Hoppa yfir valmynd

Skipulag og verklagsreglur fyrir stjórnarráðsvef

1. gr.

Markmiðið með því að ráðuneytin starfrækja sameiginlegan stjórnarráðsvef er að gera almenningi og fyrirtækjum kleift að leita hvers kyns upplýsinga sem stjórnvöld búa yfir og  koma á framfæri. Jafnframt að bæta þjónustu Stjórnarráðsins með því að vefurinn verði í auknum mæli gagnvirkur þannig að notendur geti sinnt erindrekstri og fengið afgreiðslu erinda sinna við ráðuneyti og stofnanir rafrænt.

2. gr.

Forsætisráðuneyti fer með sameiginleg mál ráðuneyta varðandi stjórnarráðsvef. Vefstjórn er samstarfsvettvangur ráðuneytanna um málefni stjórnarráðsvefs. Hún er skipuð fulltrúum allra ráðuneyta, einum frá hverju ráðuneyti. Ráðuneytin geta eftir hentugleika skipt um fulltrúa sinn í vefstjórninni. Æskilegt er að í vefstjórn veljist starfsmenn sem bera ábyrgð á stefnumótun varðandi vefsíðugerð einstakra ráðuneyta, fremur en þeir sem beinlínis sinna innsetningu og endurnýjun efnis frá degi til dags. Vefstjóri stjórnarráðsvefs, sem er starfsmaður forsætisráðuneytis, leiðir starf vefstjórnar.

3. gr.

Hlutverk vefstjórnar er m.a. að:

  1. Skilgreina almenn sameiginleg markmið ráðuneytanna er varða stjórnarráðsvefinn.
  2. Fylgjast með nýjungum og leita leiða til að bæta vefþjónustuna, t.d. með vefmælingum eða könnunum meðal notenda.
  3. Móta og innleiða staðlað/samræmt útlit stjórnarráðsvefs.
  4. Tryggja að kröfum um öryggi, aðgengi og gæði (sbr. vefhandbók) sé fullnægt.
  5. Fjalla um ágreiningsmál um hvaðeina sem upp kann að koma varðandi stjórnarráðsvefinn.

4. gr.

Um starf vefstjórnar gildir eftirfarandi:

  1. Vefstjórn fundar eftir þörfum. Vefstjóri boðar til funda með útsendri dagskrá, stýrir fundum og ábyrgist að fundargerðir séu skrifaðar. Mál eru tekin upp að beiðni vefstjóra eða þeirra sem sæti eiga í vefstjórn.
  2. Vefstjóri fylgir eftir ákvörðunum vefstjórnar og upplýsir vefstjórn um stöðu mála á vefstjórnarfundum.
  3. Dagleg vinna við vefi einstakra ráðuneyta er á ábyrgð ráðuneytanna sjálfra. Vefstjóri stjórnarráðsvefs er ráðuneytum til aðstoðar og ráðgjafar. Reiknað er með að vinna og ráðgjöf vegna viðameiri verkefna eða sértækra sé keypt eftir þörfum.
  4. Forsætisráðuneytið getur ákveðið að sérstakir ráðgjafar starfi með vefstjórn og sitji fundi hennar.

5. gr.

Mikilvægt er að allt efni sem ráðuneytin birta á stjórnarráðsvefnum sé áreiðanlegt og framsetning þess vönduð. Ekkert má frá þeim fara sem kastað gæti rýrð á ímynd þeirra eða grafið undan tiltrú almennings. Um efni á stjórnarráðsvefnum gildir eftirfarandi:

  1. Allt efni sem birt er á vef stjórnarráðsins er, eins og annað efni sem frá ráðuneytunum kemur, birt í nafni og á ábyrgð viðkomandi ráðherra. Sama gildir um val á tilvísunum sem birtar eru.
  2. Birting efnis á vef lýtur almennt sömu reglum og útgáfa á prentuðu efni. Í því felst að yfirmaður, í umboði ráðherra, ber ábyrgð á öllu efni sem sett er á vefinn, innihaldi, framsetningu og málfari.
  3. Aðrir en ráðherrar skulu ekki setja persónulegt efni á vef Stjórnarráðsins. Starfsmenn skulu ekki birta eða vísa í persónulegt efni, sem ekki tengist starfsemi stjórnarráðsins.
  4. Ekki skal birta eða vísa í efni sem stríðir gegn almennu velsæmi eða sært getur siðferðisvitund manna.
  5. Ekki skal birta auglýsingar frá einkaaðilum á stjórnarráðsvefnum.
  6. Birta má tilvísanir í vefsíður utan stjórnarráðsins ef síðurnar sem vísað er í snerta starfssvið viðkomandi ráðuneytis og auðvelda notendum leit að upplýsingum um tengd málefni.
  7. Allt efni sem fer á vefinn skal einnig vistað í Málaskrá.

6. gr.

Komi upp ágreiningur innan vefstjórnar má vísa málinu til forsætisráðuneytis sem þá úrskurðar í málinu. Forsætisráðuneytið getur ákveðið breytingar og viðbætur við verklagsreglur þessar.

(Úr Starfsmannahandbók Stjórnarráðsins. Uppfært í maí 2012)

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum