Hoppa yfir valmynd

Skattlagning lífeyris

Almennt

Við skattlagningu lífeyrisiðgjalda, eigna lífeyrissjóða og lífeyrisgreiðslna hér á landi er byggt á svokallaðri EET–skattlagningaraðferð (þ.e. exempt, exempt, tax). Þannig eru lífeyrisiðgjöld undanþegin skattlagningu, eignir lífeyrissjóða undanþegnar fjármagnstekjuskatti en lífeyrisgreiðslur aftur á móti skattlagðar eins og hverjar aðrar launatekjur.

Lífeyrisiðgjöld

Samkvæmt 4. og 5. tölul. 30. gr. A laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, eru iðgjöld launþega og sjálfstætt starfandi manna samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða frádráttarbær frá tekjum. Hámark frádráttarins er 4% af iðgjaldsstofni. Að auki er heimilt að greiða allt að 4% til viðbótar enda sé iðgjaldinu varið til öflunar lífeyrisréttinda í séreign.

Samkvæmt 5. tölul. 28. gr. tekjuskattlaganna er launagreiðanda heimilt að greiða til lífeyrissjóðs iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda fyrir starfsmann sinn án þess að greiðslan til sjóðsins sé skattlögð í hendi launamanns. Greiðslan má þó ekki leiða til þess að lífeyrisgreiðslur miðað við 65 ára aldur verði hærri en sem nemur meðaltekjum viðkomandi starfsmanns s.l. fimm ár.

Lífeyrisgreiðslur

Lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar eins og aðrar launatekjur.

Persónuafsláttur

Vilji sjóðfélagi nýta persónuafslátt sinn þarf að skila inn skattkorti til viðkomandi lífeyrissjóðs. Heimilt er að nýta ónýttan persónuafslátt maka að fullu. Eftir andlát annars hjóna eða annars sambúðaraðila (þegar um er að ræða sambúðarfólk sem uppfyllt hefur skilyrði fyrir samsköttun), er eftirlifandi maka heimilt að nýta persónuafslátt hins látna í níu mánuði, talið frá og með andlátsmánuði. Falli maki frá í maí eða síðar á árinu, færist réttur til nýtingar á hluta persónuafsláttar hans yfir áramót. Reglur um millifærslu persónuafsláttar á þessu níu mánaða tímabili eru þær sömu og gilda um millifærslu persónuafsláttar hjá hjónum.

Skattlagning lífeyrissparnaðaar (viðbótarlífeyrissparnaðar) 

Lífeyrisiðgjöld eru frádráttarbær frá skatti ef þau mynda lífeyrisréttindi samkvæmt lífeyrislögunum. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. hafa viðskiptabankar, sparisjóðir, líftryggingafélög, verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðir heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla laganna og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd. Framangreindir aðilar skulu skv. 10 gr. laganna fyrirfram leita eftir staðfestingu fjármálaráðherra á því að reglur sem um tryggingarverndina gilda séu í samræmi við ákvæði laganna.

Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. er erlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og verðbréfafyrirtækjum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, heimilt að stunda starfsemi skv. II. kafla laganna, með stofnun útibús hér á landi, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða án stofnunar útibús, sbr. 32. gr. sömu laga. Ákvæði 31., 32., 34. og 35. gr. þeirra laga gilda um heimildir viðskiptabanka, sparisjóða og verðbréfafyrirtækja til að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga eftir því sem við á. Þetta þýðir t.d. að viðskiptabanki í Belgíu getur boðið upp á samning um viðbótarlífeyrissparnað hér á landi skv. II. kafla laganna hafi hann samsvarandi heimildir samkvæmt starfsleyfi sínu frá belgískum stjórnvöldum. Gengið er út frá þeirri meginreglu að eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja í sérhverju aðildarríkjanna skuli vera í höndum eftirlitsaðila í heimaríki fyrirtækis. Þetta þýðir að starfsemi eða þjónusta belgísks viðskiptabanka hér á landi á grundvelli II. kafla laganna yrði undir eftirliti þarlendra yfirvalda en í samvinnu við Fjármálaeftirlitið.

Síðast uppfært: 26.5.2017
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum