Hoppa yfir valmynd
08.03. 2024 Utanríkisráðuneytið

Sláandi munur á framkvæmd laga um jafnrétti á vinnumarkaði

Forsíðumynd skýrslunnar - mynd

Munur á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði er mun meiri en áður hefur verið talið samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðabankans. Rúmum þriðjungi munar á þeim réttindum sem karlar og konur njóta.

Jafnréttisverkefni Alþjóðabankans um konur, atvinnulíf og lagaumgjörð eða Women, Business and the Law (WBL) hefur staðið yfir frá árinu 1971 og felst í reglulegri gagnasöfnun og greiningum á lagaumgjörð og regluverki sem hafa áhrif á tækifæri kvenna til atvinnu og frumkvöðlastarfs. Niðurstöðurnar, sem birtar eru í árlegri skýrslu, gefa því góða yfirsýn yfir þau lög og reglur sem hafa áhrif á efnahagslega valdeflingu kvenna og þróun mála í einstökum löndum og á heimsvísu.

Nú eru jafnframt í fyrsta skipti birtir mælikvarðar sem  mæla framkvæmd laga um jafnrétti í samtals 190 ríkjum. Niðurstöðurnar eru sláandi. Samkvæmt lögum  njóta konur einungis um 2/3 sömu réttinda og karlar. Könnun á framkvæmd laganna leiðir hins vegar í ljós að munurinn er enn meiri í raun. Ríki heims hafa að meðtali einungis innleitt um 40% þeirra kerfa sem nauðsynleg eru til að framfylgja gildandi lögum.

Mestur er munurinn þegar kemur að öryggi og njóta konur einungis þriðjung þeirrar verndar sem karlar njóta, svo sem þegar kemur að vernd gagnvart heimilisofbeldi, kynferðislegri áreitni og barnahjónaböndum. Sem dæmi má nefna að 151 ríki hefur sett lög er banna kynferðislega áreitni á vinnustað en einungis 39 banna kynferðislega áreitni á almannafæri. Þetta komi oft í veg fyrir að konur geti til dæmis nýtt sér almenningssamgöngur með öruggum hætti til og frá vinnu.

Yfirhagfræðingur Alþjóðabankans bendir á í tilefni af útgáfu skýrslunnar að um allan heim megi finna lög og reglur sem hamli því að konur standi jafnfætis körlum á vinnumarkaði. Ef staða kynjanna yrði jöfnuð mætti auka verðmætasköpun í heiminum um fimmtung.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum