkjunnar með nýtt neyðarverkefni í Malaví. Ljósmyndir: Norwegian Church Aid - mynd

Hjálparstarf kirkjunnar hóf að nýju þróunarsamvinnu í Malaví á þessu ári og hefur hrundið af stað verkefni til næstu þriggja ára. Verkefnið nær til þúsunda heimila í Chikwawa í suðurhluta landsins sem er sérstaklega viðkvæmt fyrir veðuröfgum, allt frá langvarandi þurrkum til flóða og fellibylja. Verkefnið miðar fyrst og fremst að því að auka viðnámsþrótt samfélaga og tryggja fæðuöryggi. Í marsmánuði reið fellibylurinn Freddy yfir svæðið og ölli gríðarlegu manntjóni og skemmdum á innviðum, heimilum og ræktunarlandi.

Með rammasamningi við utanríkisráðuneytið var Hjálparstarfi kirkjunnar unnt að bregðast hratt við aðstæðum í Chikwawa og í samvinnu við norræn systursamtök tókst því að vera fyrst til austurhluta Chikwawa. Þar var veitt brýn neyðaraðstoð í formi peningagjafa, ungar stúlkur fengu sæmdarsett, fræ og áburður var gefinn til íbúa til að hefja ræktun að nýju og gerðar voru umbætur í vatns- og hreinlætisaðstöðu fólks sem dvelur í tímabundnum skýlum.

„Það er afar ánægjulegt að geta tekið þátt í neyðaraðstoð á nýju verkefnasvæði okkar í Malaví með svo stuttum fyrirvara. Samstarf okkar við systurstofnanir okkar í Noregi og Danmörku tryggði að þetta var mögulegt en þau voru bæði með starfsemi í Malaví og víkkuðu út sín verkefni til að gera okkur þetta kleift,“ segir Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar. Hann bætir við að rammasamningur við utanríkisráðuneytið sé forsenda þessa samstarfs og gerði Hjálparstarfinu mögulegt að bregðast strax við.”

Forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe heimsótti verkefnið með framkvæmdastjóra norska hjálparstarfsins á dögunum til að heyra frá fólki á svæðinu hvernig framkvæmd verkefnisins gengur. Þetta er í fyrsta skipti sem norrænu samtökin vinna saman að neyðaraðstoð en norska hjálparstarf kirkjunnar vinnur að umfangsmiklum þróunar- og neyðarverkefnum í landinu.

„Það var átakanlegt að hitta fjölskyldur sem misstu allt sitt á einni nóttu, heimili, eignir og ræktarsvæði sem er lífsviðurværi þeirra. Það var jafnframt einstakt að skynja þrautseigju fólksins sem þegar hefur hafist handa við að koma sér og fjölskyldum sínum fyrir að nýju við afar erfiðar aðstæður,” segir Inga Dóra Pétursdóttir. Fjárhagslegur stuðningur var veittur til 700 fjölskyldna á svæðinu í gær og ungum stúlkum voru gefin sæmdarsett sem hafa að geyma meðal annars nærföt, hreinlætisvörur og endurnýtanleg dömubindi.

Neyðaraðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar í austurhluta Chikwawa er lífsnauðsynleg en svæðið er afskekkt og aðgengi erfitt því vegir eru illa farnir og brýr brotnar, auk þess sem íbúar á sævðinu hafa litla aðstoð fengið frá því að hörmungarnar riðu yfir.

  • Inga Dóra Pétursdóttir forstöðumaður sendiráðs Íslands í Malaví kynnir sér aðstæður á vettvangi. - mynd
  • Lífsbaráttan er hörð í Chikwawa. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum