Hoppa yfir valmynd

Starfsleyfi, samþykktar breytingar o.fl.

Verklag við staðfestingu samþykktabreytinga

Forsvarsmenn lífeyrissjóða eru beðnir að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar óskað er staðfestingar fjármálaráðherra á samþykktabreytingum:

Samkvæmt 28. gr. lífeyrislaganna skal tilkynna fjármálaráðherra allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum lífeyrislaganna og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir viðkomandi lífeyrissjóð að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.

Tilgreina skal allar breytingar á samþykktum með skýrum og skilmerkilegum hætti. Í því skyni er æskilegt að í hvert sinn fylgi sjálfstætt yfirlit með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs. Samþykktir í heild sinni og endanlegri mynd skal senda í tvíriti. Ekki er nægjanlegt að senda eingöngu þau ákvæði samþykktanna sem breytast.

Nýjar samþykktir skulu undirritaðar af stjórn sjóðsins.

Ekki skal tilgreina tiltekinn gildistökudag í breyttum samþykktum. Í stað þess er æskilegt að fram komi í gildistökuákvæði að samþykktir taki gildi frá og með staðfestingu fjármálaráðherra. Í þeim tilfellum þegar samþykktabreytingar hafa áhrif á t.d. réttindi sjóðfélaga getur reynst ómögulegt af tæknilegum ástæðum að láta samþykktir öðlast gildi á staðfestingardegi ef hann ber ekki upp á fyrsta dag mánaðar. Í slíkum tilfellum er rétt að fram komi að samþykktir öðlist gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir staðfestingu ráðherra.

Samþykktabreytingum skal fylgja tryggingafræðileg úttekt. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. lífeyrislaganna er stjórn lífeyrissjóðs skylt að fá álit tryggingafræðings á áhrifum breytinga á samþykktum lífeyrissjóðs á getu hans til þess að greiða lífeyri.

Leiðbeiningar til lífeyrissjóða vegna umsókna þeirra um starfsleyfi, frá 2. mars 1999

Leiðbeiningum þessum er ætlað að aðstoða stjórnir lífeyrissjóða við að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum þannig að þær samrýmist lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (slsl). Þær eru unnar af fjármálaráðuneytinu í samráði við Fjármálaeftirlitið og að hluta til byggðar á þeirri reynslu sem ráðuneytið og Eftirlitið hafa fengið við framkvæmd laganna hingað til. Þær eru almenns eðlis en tilteknir lífeyrissjóðir kunna að vera undanþegnir ákveðnum greinum laganna, sbr. XI. kafli þeirra. Ekki er sérstaklega fjallað um þær hér. 

1. Aðild.

Skylda til að greiða til lífeyrissjóðs tekur til allra launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga á aldrinum 16 til 70 ára. Ákvæði í samþykktum lífeyrissjóðs þess efnis að greitt sé til lífeyrissjóðsins til 70 ára aldurs eða þess tíma er taka lífeyris hefst er ekki í samræmi við þessa skyldu. Ellilífeyrisþega sem jafnframt er í launuðu starfi, þótt ekki sé nema í hlutastarfi, ber að greiða í lífeyrissjóð af þeim tekjum. Það fer síðan eftir því starfi sem viðkomandi er í hvort hann getur greitt af þeim tekjum í sama sjóð og hann fær ellilífeyri úr.

2. Samtrygging/séreign og ráðstöfunarréttur sjóðfélaga.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. slsl. getur sjóðfélagi valið hvert séreignarhluti iðgjaldsins rennur. Ekki er unnt að semja sig undan þessum rétti í kjarasamningi. Hafi t.d. verið samið um 12% iðgjald, þar af 3% í séreign og viðkomandi verkalýðsfélag á aðild að sjóði X, eiga sjóðfélagar alltaf að hafa val um að fara með þessi 3% annað. Ákvæði í samþykktum sem gæfu tilefni til að álíta að séreignarhlutinn ætti að fara til lífeyrissjóðsins X, svo sem notkun á orðinu "skal" eða öðrum orðum sömu merkingar er andstæð framangreindu lagaákvæði, sbr. og 3. mgr. 7. gr. rg. nr. 391/1998.

3. Iðgjald/iðgjaldsstofn/tryggingarvernd.

Lífeyrissjóði ber að tilgreina það iðgjald sem fara á til lágmarkstryggingarverndar en það getur verið lægra en hið almenna iðgjald. Þetta iðgjald verður að koma fram í samþykktum, sbr. 7. tölul. 2. mgr. 27. gr. slsl. og er því ekki nægjanlegt að það sé tilkynnt árlega t.d. með bréfi til sjóðfélaga eða samfara útsendingu yfirlita. Hér er um eitt mikilvægasta atriðið í starfsemi hvers sjóðs að ræða og því brýnt að það komi fram í samþykktum, jafnvel þótt það kunni að leiða til þess að breyta þurfi þeim árlega. Ráðstöfun iðgjalds til lágmarkstryggingarverndar er endanleg. Komi í ljós við úttekt á samtryggingardeild lífeyrissjóðs að staða hennar er betri en gengið var út frá þegar iðgjaldið var reiknað út er ekki heimilt að flytja þann bónus sem myndast yfir í séreignardeild sjóðsins. Hins vegar er heimilt að breyta iðgjaldinu og skiptingu þess milli séreignar og samtryggingar, eða auka réttindi í samtryggingadeild. Bjóði sjóðurinn að lágmarkstryggingarvernd sé samsett úr séreign og sameign skal koma fram í samþykktum hvert iðgjaldið er og hvert það verður miðað við mismunandi samsetningu á samtryggingu og séreign. Þetta verður ekki gert á einstaklingsgrunni enda ekki í samræmi við það sem fram kemur hér að framan um tilgreiningu iðgjaldsins. Tryggingafræðilegur grunnur sjóðsins verður því alltaf að liggja fyrir þannig að unnt sé að ganga úr skugga um að sjóðurinn uppfylli kröfur laganna þegar samþykktir eru yfirfarnar. Hjá sjóðum með lágmarkstryggingarvernd í samtryggingu og jafna réttindaávinnslu er þetta tiltölulega einfalt. Hins verður verður að gera ráð fyrir að í sjóðum sem bjóða upp aldurstengda réttindaávinnslu jafnvel með samþættingu verði töflur sem sýna iðgjaldið og réttindaávinnsluna miðað við greiðslutíma. Þessar töflur geta verið í viðaukum en eru engu að síður hluti af samþykktunum. Iðgjaldsstofninn er tilgreindur í 3. gr. slsl. og er ekki heimilt að miða við annan stofn t.d. ákveðin viðmiðunarlaun.

4. Lífeyrisréttindi skv. III. kafla.

Þegar þessi kafli í lögunum tekur mið af þeim reglum sem almennt hafa gilt hjá lífeyrissjóðunum, en þó hafa með lögunum verið gerðar nokkrar breytingar. Rétt þykir að benda á nokkur atriði sem hafa valdið misskilningi. 

a. Skipting lífeyrissjóðs í deildir vegna ákvörðunar lífeyris, sbr. 13. gr.

Heimilt er að skipta lífeyrissjóði í deildir t.d. eftir því hvernig ávinnslu réttinda er háttað eða eftir starfsstéttum, svo og að skipta iðgjaldinu eftir því um hvers konar lífeyri er að ræða. Nokkrum sjóðum var skipt í deildir með þessum hætti fyrir 1. júlí 1997, og með lögunum var ekki ætlunin að breyta því. 

b. Ellilífeyrir, sbr. 14. gr.

Sjóðfélagi á alltaf rétt á ellilífeyri á grundvelli inngreiddra iðgjalda óháð greiðslutíma eða stigafjölda eða sambærilegum skilyrðum um árlega lágmarksgreiðslu, sbr. 14. gr. og 1. mgr. 19. gr. og er óheimilt með hliðsjón af 1. mgr. 19. gr. að láta aðra reglu gilda um verðtryggingu fyrir greiðandi sjóðfélaga en þá sem eru hættir. Regla þess efnis að til þess að fá verðtryggðan lífeyri verði viðkomandi að hafa greitt t.d. í þrjú ár eða öðlast þrjú stig er því brot á 14. og 19. gr. slsl. Jafnframt verður að telja að svokölluð 30 ára regla sem notuð hefur verið hjá sumum sjóðum við ákvörðun ellilífeyrisréttinda hafi verið afnumin enda engin slík takmörkun heimiluð í 14. gr. laganna. 

c. Örorkulífeyrir, sbr. 15. gr.

Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri sem miðast við áunnin réttindi ef hann hefur greitt til lífeyrissjóðs í 2 ár, orðið fyrir starfsorkutapi sem metið er 50% eða meira og orðið fyrir tekjuskerðingu. Ekki er heimilt að gera kröfu um tiltekna lágmarksgreiðslu á ári eða tiltekinn stigafjölda. Hins vegar mætti bjóða upp á val t.d. að sjóðfélagi hefði annað hvort greitt í 2 ár eða áunnið sér 2 stig hvort heldur er hagkvæmara fyrir sjóðfélagann. Uppfylli sjóðfélaginn tiltekin viðbótarskilyrði á hann rétt á framreikningi og skal sjóðurinn setja frekari reglur um útreikning hans. Heimilt er að setja kröfu um tiltekna lágmarksréttindaávinnslu vegna réttar til framreiknings enda megi ætla að sjóðfélagi sem greitt hefur í þann tíma sem tilgreindur er í lögunum, hafi raunhæfan möguleika að uppfylla skilyrðið jafnvel þótt laun séu lág eða viðkomandi í hlutastarfi. Ráðuneytið hefur þannig samþykkt ákvæði sem áskilur að árleg réttindaávinnsla hafi verið a.m.k. 0,5 stig. Heimilt er að nota 30 ára regluna vegna framreiknings á örorkulífeyri þó þannig að áunnin réttur sé ekki skertur við það og að setja almenn skilyrði um endurhæfingu, læknisskoðun og því um líkt. Líta verður svo á að framreikna skuli örorkulífeyri til ellilífeyrisaldurs. Ef sjóðurinn hyggst nota þá takmörkun sem tilgreind er í 5. mgr. 15. gr. yrði það að koma fram í samþykktum.

d. Makalífeyrir, sbr. 16. gr.

Falli sjóðfélagi frá á maki hans rétt á makalífeyri hafi sjóðfélaginn greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. 24 mánuði á undanförnum 36 mánuðum, svo og ef sjóðfélaginn hefur verið lífeyrisþegi við andlátið eða öðlast rétt til framreiknings. Maki getur átt rétt á makalífeyri jafnvel þótt sjóðfélaginn hafi ekkert greitt síðasta árið. Regla hjá lífeyrissjóði þess efnis að réttur til makalífeyris skapist hafi sjóðfélagi greitt í 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum getur því verið þrengjandi og er brot á 16. gr. laganna. Í flestum tilvikum er hún hins vegar hagstæðari sjóðfélaga og því gæti sjóður t.d. boðið upp val þannig að sjóðfélagi þyrfti annað hvort að uppfylla hið lögbundna skilyrði eða annað skilyrði sem getur verið hagstæðara. Um framreikning makalífeyris gilda sömu reglur og um örorkulífeyri.

Lágmarksgreiðslutími makalífeyris er tilgreindur í 2. mgr. 16. gr. og er hann 24 mánuðir. Uppfylli makinn sérstök viðbótarskilyrði, á hann rétt á makalífeyri í lengri tíma. Eitt af þessum skilyrðum er að makinn framfæri barn sem áður var á framfæri sjóðfélagans. Það sem skiptir máli fyrir réttinn er framfærsluskyldan ekki hver tengsl makans og barnsins er. Barnið getur því verið kynbarn annars eða beggja, stjúpbarn annars en kynbarn hins, ættleitt barn eða fósturbarn. Ekki skiptir máli hvenær ættleiðingin átti sér stað.

Hugtakið maki er skilgreint í 3. mgr. 16. gr. og er sjóðunum bent á að nota það í stað þess að notast við orð eins og ekkja/ekkill enda henta þau illa þegar til þess er litið hvernig hugtakið er skilgreint. Þar sem 16. gr. eins og aðrar greinar í III. kafla kveður á um lágmarksréttindi er óheimilt að setja önnur skilyrði fyrir rétti til makalífeyris en tilgreind eru í greininni. Þannig er ekki heimilt að skilyrða réttinn við það að til hjónabands hafi verið stofnað fyrir tiltekinn tíma t.d. 60 ára aldur sjóðfélaga. Vilji sjóður hins vegar veita betri rétt en skv. 2. mgr. 16. gr. mætti binda viðbótarréttinn þessu skilyrði.

e) Barnalífeyrir, sbr. 17. gr.

Réttur til barnalífeyris myndast ef skilyrði 1. mgr. er uppfyllt, sbr. athugasemd varðandi lágmarksgreiðslutíma vegna makalífeyris. Í 2. mgr. er upphæð barnalífeyris tilgreind og er þar miðað við tiltekna krónutölu. Heimilt er að hafa upphæðina hærri og tilgreina hana með öðrum hætti enda sé ljóst af samþykktum hver fjárhæðin er. Það er þannig ekki unnt að láta lífeyrinn vera tiltekið hlutfall af barnalífeyri almannatrygginga. Heimilt er að setja kröfu um tiltekna lágmarksréttindaávinnslu. enda megi ætla að sjóðfélagi sem greitt hefur í þann tíma sem tilgreindur er í lögunum, eigi raunhæfan möguleika á að uppfylla skilyrðið og að lágmarksupphæðin lækki hafi sjóðfélaginn greitt minna. Ráðuneytið hefur því, svo dæmi sé tekið. veitt sjóði starfsleyfi sem setur það almenna skilyrði fyrir fullum barnalífeyri að sjóðfélaginn hafi áunnið sér eitt stig á ári á viðmiðunartímabilinu, sbr. 1. mgr. 17. gr. Þá verður að skilja ákvæðið um lágmarksupphæð vegna örorkulífeyris þannig að átt sé við 100% örorku sjóðfélaga og að hún lækki hlutfallslega miðað við örorkustig.

f) Upplýsingaskylda og flutningur iðgjalda , sbr. 18. og 19. gr.

Í 18. gr. er tilgreint hvaða skyldur hvíla á lífeyrissjóðum varðandi upplýsingaskyldu en skv. 2. mgr. á að fylgja greiðsluyfirliti upplýsingar um rekstur og fjárhagsstöðu lífeyrissjóðs a.m.k. einu sinni á ári, sbr. og 27. gr. 

Óheimilt að er flytja iðgjöld á milli lífeyrissjóða fyrr en að töku lífeyris kemur. Ákvæði sem heimilar lífeyrissjóði að flytja iðgjöld í annan lífeyrissjóð á meðan viðkomandi er enn á vinnumarkaði er þannig brot á 3. mgr. 19. gr. Jafnframt er óheimilt að takmarka endurgreiðslu til útlendinga við tiltekinn hluta iðgjalds svo sem að endurgreiða aðeins 4% iðgjaldsins heldur verður ákvörðunin að byggjast á tryggingafræðilegum réttum forsendum. 

Lífeyrissjóðir verða að tryggja með aðild að samkomulag um samskipti lífeyrissjóða eða með öðrum hætti að sjóðfélagi glati hvorki rétti né öðlist meiri rétt við að flytja milli sjóða, sbr. 9. gr. rg. nr. 391/1998. Þetta ákvæði kemur þó ekki í veg fyrir að heimilt sé að flytja lágmarksréttindi (stubba) milli sjóða við lífeyristöku enda sé kveðið á um í samkomulagi sem sjóðir kunna að gera að lífeyrissjóði sé ekki skylt að flytja réttindi til sjóðs með lakari réttindi.

5. Fjöldi sjóðfélaga, sbr. 21. gr.

Samkvæmt 21. gr. skulu að jafnaði minnst 800 sjóðfélagar greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs í mánuði hverjum. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að ákvæðið sé sett þar sem talið sé að áhættudreifing í sjóði með færri en 800 sjóðfélaga sé óviðunandi. Með hliðsjón af tilgangi ákvæðisins verður að líta svo á að sjóðfélagar í samtryggingardeild lífeyrissjóðs verði að vera a.m.k. 800. Ef samtryggingardeildir eru fleiri en ein og hver um sig tryggingafræðilega sjálfstæð verður hver deild að uppfylla þetta skilyrði. Í vottorðum þeim sem fylgja eiga umsókn yrði í slíkum sjóðum að fjalla um hverja deild fyrir sig. Ákveði lífeyrissjóður t.d. að stofna deild með aldurstengdri réttindaávinnslu yrði sú deild að ná 800 sjóðfélaga markinu innan þriggja ára frá stofnun sbr. meginreglu 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laganna, ella yrði að grípa til ráðstafana í samræmi við 3. mgr. 21. gr., sbr. og 11. og 12. gr. rg. nr. 391/1998. Þær geta annars vegar verið þannig að sjóður kaupi endurtryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi en hins vegar þannig að lífeyrissjóðir gera samstarfsamning um áhættudreifingu. Með síðari leiðinni geta sjóðirnir keypt áhættu hver hjá öðrum gegn greiðslu þóknunar og náð þannig fram svipuðum markmiðum og nást með kaupum á tryggingum. Það skal sérstaklega tekið fram að ekki er heimilt að flytja iðgjöld milli sjóða vegna slíks samstarfs sbr. 19. gr. laganna og ekki er heldur unnt að stofna sérstakan lífeyrissjóð sem hefur það hlutverk að varðveita iðgjöld vegna þess enda væri það andstætt 2. mgr. 1. gr. 19. gr. og 2. mgr. 20. gr. slsl. og 12. gr. rg. nr. 391/1998.

6. Hvað koma á fram í samþykktum, sbr. 27. gr.

Ráðuneytið vill beina þeim tilmælum almennt til lífeyrissjóða að þeir hafi það í huga, að til þess að samþykktirnar nýtist sjóðfélögum sem best er mikilvægt að orðalag þeirra sé eins skýrt og unnt er, gætt sé samræmis í hugtakanotkun, vísað sé milli greina þegar það á við, samþykktunum sé skipt í kafla og millifyrirsagnir notaðar. Jafnframt skal þess gætt að hugtakanotkun og skilgreiningar séu í samræmi við ákvæði laganna og reglugerðanna. Í 27. gr. laganna er tilgreint hvað skal koma fram í samþykktum en einnig hefur verið fjallað um það hér að framan. Flest þessara atriða skýra sig sjálf, en rétt þykir að gera nánari grein fyrir eftirtöldum atriðum og minna á nokkur atriði sem vantað hefur í margar þeirra samþykkta sem ráðuneytið hefur haft til athugunar:

  • Heiti, heimili og hlutverk sjóðsins. Þarna er m.a. verið að vísa til þess hvernig skipulag sjóðsins er svo sem hvort hann skiptist í deildir t.d. eftir því hvort lífeyrisréttindi eru í sameign eða séreign.
  • Brottfall aðildar, sbr. 3. tölul. 2. mgr. Hann fjallar m.a. um brottfall aðildar. Í þessu ákvæði er bæði vísað til þess með hvaða hætti félög sem aðild hafa átt að stofnun lífeyrissjóðsins geti hætt aðild svo og hvenær einstaklingur telst ekki lengur vera sjóðfélagi. Fyrra atriðið á einkum við um þá sjóði sem stofnaðir eru af samtökum launþega og atvinnurekenda en hitt atriðið getur tekið til allra sjóða. Er með því átt við að í samþykktunum komi fram að útlendingur sem fær endurgreidd iðgjöld teljist ekki lengur sjóðfélagi, svo og sá sem 3. mgr. 19. gr. laganna á við um.
  • Ársfundur. Fjalla skal um í samþykktum hvað tekið er fyrir á ársfundi, sbr. 4. tölul. 2.mgr.
  • Val endurskoðanda. Fjalla skal m.a. um val hans í samþykktum, sbr. 5. tölul. 2. mgr.
  • Upplýsingaskylda, sbr. 11. tölul. 2. mgr. sbr. og 18. gr.

Jafnframt því sem ráðuneytið vill benda sjóðum á að gæta þess að tilgreina í samþykktum allt það sem koma á þar fram, er jafnframt mælst til þess að ekki sé tilgreint í samþykktum atriði sem koma fram í lögunum og lúta að innra starfi og starfsumhverfi sjóðanna, svo sem atriði er varða starf endurskoðenda sjóðanna og eftirlit með sjóðunum og skyldur þessara aðila, sbr. VIII. og IX. kafla laganna. Þá er það beinlínis andstætt VIII. kafla laganna og reglum um endurskoðun lífeyrissjóða að gefa endurskoðanda fyrirmæli um það í samþykktum til hvaða atriða endurskoðunin eigi að taka. 

Heppilegt getur verið að hafa í samþykktum ákvæði þess efnis að stjórn lífeyrissjóðs megi gera þær breytingar á samþykktum sem leiða beinlínis af lögum eða eru nauðsynlegar til þess að sjóðurinn geti fengið starfsleyfi og breytingar á samþykktum staðfestar.

7. Hugtakið sjóðfélagi.

Þetta hugtak er skilgreint í 3. mgr. 2. gr. slsl. og skv. 1. mgr. 30. gr. laganna skulu allir sjóðfélagar eiga rétt á setu á ársfundi. Það er því brot á þessari reglu að takmarka fundarsetuna við tiltekinn hóp sjóðfélaga svo sem greiðandi sjóðfélaga og lífeyrisþega. Þeir sem greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs á grundvelli samnings um viðbótartryggingarvernd teljast hins vegar rétthafar. 

8. Fjárfestingarheimildir.

Eitt af því sem koma á fram í samþykktum eru fjárfestingarheimildir. Um fjárfestingar lífeyrissjóða er fjallað í VII. kafla. Í 36. gr. er tilgreint í hverju lífeyrissjóðir mega fjárfesta. og hvað gildir um fjárfestingarstefnu lífeyrisjóðanna hvort sem um er að ræða lífeyrisréttindi í sameignardeild eða séreignardeild, eða fjárfestingar á iðgjöldum sem varið hefur verið til lágmarkstryggingarverndar eða viðbótartryggingarverndar. Lífeyrissjóðir hafa þannig ekki frjálsar hendur um hvernig þeir fjárfesta réttindi í séreignardeild og skiptir engu máli hvort sú séreign er hluti af lágmarkstryggingarvernd eða viðbótartryggingarvernd. Heimilt er að skipta lífeyrissjóði í deildir þar sem hver deild hefur mismunandi fjárfestingarstefnu enda uppfylli hver deild um sig rammann í lögunum. Greinin gefur tölvert svigrúm og geta því lífeyrissjóðir haft breytilega fjárfestingarstefnu eftir því t.d. hvort um séreign eða sameign er að ræða. Velji sjóðurinn að bjóða upp á fleiri leiðir verður að koma fram í samþykktum eftir hvaða meginreglum er farið í þeim efnum. 

Lífeyrissjóðir geta valið þá leið að taka 36. gr. upp óbreytta í samþykktir sínar. Velji sjóður hins vegar aðrar uppsetningar er mikilvægt að allar takmarkanir sem tilgreindar eru í 36. gr. komi fram en nokkuð hefur borið á því að sumar af þeim takmörkunum sem tilgreindar eru í greininni gleymist. 

9. Séreignardeild/viðbótartryggingarvernd.

a) Skilgreiningar.

Gæta þarf vel að því að skilgreiningar og hugtakanotkun séu í samræmi við ákvæði laganna og reglugerðar um um viðbótarlífeyrissparnað. 

b) Fjárhagslegur aðskilnaður.

Lífeyrissjóðir sem ákveða lágmarks-tryggingavernd á grundvelli 3. mgr. 4. gr. laga nr. 129/1997 og vörsluaðila lífeyrissparnaðar, skv. 3. mgr. 8. gr. laganna, ber að haga reikningsskilum sínum með þeim hætti að þeir geti gert grein fyrir því með hvaða hætti ávöxtun á séreignarsparnaði og viðbótartrygginga-vernd er ákvörðuð. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 129/1997 er óheimilt að niðurgreiða kostnað við varðveislu og ávöxtun iðgjalds með tekjum af annarri starfsemi. 

c) Kaup á líf- og/eða heilsutryggingu.

Ef mælt er fyrir um heimild til að verja hluta af viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á líf- og/eða heilsutryggingu ber að taka fram að um greiðsla tryggingafjár til rétthafa fari eftir 11. gr. slsl. Lífeyrissjóður skal eiga aðild að samningi um kaup á slíkum tryggingum og kveðið skal á um að bætur samkvæmt honum renni til sjóðsins og færist sem inneign hjá honum í séreignardeild eða sem réttindi í samtryggingadeild. 

Athygli er vakin á því að bætur sem greiddar eru á grundvelli slíkra trygginga eru skattlagðar með sama hætti og viðbótarlífeyrissparnaður. 

d) Ávöxtun og form fjárvörslu.

Í samþykktum skal mælt fyrir um það með hvaða hætti ávöxtun er reiknuð af séreign sjóðfélaga. Samningur um viðbótarlífeyrissparnað skal kveða á um innborgun í séreignardeild eða samtryggingadeild viðkomandi lífeyrissjóðs, sbr. 5. mgr. 5. gr. reglugerðar um viðbótarlífeyrissparnað. 

e) Fjárfestingarheimildir.

Um fjárfestingaheimildir og stefnu séreignardeilda lífeyrissjóða gilda sömu reglur og um samtryggingardeildir, þ.e. 36. gr. slsl. Heimilt er að bjóða upp á deildir vegna séreignarlífeyrissparnaðar að því tilskildu að hver deild uppfylli skilyrði laganna. Heimilt er að leyfa rétthöfum að velja milli nokkurra leiða og mismunandi hlutföll en með hliðsjón af því að stjórn sjóðsins ber ábyrgð á fjárfestingum sjóðsins verður hún ekki alfarið á einstaklingsgrundvelli, þ.e. að búið verði til safn fyrir hvern og einn, sbr. 1. mgr. 36. gr. slsl. þar sem fjallað er um skyldur stjórnar sjóðanna við mótun á fjárfestingarstefnunni. 

f) Útborgun viðbótarsparnaðar.

Gæta ber þess að ákvæði samþykkta um útborgun viðbótarlífeyrissparnaðar sé í samræmi við 11. gr. slsl., sbr. 11. gr. rg um lífeyrissparnað. Athygli er vakin á því að 3. og 4. mgr. 11. gr. slsl. eru ófrávíkjanlegar. Jafnframt skal bent á að með hugtakinu örorka, í 3. mgr. 11. gr. slsl., er átt við fjárhagslega örorku en ekki læknisfræðilega, sbr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 

Í 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. rg. um lífeyrissparnað er heimild til að mæla fyrir um skemmri útborgunartíma en mælt er fyrir um í 11. gr. slsl., ef innstæða er undir kr. 500.000 (fjárhæð þessi breytist í samræmi við vístölu neysluverðs). Sé slík heimild í samþykktum skulu gilda um hana almennar reglur þannig að það sé ekki háð ákvörðun lífeyrissjóðs í hverju tilviki hvort rétthafi geti nýtt sér heimildina. Dæmi um orðalag: "Ef inneign rétthafa er undir kr. 500.000 skal greiða rétthafa hana á skemmri tíma en mælt er fyrir um í 11. gr. laga nr. 129/1997 eða í eingreiðslu, óski hann þess. Viðmiðunarfjárhæðin breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.". 

g) Heimild til flutnings.

Í 2. mgr. 12. gr. rg. um lífeyrissparnað er heimild til að leyfa flutning innistæðu eða réttindi á grundvelli viðbótarlífeyrissparnaðar til annars vörsluaðila. Eins og fram kemur í ákvæðinu er það í valdi hvers vörsluaðila að ákvarða hvort hann heimili slíkan flutning. Í samþykktum og samningum um viðbótarlífeyrissparnað skal taka afstöðu til þess hvort flutningur sé heimill. Kjósi viðkomandi vörsluaðili að heimila slíkan flutning í reglum sínum skal slík heimild vera almenn en ekki háð ákvörðun vörsluaðila í hverju tilviki. Dæmi um orðalag : "Rétthafa er heimilt að flytja inneign sína eða réttindi sín, að undangenginni uppsögn, milli vörsluaðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.". 

h) Uppsagnarfrestur.

Ávalt skal mæla fyrir um 6 mánaða uppsagnarfrest, sbr. 1. mgr. 9. gr. slsl. og 5. tölul. 6. gr. reglugerðar um viðbótarlífeyrissparnað. 

i) Bann við framsali og undantekning frá því.

Rétt er að taka upp eða vísa til efnis 13. gr. rg. 698/1998 sem leggur bann við framsali réttinda. Athygli er þó vakin á því, að heimilt er að gera samkomulag um skiptingu réttinda milli rétthafa og maka hans, svo og að flytja innistæðu á milli vörsluaðila, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar.

10. Gildistaka og undirritun samþykkta.

Samþykktirnar geta eðli málsins samkvæmt, ekki öðlast gildi fyrr en við útgáfu starfsleyfis, sbr. og til hliðsjónar 28. gr. laganna en til hægðarauka geta sjóðir ákveðið að samþykktir öðlist gildi 1. dag næsta mánaðar eftir að starfsleyfi er gefið út. Samþykktirnar skulu vera undirritaðar af stjórn sjóðsins.

Dreifibréf - efni samþykkta og fjárfestingaheimildir

Síðast uppfært: 15.3.2019
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum