Hoppa yfir valmynd

Svona gerum við

Leiðbeiningar um góðan texta og einfalt mál á stjornarradid.is

 Leggðu áherslu á einfalt mál þannig að lesandinn:

 • Finni fljótt þær upplýsingar sem hann leitar að.
 • Skilji upplýsingarnar.
 • Hafi gagn af upplýsingunum.

Margir renna hratt yfir vefsíður áður en þeir ákveða hvort þeir lesa efni þeirra.

Hafðu í huga:

 • Að auðvelt sé að átta sig á síðunni og skilja innihald hennar.
 • Að efni sé brotið upp til að það sé sem aðgengilegast, t.d. með millifyrirsögnum og/eða áherslupunktum. 
 • Að skrifa fyrir vefinn með almenna notendur og þarfir þeirra í huga.

Uppbygging texta

Inngangur og fyrirsagnir eru með mikilvægari textum vefsins, með þeim fær lesandinn yfirsýn og auðveldara er að finna réttu upplýsingarnar.

Gott er að sjá textann fyrir sér sem lagskiptan:

 • Fyrirsögnin fangar kjarna málsins.
 • Mynd er góð viðbót við texta og getur undirstrikað boðskap hans.
 • Inngangur að efni á að vera stuttur, upplýsandi og gefa góða yfirsýn. Skrifaðu það mikilvægasta fyrst.
 • Ef texti er langur og flókinn þarftu að byrja á samantekt sem inniheldur mikilvægustu punktana og niðurstöðuna.
 • Skiptu meginmáli upp í kafla með skýrum og lýsandi millifyrirsögnum.
 • Hugaðu að því að textinn endist vel.
 • Notaðu leitarorð sem auðvelda aðgengi að efninu í gegnum leitarvélar.
 • Notaðu lista með áherslupunktum (bullets).
 • Taktu dæmi þar sem það á við til að einfalda mál og auka skilning.
 • Mundu að tengja við öll þau skjöl sem skipta máli.

Beint að efninu: Fyrirsagnir og myndræn framsetning

Þegar lesandinn kemur að texta er mikilvægt að hann fái hraða yfirsýn yfir það um hvað hann fjallar. Hafðu í huga:

 • Fyrirsögn og mynd er það fyrsta sem lesandinn sér. Hvoru tveggja á að gefa upplýsingar og varpa ljósi á málið.
 • Fyrirsagnir og titlar greina eiga að vera stuttir og hnitmiðaðir.
 • Myndatextinn, rétt eins og titill greinarinnar, er nánast alltaf lesinn og því er mikilvægt að leggja vinnu í að skrifa stuttan og skýran myndatexta.

Ljósmyndir, grafík og myndbönd

Ljósmyndir, grafík og myndbönd eru mikilvæg í upplýsingagjöf á netinu. Þau geta átt þátt í að gera efnið aðgengilegt og áhugavert og auðveldað notendum vefsins að vafra á milli síðna og fá yfirsýn. Hafðu í huga:

 • Allar myndir eiga að hafa „alt-texta“ sem birtist þegar mús er rennt yfir myndina. Þetta er mikilvægt með tilliti til aðgengis ólíkra hópa, s.s. fatlaðra.
 • Við notkun myndefnis skal gæta að höfundarrétti.
 • Allar tegundir myndefnis, s.s. myndbönd, grafík, línurit og skýringarmyndir, þurfa að vera í viðunandi upplausn.

Inngangur

Inngangstextinn á að vera stuttur og skýr. Mælt er með því að ekki séu fleiri en tvö efnisatriði í inngangi. Þannig getur lesandinn ákveðið hratt og örugglega hvort það er áhugavert fyrir hann að lesa lengra.

Samantekt

Mælt er með því í lengri og flóknari málum að útbúa samantekt þar sem hægt er að gefa nánari útskýringar án þess að fara út í of mikil smáatriði. Í samantektinni eru helstu atriði málsins kynnt auk hugsanlegra niðurstaðna.

Millifyrirsagnir og uppbygging

Gott er að skipta texta upp í stutta kafla, þannig að auðveldara sé fyrir lesandann að fá yfirsýn. Góðar millifyrirsagnir (H2 og H3) eru forsenda þess að lesandinn finni fljótt og örugglega það sem hann leitar að.

Endingargóður texti

Hafa þarf í huga að almennur texti sem lýsir t.d. viðfangsefnum standist tímans tönn og úreldist síður. Vísanir í tíma, dagsetningar, nöfn ráðherra eða einstaklinga eru atriði sem þarf að hafa í huga að leiði ekki til þess að texti verði úreltur. Þess vegna fer betur á því að skrifa „í júní 2016“ en í „júní sl.“.

Listar með áherslupunktum

Listar með áherslupunktum gefa yfirsýn og auðvelda lestur. Þeir eru líka góð leið til þess að setja fram upplýsingar í stuttu máli.  

Góð leitarorð

Mun lesandinn finna það sem hann leitar að með þeim leitarorðum sem hann prófar? Mundu að notendur nota oft önnur orð en þau sem eru algeng í stjórnsýslu. Þú þarft að auðvelda þeim að finna réttu upplýsingarnar.

Dæmi um leitarorð: Venjuleg orð 
 Stjórnsýslulegt orðfæri
Fuglaflensa
Laun ríkisstarfsmanna
H5N1
Lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna

Tenglar og slóðir

Efnið á stjornarradid.is á oft rætur í opinberum skjölum, s.s. frumvörpum, tillögum, skýrslum og álitsgerðum. Margir notendur hafa áhuga á að nálgast upprunaskjölin. Mundu því eftir að tengja við viðeigandi skjöl.

Ef mikilvægar upplýsingar eru vistaðar á öðrum vefjum, t.d. hjá stofnun viðkomandi ráðuneytis, er um að gera að vísa á þær.

Textar fyrir tengla eiga að vera eins lýsandi og merkingarbærir og kostur er. Þeir eiga að vera  þannig að lesandinn skilji hvert tengillinn leiðir og hvaða upplýsingar eru á bak við hann. Þá þurfa þeira að vera auðfundnir á síðunni. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir t.d. sjónskerta sem nota lesvélar til að skoða efni á vefnum.

Sjálfsagt er að birta tengla inni í texta, sbr: Ráðherra afhenti skýrslu um frumvörpin á þingi í gær...".  Þó skýrslan í þessu dæmi sé nefnd aftur í viðkomandi texta er óþarfi að hafa alltaf tengil, nóg að það sé gert þar sem hún er fyrst nefnd. Hins vegar skal jafnframt hafa neðst í textanum tengil á efnið, með merkingarbærum texta, sbr: Skýrsla forsætisráðherra um endurbætur á peningakerfinu. Forðast ber að texti sem er tengill sé lengri en 100 stafir.

Dæmi um góða framsetningu 
Dæmi um ranga framsetningu 
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um skuldbindandi samninga ráðuneyta (PDF)
Lesið skýrsluna hér.
Sjá skýrsluna.
Við mótun stefnunnar var litið til laga um almannahag svo og reglugerðar um almannahag í því skyni að skapa rétta umgjörð um stefnuna.
Sleppa skal númerum laga og reglugerða í samfelldum texta. Ef um upptalningu er að ræða, er viðeigandi að hafa númer.
 
 • Lög um almannahag nr. 1000/2017
 • Reglugerð um almannahag nr. 167/2016 
Við mótun stefnunnar var litið til laga um almannahag nr. 1000/2017 svo og reglugerðar um almannahag nr. 167/2016 í því skyni að skapa rétta umgjörð um stefnuna.
 
Einnig:
 • Lög um almannahag nr. 1000/2017
 • Reglugerð um almannahag nr. 167/2016

Málfar

Forðastu nafnorðastíl sem oft þyngir setningar og lengir þær. Dæmi: Framkvæmd hefur verið styrking réttinda neytenda… Betra er: Réttindi neytenda hafa verið aukin.

Forðastu fagmál og lagatæknilegt mál, sem og styttingar sem ekki er víst að almenningur skilji.

Forðastu skammstafanir og séu þær notaðar skaltu skrifa þær út í fyrsta skipti sem þær koma fyrir í textanum. Dæmi: Sjúkratryggingar Íslands (SÍ).

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum