Hoppa yfir valmynd
09.10. 2023 Utanríkisráðuneytið

Mannfjöldaskýrsla Sameinuðu þjóðanna gefin út á Íslandi: Konur ráði barneignum

Konur eiga að geta valið hvort, hvenær og hversu mörg börn þær vilja eignast. Þetta er meginboðskapur árlegrar skýrslu Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, sem að þessu sinni ber titilinn: Átta milljónir mannslífa, óendanlegir möguleikar: rökin fyrir réttindum og vali.

Skýrslan var kynnt í Kvennaskólanum í morgun og var þetta í fyrsta sinn sem skýrslan er formlega gefin út og kynnt hér á landi. Viðburðurinn fór fram í Kvennaskólanum fyrir fullum sal nemenda í kynjafræðum og var stýrt af Völu Karen Viðarsdóttur, framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna hér á landi sem fékk til liðs við sig Elínu R. Sigurðardóttur, skrifstofustjóra þróunarsamvinnuskrifstofu hjá utanríkisráðuneytinu og tvo gesti frá Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna, Ulla E. Müller frá svæðisskrifstofu Norðurlandanna ásamt Klaus Simoni Petersen frá aðalskrifstofunni í New York.

Tæpt ár er liðið frá því að jarðarbúar urðu átta milljarðar að tölu. UNFPA gerir fólksfjölgun og fólksfækkun að umtalsefni í skýrslu ársins og segir að líkamar kvenna eigi ekki að vera skotmörk þegar rætt er um fjölgun eða fækkun mannkyns. Í skýrslunni segir að í sögulegu ljósi hafi stefnur í frjósemismálum –  sem ýmist er ætlað að fjölga eða fækka fæðingum – í flestum tilvikum reynst árangurslausar og geti grafið undan réttindum kvenna. „Mörg ríki hafa kynnt áætlanir til að stækka fjölskyldur með því að bjóða konum og maka þeirra fjárhagslegan hvata og umbun, en samt heldur fæðingartíðnin áfram að vera minna en tvö börn á hverja konu. Og viðleitni til að draga úr fólksfjölgun með þvinguðum ófrjósemisaðgerðum og þvinguðum getnaðarvörnum hefur falið í sér gróf mannréttindabrot,“ segir í skýrslunni.

Vakin er sérstök athygli á því að óheyrilegar margar konur og stúlkur hafi ekki rétt til að taka upplýstar ákvarðanir um líkama sinn þegar kemur að kynlífi, notkun getnaðarvarna eða að leita til heilsugæslu. Ný rannsókn í 68 ríkjum sýni að 44 prósent kvenna hafi ekki slíkan rétt. Þá hafi 257 milljónir kvenna um heim allan óuppfyllta þörf fyrir öruggar og áreiðanlegra getnaðarvarnir.

„Fjölskylduáætlanir má ekki nota sem tæki til að ná frjósemismarkmiðum. Þær eiga að vera tæki til að styrkja einstaklinga. Konur eiga að geta valið hvort, hvenær og hversu mörg börn þær vilja eignast, óháð þvingunum frá álitsgjöfum eða embættismönnum,“ segir í World Population Report.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum