Hoppa yfir valmynd

Upplýsingalög

Ákvæði upplýsingalaga, nr. 140/2012,  taka til allrar starfsemi stjórnvalda. Lögin taka til hvers konar þjónustustarfsemi, samningsgerðar, setningu stjórnvaldsfyrirmæla og annarrar starfsemi.

Upplýsingalög taka til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Þó eru ákveðnar undanþágur frá því. Upplýsingalögin taka einnig til einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds.

Ákveðin stjórnsýslusvið eru undanþegin gildissviði upplýsingalaga, svo sem þinglýsingar, aðfarargerðir, gjaldþrotaskipti, skipti á dánarbúum o.fl. Hið sama gildir um rannsókn sakamála og saksókn. Lögin gilda ekki um aðgang aðila stjórnsýslumáls að gögnum þess en þá gilda stjórnsýslulög, nr. 37/1993.

Markmið upplýsingalaga er að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, meðal annars í þeim tilgangi að styrkja:

  1. upplýsingarétt og tjáningarfrelsi,
  2. möguleika almennings á þátttöku í lýðræðissamfélagi,
  3. aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum,
  4. möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni,
  5. traust almennings á stjórnsýslunni.

Beiðni um aðgang að gögnum

(5. gr., 15. gr. og 17. gr. upplýsingalaga)

Sá sem óskar aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum á grundvelli upplýsingalaga getur óskað eftir að fá að kynna sér fyrirliggjandi gögn tiltekins máls eða tiltekin fyrirliggjandi gögn. Setja má það skilyrði að beiðni komi fram á eyðublaði sem lagt er til. Stjórnvaldi er skylt að taka ákvörðun um hvort það verði við beiðni svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra frá ástæðu tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Aðgangur að gögnum

(5. gr. upplýsingalaga)

Sérhver maður getur krafist aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum. Hvorki þarf að sýna fram á sérstök tengsl við málið eða aðila þess né fram á hagsmuni þess að fá umbeðnar upplýsingar. Er upplýsingaréttur almennings að þessu leyti ólíkur flestum öðrum reglum um aðgang að gögnum hjá stjórnvöldum.

Sé þess óskað er stjórnvöldum skylt, með ákveðnum undantekningum, að veita almenningi aðgang að öllum gögnum sem varða tiltekið mál og einnig að tilteknum fyrirliggjandi gögnum, þó svo ekki sé hægt að tengja þau við tiltekið mál. Rétturinn nær einungis til gagna sem liggja fyrir hjá stjórnvöldum þegar beiðni er borin fram. Í lögunum felst almennt ekki skylda fyrir stjórnvöld að útbúa gögn eða afla gagna, séu þau ekki fyrirliggjandi.

Vinnugögn

(8 gr. upplýsingalaga)

Meðal gagna sem almenningur hefur ekki aðgang að eru vinnugögn, það er gögn sem stjórnvöld hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Ef vinnugögn eru hins vegar send á milli ráðuneyta eða tiltekins ráðuneytis og stofnunar verða þau almennt ekki undanþegin nema gögnin tengist starfi nefnda eða starfshópa sem stjórnvöld hafa sett á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki. Með þessu er stjórnvöldum veitt svigrúm til þess að vega og meta mál skriflega til undirbúnings að úrlausn.

Frá þessari reglu eru þó undantekningar. Meðal annars á almenningur rétt til aðgangs að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls og rétt til aðgangs að upplýsingum sem ekki verður aflað annars staðar frá. Ef aðrar aðgangstakmarkanir eiga ekki við skal í öllu falli veita aðgang að vinnugögnum þegar liðin eru átta ár frá því þau urðu til.

Aðgangur óheimill

(7. gr., 9. gr., 10. gr. og 11. gr. upplýsingalaga)

Öll gögn önnur en nöfn og starfsheiti umsækjenda, sem snerta veitingu opinberra starfa, það er ráðningu, skipun eða setningu starfsfólks, eru undanþegin aðgangi almennings. Einnig umsóknir, einkunnir, meðmæli, umsagnir um umsækjendur og öll önnur gögn í slíkum málum.

Þá er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum þar sem fram koma upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Sem dæmi um upplýsingar sem leynd á að ríkja um eru upplýsingar um heilsuhagi, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð. Ennfremur er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, þar með taldar upplýsingar sem skatta- og tollayfirvöld búa yfir.

Loks eru takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna, til dæmis upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir, um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins og um viðskipti opinberra fyrirtækja sem eru í samkeppni við aðra aðila.

Það ber að athuga að heimilt er að veita aðgang að gögnum umfram skyldu, enda standi aðrar lagareglur því ekki í vegi, svo sem ákvæði laga um þagnarskyldu og persónuvernd. Þegar beiðni um aðgang að upplýsingum er synjað ber stjórnvöldum í vissum tilvikum að taka afstöðu til þess hvort veita eigi aðgang í ríkari mæli en skylt er samkvæmt lögunum.

Leiðbeiningaskylda

(15. gr. upplýsingalaga)

Beiðni um upplýsingar má vísa frá ef ekki er talið mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Áður en til þess kemur ber að veita málsaðila leiðbeiningar og gefa honum færi á að afmarka beiðni sína nánar. Eftir atvikum ber stjórnvaldi að afhenda aðila lista yfir mál sem ætla má að beiðni hans geti beinst að í þeim tilgangi að hann geti tilgreint það mál þar sem hann óskar eftir aðgangi að gögnum.

Beiðni má í undantekningartilfellum hafna ef það væri mjög tímafrekt að verða við henni eða ef sterkar vísbendingar eru um að beiðni sé sett fram í ólögmætum tilgangi.

Afhending gagna og gjaldtaka

(18. gr. upplýsingalaga)

Aðgang að gögnum skal veita á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á. Þegar gögn eru eingöngu varðveitt á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þau afhent á því formi eða útprentuð á pappír. Ef gögnin eru þegar aðgengileg almenningi þarf ekki að afhenda gögnin en tilgreina skal nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar eru aðgengilegar.

Þegar skjöl eru mörg eða aðstaða til ljósritunar ekki fyrir hendi er heimilt að fela öðrum að sjá um ljósritun þeirra. Aðili skal þá greiða þann kostnað sem hlýst af ljósritun skjalanna og annarra gagna samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

Ráðherra ákveður með gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir ljósrit og afrit gagna á grundvelli stjórnsýslulaga (Gjaldskrá nr. 306/2009). Ef fyrirsjáanlegt er að kostnaður verði hærri en 10.000 kr. er heimilt að krefjast fyrirframgreiðslu.

Rökstuðningur, birting og leiðbeiningar

(19. gr. upplýsingalaga)

Ákvörðun um að synja beiðni um aðgang að gögnum, sem borin hefur verið fram skriflega, skal tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Í ákvörðun skal koma fram afstaða stjórnvalds til þess hvort veita eigi aðgang í ríkari mæli en skylt er og leiðbeiningar um rétt til kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Þegar beiðni um aðgang að gögnum er afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skal tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar eru aðgengilegar.

Þegar veittur er aðgangur að gögnum sem þriðji maður á lögvarin réttindi yfir samkvæmt höfundalögum skal veita upplýsingar um nafn rétthafa, liggi þær fyrir.

Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

Sjálfstæðri stjórnsýslunefnd, úrskurðarnefnd um upplýsingamál, er falið að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Þannig geta þeir sem synjað hefur verið um aðgang að gögnum kært synjunina til nefndarinnar. Úrskurðum hennar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.

Úrskurðir nefndarinnar hafa fordæmisgildi fyrir önnur stjórnvöld og stuðla þannig að auknu samræmi í framkvæmd upplýsingalaga.

Skýrslur um framkvæmd upplýsingalaga

( 13. gr. upplýsingalaga)

Forsætisráðherra skal reglulega gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd upplýsingalaga, þar á meðal um hvað áunnist hafi varðandi aukið aðgengi almennings að upplýsingum. 

Síðast uppfært: 19.9.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum