Hoppa yfir valmynd

Birting laga og stjórnvaldsfyrirmæla

Kveðið er á um birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Auk þess eru íslensk lög á hverjum tíma gefin út með rafrænum hætti í lagasafni og reglugerðir í reglugerðasafni. Úrskurði og álit stjórnvalda sem birt eru má nálgast hér á vefnum og á slóðinni urskurdir.is

Stjórnartíðindi 

Í Stjórnartíðindum skal birta öll lög, stjórnvaldsfyrirmæli og samninga við önnur ríki, svo og auglýsingar varðandi gildi þeirra. Stjórnartíðindi voru gefin út frá 1874-2005 á prenti en frá nóvember 2005 hefur útgáfa Stjórnartíðinda verið rafræn og réttaráhrif bundin við þá útgáfu. Sú útgáfa er öllum opin án endurgjalds á vefnum stjornartidindi.is

Lögbirtingablað 

Í Lögbirtingablaði skal birta dómsmálaauglýsingar, meðal annars stefnur til dóms, úrskurði um töku búa til opinberra skipta og áskoranir um kröfulýsingar, auglýsingar um skiptafundi og skiptalok þrotabúa, nauðungarsölur, lögboðnar auglýsingar um félög og firmu, sérleyfi er stjórnvöld veita, opinber verðlagsákvæði og annað það er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi. Lögbirtingablað var gefið út á prenti frá 1908-2005 en hefur verið gefið út rafrænt, með réttaráhrif bundin við þá útgáfu, frá miðju ári 2005 og er aðgengilegt gegn áskriftargjaldi á logbirtingablad.is. Sýslumaðurinn á Suðurlandi, sýsluskrifstofan í Vík í Mýrdal, annast útgáfu Lögbirtingablaðsins. 

Lagasafn 

Íslensk lög á hverjum tíma er að finna í rafrænu lagasafni. Safnið er vistað á vef Alþingis samkvæmt samningi dómsmálaráðuneytisins við Alþingi. Lagasafnið er að öllu jöfnu uppfært þrisvar á ári, að loknu haustþingi en einnig að loknu vorþingi ár hvert og að loknu sumarþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Lagasafnið er aðgengilegt án endurgjalds á slóðinni althingi.is/lagasafn

Reglugerðasafn 

Allar reglugerðir sem útgefnar eru af stjórnvöldum er að finna í rafrænu reglugerðasafni. Vefurinn var opnaður árið 2001 á slóðinni reglugerd.is og innihélt þá allar reglugerðir sem voru í gildi. Allar nýjar reglugerðir og breytingareglugerðir eru færðar jafnóðum inn í reglugerðasafnið eftir að þær hafa verið birtar í Stjórnartíðindum. Þar er einnig að finna brottfallnar reglugerðir. Aðgangur er öllum opinn og án endurgjalds. 

Úrskurðavefur 

Á slóðinni urskurdir.is hér á vefnum er að finna þá úrskurði í stjórnsýslumálum sem ráðuneytin birta sem og álit auk úrskurða kærunefnda og dóma Félagsdóms. 

Sjá einnig:

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Samráðsgátt

Lagasafn

Íslensk lög á hverjum tíma er að finna í rafrænu lagasafni. Safnið er vistað á vef Alþingis.

Reglugerðir og úrskurðir

Síðast uppfært: 15.11.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum