Ísland styður við fæðuöryggi skólabarna í Malaví
Nýju skólamáltíðarverkefni á vegum Íslands og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) var nýverið hleypt af stokkunum í Malaví. Fulltrúar sendiráðs Íslands í Lilongwe sóttu sérstakan setningarviðburð af þessu tilefni, ásamt menntamálaráðherra Malaví og yfirmanns WFP. Viðburðurinn fór fram í Dzikondilose grunnskólanum sem er einn af skólunum sem hlotið hefur stuðning frá Íslandi.
Verkefnið tryggir um tíu þúsund grunnskólabörnum í Nkhotakota-héraði heita máltíð daglega næstu þrjú árin, úr hráefni sem ræktað er af bændum í nærumhverfi skólanna. Þess má geta að Ísland var fyrst framlagsríkja til að styðja við heimaræktaðar skólamáltíðir fyrir grunnskólanemendur í Malaví.
Með tilkomu verkefnisins fá börnin nú næringarríka máltíð sem unnin er úr árstíðabundinni uppskeru, en auk þess er bændum í nágrenni skólans tryggður markaður fyrir vörur sínar sem eykur svo hvatann til fjölbreyttrar ræktunar.
Skólamáltíðir hafa umbreytandi áhrif á líf barna í fátækum samfélögum og eru áhrifaríkt verkfæri í þróunarsamvinnu. Heimaræktaðar skólamáltíðir auka sjálfbærni og hafa ekki einungis jákvæð áhrif á skólagöngu, nám og næringu barna heldur margföldunaráhrif á í samfélaginu öllu.
Jákvæð áhrif til skemmri og lengri tíma
Mikil samlegð er með skólamáltíðunum og héraðsþróunarverkefni Íslands í Nkhotakota-héraði þar sem stór þáttur verkefnisins er fyrirhuguð uppbygging 15 grunnskóla með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið. Stuðningurinn felur m.a. í sér byggingu á kennslustofum, salernisaðstöðu og kennarahúsum, endurnýjun námsgagna, uppbyggingu skólaeldhúsa, bættur aðgangur að skólamáltíðum og heilnæmu vatni og þá verður komið upp sólarorkukerfi. Einnig verða héraðsyfirvöld styrkt til að bæta getu sína til að aðstoða nemendur með sérþarfir þ.m.t. fötluð börn. Stuðningur Íslands miðar að því að bæta námsumhverfi barnanna á heildrænan hátt.
Skólamáltíðir hafa jákvæð skammtíma- og langtímaáhrif, þar sem hver króna skilar sér margfalt til baka með uppbyggingu á mannauði og sterkara hagkerfi. Þá veita máltíðirnar öryggisnet á tímum fæðuóöryggis þar sem mörg barnanna fá aðeins eina heita máltíð á dag. Nýja verkefnið kemur auk þess á mikilvægum tímapunkti þar sem Malaví glímir enn við afleiðingar El Niño þurrkanna sem ollu víðtækum uppskerubresti á síðasta ári og hörmulegum áhrifum á fæðuóöryggi landsins.
Frá árinu 2012 hafa íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP), stutt verkefni um heimaræktaðar skólamáltíðir í Mangochi-héraði þar sem um þrettán þúsund börn í tíu skólum hafa notið góðs af. Um 1.500 smábændur í héraðinu rækta matinn, og hljóta þjálfun og stuðning frá WFP.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna er áherslustofnun fyrir mannúðaraðstoð Íslands og er jafnframt samstarfsaðili í heimaræktuðum skólamáltíðum í tvíhliða samstarfslöndunum Úganda og Síerra Leóne. Þá er Ísland einnig aðili að alþjóðlega Skólamáltíðarbandalaginu (School Meals Coalition).