Hoppa yfir valmynd
31.08. 2023 Utanríkisráðuneytið

Landgræðsluskóli GRÓ útskrifar 23 nemendur

Útrskriftarnemendur Landgræðsluskóla GRÓ. - mynd

Landgræðsluskóli GRÓ útskrifaði í vikunni fjölmennasta nemendahópinn frá upphafi, 23 sérfræðinga, 12 konur og 11 karla. Alls hafa 198 sérfræðingar útskrifast frá Landgræðsluskólanum á sextán starfsárum skólans.

Landgræðsluskólinn er eitt fjögurra þjálfunarprógramma, sem rekin eru undir GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO og er ein af meginstoðum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Einnig eru starfandi á vegum GRÓ Jafnréttisskóli, Jarðhitaskóli og Sjávarútvegsskóli. Heildarfjöldi útskrifaðra nemenda úr skólunum fjórum er nú 1.646. Þá hafa  103 fyrrverandi nemendur lokið meistaragráðu með skólastyrk frá GRÓ við íslenska háskóla og 22 hafa lokið doktorsprófi. Þá hafa rúmlega 4.000 sótt styttri námskeið sem skipulögð hafa verið af GRÓ skólunum fjórum á vettvangi.

Nemendurnir eru allir sérfræðingar á sviði sjálfbærrar landnýtingar og vistheimtar og koma frá samstarfsstofnunum Landgræðsluskólans í Asíu og Afríku. Þau eru frá átta löndum: Gana, Kirgistan, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Nígeríu, Úganda og Úsbekistan. Tveir nemendanna, sem bæði eru frá Nígeríu, starfa fyrir landsvæði sem eru hluti af alþjóðlega netverkinu „Maðurinn og lífhvolfið“ (Man and the Biosphere MAB) á vegum UNESCO. Utanríkisráðuneytið styrkir árlega tvo nemenda frá slíkum MAB svæðum yfir fimm ára tímabil og er þetta í annað skipti sem MAB nemendur koma til námsins í gegnum umrætt samstarf.

Ávörp fluttu Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sem færði nemendum hamingjuóskir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hýsir Landgræðsluskólann, og Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður skólans. Sjöfn og Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður GRÓ, afhentu nemendum útskriftarskírteinin.

  • Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri flutti ávarp við útskriftina. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum