Hoppa yfir valmynd
08.01. 2024 Utanríkisráðuneytið

Vítahringur vannæringar, árása og sjúkdóma ógnar lífi barna á Gaza

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Börn á Gaza eru enn föst í lífshættulegum vítahring sjúkdóma, vannæringar og stigvaxandi árása nú þegar fjórir mánuðir eru liðnir frá því Ísraelsmenn hófu hernaðaraðgerðir á svæðinu. Þúsundir saklausra barna hafa fallið í árásunum og eftirlifendur glíma við síversnandi lífsskilyrði dag frá degi. 

„Börnin á Gaza eru stödd í martröð sem versnar með hverjum degi,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í tilkynningu. „Þau eru drepin í árásum og lífi þeirra sem eftir standa er ógnað af sjúkdómum og skorti á næringu og vatni. Það verður að vernda börn og almenna borgara fyrir þessum ofbeldisverkum og tryggja aðgengi þeirra að nauðsynjum.“ 

Vaxandi áhyggjur af yfirvofandi hungursneyð

Í frétt UNICEF kemur fram að vikuna fyrir jól fjölgaði tilfellum niðurgangspesta hjá börnum undir fimm ára úr 48 þúsund í 71 þúsund. Það að tilfellum fjölgi um 3.200 á dag segir UNICEF vera skýrt merki um að velferð barna og heilsu hraki ört við þessar skelfilegu aðstæður. 

Undir lok síðasta árs varaði Integrated Food Security Phase Classification (IPC) við yfirvofandi hungursneyð á Gaza og segir í tilkynningu UNICEF að rannsóknir stofnunarinnar sýni að börnum fjölgi sem búa við ófullnægjandi næringu. Þannig er um 90% barna undir tveggja ára aldri að neyta einhæfrar fæðu úr aðeins tveimur eða færri fæðuhópum. Flestar fjölskyldur segja börnin aðeins neyta korns – að brauði meðtöldu– og mjólkur. 

UNICEF segir vert að hafa áhyggjur af því að versnandi aðstæður barna og fjölskyldna auki líkur á að ástandið endi með hungursneyð. Þess ber að geta að mikið þarf til að lýst sé yfir hungursneyð, svo það gefur vísbendingu um hversu slæmt ástandið er. UNICEF kveðst sérstakar áhyggjur hafa af næringarskorti rúmlega 155 þúsund þungaðra kvenna og kvenna með barn á brjósti og rúmlega 135 þúsund barna undir tveggja ára aldri. 

UNICEF segir vart þurfa að nefna að ómeðhöndluð vannæring og sjúkdómar séu banvæn blanda hjá viðkvæmum hópum eins og börnum. „Þá hjálpar engum að mikilvægir innviðir sem tryggja vatn, hreinlætisaðstöðu og heilbrigðisþjónusta á Gaza hafa ýmist verið stórskemmdir eða gjöreyðilagðir og því takmarkað mjög möguleikann á að meðhöndla alvarlega vannæringu og útbreiðslu sjúkdóma.“ 

Frá upphafi átaka og árása hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, unnið að því að dreifa nauðsynlegum hjálpargögnum til Gaza-strandarinnar. Þar á meðal bóluefnum, sjúkragögnum, hreinlætispökkum, næringarfæði og -aðstoð auk eldsneytis, vatns, vatnstanka, brúsa, ferðasalerna, tjalddúka, vetrarfatnaðar og hlýrra teppa. 

UNICEF kallar eftir því að vöruflutningar verði heimilaðir á ný svo hægt sé að fylla á hillur í verslunum sem og eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum svo hægt sé að koma óbreyttum borgurum til bjargar og draga úr þjáningu þeirra með neyðaraðstoð.

„UNICEF vinnur ötullega að því að tryggja börnum á Gaza lífsnauðsynlega aðstoð. En við þurfum nauðsynlega á betra og öruggara aðgengi til að bjarga lífi barna,“ segir Russell í tilkynningu. „Framtíð þúsunda barna á Gaza hangir á bláþræði og heimurinn getur ekki, og má ekki, bara standa og horfa á. Ofbeldisverkum og þjáningu barna verður að linna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
6. Hreint vatn og hreint

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum