Hoppa yfir valmynd

Sögulegt yfirlit yfir vefi Stjórnarráðsins

Forsagan

„Veraldarvefurinn“, sem Tim Berners-Lee og Robert Cailliau lögðu grunn að í kringum 1990 og átti í upphafi að verða eins konar málaskrárkerfi fyrir öreindarannsóknastofnun Evrópu (CERN) en breiddist síðan út um heiminn með ótrúlegum hraða. Tæpast verður sagt að vefurinn hafi verið þekktur fyrr en um mitt ár 1994. Snemma árs 1995 var það þó þegar orðið ljóst mörgum sem að upplýsingatækni störfuðu í ráðuneytunum að vefurinn gæti orðið mikilvægt hjálpartæki í þeirri viðleitni að gera stjórnsýsluna hagkvæmari og bæta tengsl við borgarana. Það ár var settur upp vefþjónn við staðarnet ráðuneytanna. Hófu fjármálaráðuneytið og Hagstofa Íslands vefgerð á því kerfi. Um svipað leyti voru settir upp vefir hjá menntamálaráðuneytinu, umhverfisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Önnur ráðuneyti sýndu málinu verulegan áhuga þótt ekki yrði af framkvæmdum í bili.

Kallaður var saman til skrafs og ráðagerða hópur um 20 starfsmanna ráðuneytanna, fyrst 10. mars 1995 og síðan 4. apríl sama ár. Á síðari fundinum voru samþykkt tilmæli til ráðuneytisstjóranna um að gengist yrði fyrir þróun sameiginlegs stjórnarráðsvefs með samræmdu útliti og efnisskipan og komið á fót ritstjórn eða samráðshópi ráðuneyta um framkvæmdina.

Á ráðuneytisstjórafundi í mars 1996 var að tillögu forsætisráðuneytisins samþykkt að láta fara fram athugun á hagkvæmni og mögulegu fyrirkomulagi þess að stjórnarráðið starfrækti sérstakan upplýsingavef. Hlutverk hans yrði að veita almenningi, fyrirtækjum og erlendum aðilum aðgengilegar upplýsingar um starfsemi og stjórnsýslu ríkisins á hverjum tíma.

Hagsýslu ríkisins var falið að vinna þessa úttekt og skilaði hún skýrslu um málið í júní 1996. Í beinu framhaldi af því tók forsætisráðuneytið frumkvæði að samvinnu ráðuneytanna um vefinn. Með símbréfi 7. nóvember 1996 var óskað eftir tilnefningu fulltrúa í samráðshóp, er hefði það hlutverk að stýra þróun á stjórnarráðsvef með samræmdu útliti og efnistökum. Kom hópurinn fyrst saman til fundar hinn 12. nóvember 1996.

Um þessar mundir var að koma á markað vefhugbúnaður byggður á hópvinnukerfinu Lotus Notes. Þar sem flest ráðuneytin höfðu þá þegar tekið í notkun málaskrárkerfi byggt á þeim sama grunni, eða stefndu að því að taka það í notkun, var ákveðið að byggja vefinn jafnframt á Notes-kerfinu. Aflað var tilboða í vefhönnun og samræma sjónarmið ráðuneytanna. Gengið var til samstarfs við Íslensku Internetþjónustuna og Hugvit hf. Var stjórnarráðsvefurinn þróaður í því umhverfi fram til ársloka 2003 (kerfið gekk undir ýmsum nöfnum á þessu tímabili, Interpro, WebPagePro og GoProWeb). Fyrstu vefirnir með hinu nýja útliti birtust síðla árs 1997.

Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið, er skipuð var í september 1997, lét sér frá upphafi mjög annt um stjórnarráðsvefinn. Á fundi samráðshópsins 14. nóvember það ár var borin upp og samþykkt tillaga verkefnisstjórnarinnar undir yfirskriftinni „Áfangar í uppbyggingu stjórnarráðsvefsins“. Þar var meðal annars lögð áhersla á þýðingarmikið hlutverk vefsins í tengslum við framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið.

Samráðshópur ráðuneytanna og ritstjórn

Stjórnarráð Íslands - forsíða 1996Í lok árs 1996 kom forsætisráðuneytið á fót samráðshópi ráðuneyta um miðlun efnis á vefnum. Hópurinn var skipaður fulltrúum allra ráðuneyta. Meginverkefni hans var að vinna að samræmdri þróun vefsins og skapa ráðuneytunum vettvang til að skiptast á skoðunum um álitamál, er vefinn snerta.

Í upphafi voru tillögur Hagsýslu ríkisins frá því í júní 1996 lagðar til grundvallar við efnisskipan á vefnum. Þegar nokkur reynsla var komin á vefútgáfu í Stjórnarráðinu kom hins vegar í ljós að þróunin hafði ekki alls staðar verið samstíga. Sum ráðuneyti töldu þá efnisskipan sem lögð var til grundvallar ekki svara breyttum kröfum um uppbyggingu vefja sinna. Sú stefna að viðhafa samræmd efnistök og einsleitt útlit í öllum ráðuneytum gat orðið að engu ef svo héldi áfram. Í lok árs 1997 var því orðið brýnt að fram færi heildarendurskoðun á efnisskipan og útliti stjórnarráðsvefsins og eftir atvikum settar formlegar reglur um vefinn og umgengni við hann. Til að skerpa á vinnunni við vefinn var honum snemma árs 1998 skipuð fjögurra manna ritstjórn. Hlutverk hennar var fyrsta kastið að gera tillögur um uppbyggingu vefsins, samræmda efnisskipan og efnisflokka og móta ákveðnar verklagsreglur um umgengni við hann. Þá var ritstjórninni jafnframt ætlað að taka á ágreiningsmálum um hvaðeina sem upp kynni að koma varðandi stjórnarráðsvefinn.

Ritstjórnin gaf síðla árs 1998 út leiðbeiningarit ætlað ráðuneytunum þar sem gerð var grein fyrir endurskoðaðri efnisskipan. Þar voru ennfremur sett fram eftirfarandi markmið um þróun stjórnarráðsvefsins:

  • Árið 1999 verði kominn upp samræmdur vefur fyrir stjórnarráðið með tengingum við allar ríkisstofnanir þannig að á einum stað verði hægt að nálgast allar upplýsingar sem opinberar ríkisstofnanir miðla með þessum hætti.
  • Öll ráðuneyti og ríkisstofnanir verði þá komin með grunnupplýsingar um starfsemi, hlutverk og þjónustu inn á vefinn.
  • Árið 2000 verði öll ráðuneyti farin að veita á rafrænan máta alla þá þjónustu sem hagkvæmt er að veita með þeim hætti.

Nýtt útlit 2001

Þróun vefsins var ör og upp komu mismunandi þarfir ráðuneyta á útfærslu sinna vefja og skipan valmynda. Því var ákveðið á fyrri hluta árs 2000 að koma á hugmyndasamkeppni um nýtt útlit stjórnarráðsvefs. Ráðuneytin skyldu hafa meiri sveigjanleika til að aðlaga vef sinn að sínum þörfum án þess þó að kasta fyrir róða kostum sameiginlegs útlits. Að lokinni hugmyndasamkeppni var ákveðið að ganga til samninga við Íslensku vefstofuna um hönnun nýs vefs. Verkið hófst á haustmánuðum 2000 og stóð fram í mars næsta árs. Vefurinn var síðan formlega opnaður af forsætisráðherra í Þjóðarbókhlöðu 22. mars 2001.

Stjórnarráð Íslands - forsíða í júní 2003Hugmyndin var að stjórnarráðsvefurinn væri safn sjálfstæðra vefja ráðuneytanna en með sameiginlega forsíðu. Vefirnir voru svipað uppbyggðir og höfðu sameiginlegt útlit. Frá „forsíðu“ var hægt að nálgast vefi einstakra ráðuneyta svo og ríkisstjórnarsíðu. Einnig var hægt að komast beint í ráðuneyti undir nafni ráðuneytis. Á forsíðu flestra ráðuneyta var hægt að nálgast strax það nýjasta sem var að gerast í hverju ráðuneyti fyrir sig og á forsíðu vefsins, voru birtar helstu fréttir frá einstökum ráðuneytum. Með nýju útliti var ráðuneytum gert auðveldara fyrir að móta vefinn að þörfum sinna notenda.

Vefstjóri og vefstjórn

Í ágústmánuði 2000 var ráðið í nýtt starf vefstjóra stjórnarráðsvefsins. Vefstjóra var m.a. ætlað að hafa umsjón með þróun stjórnarráðsvefsins í samráði við ritstjórn sem þá var og síðar vefstjórn, að fylgjast með og innleiða nýjungar í vefmálum og að leiðbeina einstökum ráðuneytum og starfsmönnum þeirra varðandi vefi ráðuneytanna.

Í lok októbermánaðar 2000 lagði forsætisráðherra fram til kynningar fyrir ríkisstjórn minnisblað um rafræna stjórnsýslu. Í minnisblaðinu var m.a. fjallað um vefi stjórnarráðsins og greint frá því að ákveðið hafi verið að setja á stofn sérstaka vefstjórn, er leysti af hólmi samráðshóp stjórnarráðsins um málefni stjórnarráðsvefsins svo og ritstjórn. Jafnframt var í minnisblaðinu greint frá því að forsætisráðuneytið hafi ráðið sérstakan starfsmann til að annast málefni stjórnarráðsvefsins. Honum væri ætlað að leiða samstarf ráðuneytanna á þessu sviði og aðstoða eftir mætti þau ráðuneyti, sem styttra væru á veg komin, við að betrumbæta sínar vefsíður.

Samkvæmt minnisblaðinu var gert ráð fyrir að ráðuneytin hafi áfram með sér nána samvinnu um gerð og þróun stjórnarráðsvefsins og að sérstök vefstjórn, þar sem öllum ráðuneytum gefst kostur á að eiga fulltrúa, sinnti málefnum tengdum stjórnarráðsvefnum.

Með vefstjórn störfuðu einnig sérstakir ráðgjafar þegar þess þurfti.

Hlutverk vefstjórnar var m.a. að:

  • móta ákveðnar verklagsreglur um umgengni við vefinn.
  • taka á ágreiningsmálum um hvaðeina sem upp kann að koma varðandi stjórnarráðsvefinn.
  • skilgreina almenn sameiginleg markmið ráðuneytanna er varða stjórnarráðsvefinn .
  • bæta nýtingu upplýsingatækninnar í samskiptum stjórnvalda við þá sem eftir þjónustu þeirra leita.

Markmiðið var að vefur stjórnarráðsins gengdi vaxandi hlutverki í samskiptum stjórnavalda við almenning, fyrirtæki og stofnanir, og á honum væri hægt að sækja ýmisskonar þjónustu og sinna erindrekstri. Hugmyndin var að vefurinn yrði eftir sem áður staðlaður að vissu marki - eða að því marki sem það væri til hagræðis fyrir notendur vefsins -, en ráðuneytin myndu áfram hafa all frjálsar hendur um efnisval og framsetningu efnis.

Stjórnarráð Íslands - forsíða í mars 2006

Nýtt vefumsjónarkerfi 2004

Í upphafi árs 2004 var tekið upp nýtt vefumsjónarkerfi fyrir vefi ráðuneytanna. Fyrir valinu varð Eplica frá Hugsmiðjunni en það þótti koma best til móts við þarfagreiningu sem unnin hafði verið vorið 2003. Vefsvæðin sem vistuð voru í kerfinu voru yfir 50 og fjölgaði í framhaldinu. Áður hafði WebPagePro vefumsjónarkerfið frá Hugviti þjónað ráðuneytunum frá 1997.

Útlit uppfært 2005

Haustið 2005 var útlit vefja ráðuneytanna uppfært. Byggt var á eldra útliti og það fært til nútímahorfs.

Útlit og vefumsjónarkerfi uppfært 2010

Vorið 2010 var útlit vefja ráðuneytanna uppfært en sem áður var að stórum hluta byggt á fyrra skipulagi. Ný útgáfa af Eplica vefumsjónarkerfinu var jafnhliða tekin í notkun.

Nýr sameiginlegur vefur Stjórnarráðsins 2017

Vorið 2014 ákvað ríkisstjórnin að láta skoða kosti þess að sameina vefi ráðuneytanna. Niðurstaða reyndist jákvæð og haustið 2015 var hafist handa við að greina notkun vefjanna jafnframt því að vinna þarfagreiningu og kröfulýsingu fyrir nýjan vef. Mikil áhersla var lögð á þarfir notenda vefsins. Í ársbyrjun 2016 var nýr vefur boðinn út. Tilboði Advania var tekið og um vorið var byrjað að hanna og setja upp nýjan vef í vefumsjónarkerfinu LiSA. 

Í júní 2017 var nýr sameiginlegur vefur ráðuneytanna opnaður og í kjölfarið var eldri vefjum lokað. Sameiginlegur vefur hafði verulegar breytingar í för með sér meðal annars þar sem nú voru á einum stað upplýsingar um öll verkefni ráðuneytanna, flokkuð undir 28 yfirflokka sem margir voru þvert á ráðuneyti. Stór hluti upplýsingaefnis vefsins, það sem varðar verkefni ráðuneytanna, var nýr eða endurskoðaður af sérfræðingum og upplýsingafulltrúum ráðueytanna. Allt sögulegt efni af eldri vefjum, svo sem fréttir, ræður ráðherra, upplýsingar um útgefið efni var flutt á nýja vefinn og gert aðgengilegt þar. 

Nýr vefur tók ekki aðeins við af eiginlegum ráðuneytisvefjum heldur einnig mörgum öðrum vefjum sem ráðuneytin höfðu haldið úti um lengri eða skemmri tíma. Flutningi þeirra vefja, sem á endanum urðu ríflega fjörutíu, inn á nýja vefi lauk um ári eftir að nýr Stjórnarráðsvefur var opnaður. 

Ensk útgáfa vefsins, government.is, opnaði í janúar 2018 en þar var meginskipulagi íslenska vefsins fylgt. Jafnframt var öllu sögulegu efni af eldri vefjum ráðuneytanna á ensku flutt á nýjan vef og gert aðgengilegt þar. 

Í febrúar 2019 var útliti vefjanna breytt þegar byrjað var að innleiða nýtt sameiginlegt útlit fyrir ráðuneytin til notkunar í útgáfum, bréfsefnum og fleiru. Fyrir utan að skipt var út litum og tekið upp nýtt letur, þá breyttist skipulag og virkni vefsins nánast ekkert. Aðal breytingarnar voru gerðar á forsíðu vefins.   

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum