Hoppa yfir valmynd

Upplýsingastefna stjórnvalda

Leiðarljós

Stjórnvöld viðhafi gagnsæja stjórnarhætti þar sem almenningur hefur aðgang að skýrum, traustum og áreiðanlegum upplýsingum um starfsemi stjórnvalda og opinber málefni. Stjórnvöld veiti greiðan aðgang að upplýsingum og noti til þess aðferðir sem auðveldi almenningi að finna upplýsingar og nota.

Meginmarkmið

  1. Gagnsæi í störfum stjórnvalda 
  2. Öflug miðlun upplýsinga 
  3. Greiður aðgangur að upplýsingum 

1. Gagnsæi í störfum stjórnvalda

Gagnsæi í starfsemi stjórnvalda er hornsteinn lýðræðisins. Til þess að tryggja lýðræðislega samfélagsumræðu um opinber málefni þarf almenningur að hafa aðgang að upplýsingum um starfsemi stjórnvalda, þar á meðal um meðferð opinberra fjármuna og eigna, ákvörðunartöku stjórnvalda og forsendur hennar og um stefnumörkun. 

Upplýsingaréttur almennings fer fyrir lítið ef upplýsingar eru ekki skráðar. Það er því frumforsenda gagnsæis að upplýsingar um starfsemi stjórnvalda séu skráðar, varðveittar og gerðar aðgengilegar. 

Liður í því að treysta gagnsæi er að löggjöf kveði á um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum og að stjórnvöld meðhöndli upplýsingabeiðnir á þeim grundvelli eins fljótt og auðið er. Jafnframt er mikilvægt að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að tryggja aðgang að upplýsingum um opinber málefni. Birting gagna stuðlar að auknu trausti á upplýsingagjöf stjórnvalda og eykur möguleika almennings og fjölmiðla á að veita stjórnvöldum aðhald. Með birtingu gagna að eigin frumkvæði stuðla stjórnvöld að því með virkum hætti að upplýsingar liggi fyrir um opinber málefni. 

Áherslur

Vönduð skráning og varðveisla upplýsinga

Upplýsingar um starfsemi stjórnvalda eru kerfisbundið skráðar í samræmi við lög þar um. Stuðlað er að rekjanleika og áreiðanleika gagna. Tryggt er að starfsfólk þekki skyldu til skráningar og varðveislu gagna og mikilvægi hennar.

Greitt upplýsingaflæði

Stjórnendur og starfsfólk styðja við upplýsingaflæði bæði inn á við og út á við og viðhafa gagnsæi í ákvörðunartöku. Stjórnvöld auðvelda fjölmiðlum upplýsingaöflun og svara erindum þeirra jafnóðum þegar umbeðnar upplýsingar eru fyrirliggjandi en annars eins fljótt og kostur er.

Skilvirk afgreiðsla upplýsingabeiðna

Beiðnir um aðgang að gögnum eru afgreiddar eins fljótt og auðið er og aðgangur veittur enda sé það ekki óheimilt samkvæmt lögum eða veigamiklar ástæður mæli gegn því að aukinn aðgangur sé veittur. Ef tafir verða á afgreiðslu beiðna er skýrt frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta eins og lög mæla fyrir um.

Frumkvæðisbirting gagna

Gögn um starfsemi stjórnvalda eru birt að eigin frumkvæði. Áhersla er lögð á að birta upplýsingar um opinbera hagsmuni, þar á meðal úthlutun opinberra gæða, meðferð eigna, ráðstöfun opinbers fjár, upplýsingar um umhverfismál sem og upplýsingar um önnur mikilvæg samfélagsleg málefni.

Örugg meðferð upplýsinga

Stjórnvöld tryggja aðgang einstaklinga að upplýsingum sem varða þá sjálfa. Þau gæta jafnframt að öruggri meðferð og varðveislu persónuupplýsinga og annarra trúnaðargagna í samræmi við lög þar um.

Virk fræðsla um upplýsingarétt almennings

Stuðlað er að virkri fræðslu til stjórnvalda og almennings um upplýsingalög og aðra löggjöf og stefnur sem varða upplýsingarétt með það að leiðarljósi að gera almenningi kleift að sækja gögn og upplýsingar.

2. Öflug miðlun upplýsinga

Til að tryggja upplýsingagjöf um starfsemi stjórnvalda og meðferð opinberra hagsmuna er ekki nægilegt að stjórnvöld veiti aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Stjórnvöld þurfa einnig að tryggja að upplýsingum um opinber málefni sé miðlað með reglubundnum hætti, til að mynda með samantektum, útdráttum um mál eða miðlun tölfræðiupplýsinga. Slík upplýsingamiðlun gerir almenningi og fjölmiðlum betur kleift að átta sig á hvernig stjórnvöld starfa, hvaða grundvöllur hefur verið lagður að ákvörðunartöku og hvaða áhrif ákvarðanir þeirra hafa.

Með vandaðri og traustri upplýsingamiðlun leggja stjórnvöld lóð á vogarskálarnar til að sporna gegn upplýsingaóreiðu. Það er því mikilvægt að almenningur og fjölmiðlar geti treyst á að upplýsingar sem stjórnvöld miðla séu áreiðanlegar og að rangar upplýsingar eða misskilningur se leiðir af upplýsingagjöf sé leiðréttur eins fljótt og auðið er. 

Áherslur

Úrvinnsla upplýsinga

Stjórnvöld hafa frumkvæði að því að afla, vinna úr og miðla upplýsingum um opinber málefni. Áhersla er lögð á greiningu og miðlun upplýsinga um meðferð opinbers fjár, eigna og gæða, upplýsingar um umhverfismál og um önnur mikilvæg samfélagsleg málefni.

Áreiðanleg upplýsingamiðlun

Upplýsingar um opinber málefni eru traustar og áreiðanlegar. Upplýsingar eru uppfærðar með reglulegum hætti. Stjórnvöld leiðrétta eins fljótt og auðið er rangar upplýsingar eða misskilning sem upp kann að koma um starfsemi þeirra eða opinber málefni.

Gagnkvæm upplýsingamiðlun

Stjórnvöld hafa frumkvæði að miðlun upplýsinga um áætlanir sínar og stefnur. Stuðlað er að þátttöku almennings í stefnumótun og ákvarðanatöku með opnu samráði og markvissri upplýsingagjöf.

Miðlun með fjölbreyttum hætti

Upplýsingum er miðlað með fjölbreyttum hætti. Notast er við miðlunarleiðir sem henta hverju sinni, hvort sem er með texta, myndrænni framsetningu gagna, ljósmyndum eða öðrum leiðum. Komið er til móts við þarfir ólíkra samfélagshópa við miðlun upplýsinga á grunni viðurkenndra aðgengisstaðla.

Upplýsingar um réttindi og skyldur

Upplýsingum um réttindi og skyldur almennings er miðlað á aðgengilegan og skýran hátt og leiðbeint um hvar þær upplýsingar sé að finna. Stjórnvöld veita greinargóðar upplýsingar um þjónustu sína.

Skýr framsetning upplýsinga

Upplýsingar sem stjórnvöld veita skulu vera á vönduðu, einföldu og skýru máli. 

3. Greiður aðgangur að upplýsingum

Í lýðræðissamfélagi er grundvallaratriði að allir hafi greiðan og jafnan aðgang að upplýsingum um starfsemi stjórnvalda og opinber málefni. Því þarf að leggja áherslu á vandaða framsetningu og notendamiðaða miðlun upplýsinga. Einnig skal auðvelda almenningi að bera fram fyrirspurnir eða tillögur og hvetja til þátttöku og lýðræðislegrar virkni.

Upplýsingar eiga að vera á vönduðu, einföldu og skýru máli. Sérstaklega þarf að huga að þeim sem eiga ekki auðvelt með að nálgast upplýsingar eða þurfa einfalda framsetningu á texta til þess að geta skilið efni hans. Auðvelda skal aðgengi að upplýsingum, t.d. með notkun fjölbreyttra miðlunaraðferða.

Þáttur í aukinni upplýsingagjöf til almennings er aukið samstarf stjórnvalda um að upplýsingar séu gerðar aðgengilegar miðlægt til þess að auðvelda almenningi að nálgast þær upplýsingar sem leitað er eftir hverju sinni.

Áherslur

Notendamiðuð upplýsingamiðlun

Upplýsingum er miðlað eftir notendamiðuðum leiðum og aðferðum í samræmi við aðgengisstaðla hverju sinni. Upplýsingagjöf er miðuð að forsendum þeirra hópa sem ákvörðunartaka eða málefni snertir mest. Framsetning upplýsinga er skýr og texti auðlæsilegur. Upplýsingar eru settar fram með myndrænum hætti eftir því sem við á.

Mikilvægar upplýsingar á fleiri tungumálum

Mikilvægum upplýsingum um starfsemi stjórnvalda og opinber málefni er í auknum mæli miðlað á fleiri tungumálum en íslensku.

Opin gögn

Gögn og gagnasöfn eru gerð aðgengileg með stafrænum hætti til hagnýtingar og úrvinnslu. Hægt er að nálgast gögn á opnum og viðurkenndum gagnasniðum með leitarbærum hætti eftir því sem kostur er. Fjölmiðlar og almenningur geti sér að kostnaðarlausu notað opin gögn, umbreytt þeim og deilt með hvaða hætti sem er.

Stafræn upplýsingamiðlun

Stjórnvöld auka stafræna framsetningu gagna og efla samstarf um miðlæga miðlun upplýsinga.

 

Síðast uppfært: 25.1.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum