Hoppa yfir valmynd

Ákæruvald

Skipan ákæruvalds

Ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar, að undanskildum ríkislögreglustjóranum, fara með ákæruvaldið í landinu.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og sæta héraðssaksóknari og lögreglustjórar, níu talsins, eftirliti og leiðsögn af hálfu ríkissaksóknara í störfum sem ákærendur og handhafar ákæruvalds.

Ríkissaksóknara til aðstoðar eru vararíkissaksóknari, saksóknarar og aðstoðarsaksóknarar.

Varahéraðssaksóknari, aðstoðarlögreglustjórar, saksóknarar, aðstoðarsaksóknarar og saksóknarfulltrúar eru héraðssaksóknara og lögreglustjórum til aðstoðar við framkvæmd ákæruvalds.

Dómsmálaráðherra hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds í landinu og getur krafið ríkissaksóknara skýrslna um einstök mál. Dómsmálaráðherra getur hins vegar ekki gefið ríkissaksóknara fyrirmæli um meðferð einstakra mála. Óski dómsmálaráðherra eftir upplýsingum eða skýrslu um einstakt mál sem er til meðferðar hjá ákæruvaldinu beinir ráðherrann slíkri ósk til ríkissaksóknara.

Hlutverk ákærenda

Hlutverk ákærenda er að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Ákærendur skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum.

Ákærendur taka ákvörðun um hvort sakamálarannsókn sem lögreglan framkvæmir skuli fara fram eða ekki og þeim ber að leiðbeina lögreglumönnum um framkvæmd rannsókna og gefa fyrirmæli um framkvæmd hennar eftir því sem þörf kann að vera á. Ákærendum ber að hafa í huga að ekki á að hefjast handa um rannsókn nema rökstuddur grunur sé kominn fram um að refsiverð háttsemi, sem á undir ákæruvaldið, hafi verið framin. Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómstólum.

Að lokinni rannsókn skulu ákærendur taka ákvörðun um afdrif máls.

Höfða skal mál fyrir dómstóli til refsingar með ákæru ef það sem fram er komið við rannsóknina er talið vera nægjanlegt eða líklegt til sakfellis en láta ella við svo búið standa. Ákærendur annast sókn þeirra mála sem þeir hafa höfðað fyrir dómstólum.

Lögreglustjórar (ákærendur) mega ljúka tilteknum málum án þess að leggja þau fyrir dómstól með ákæru. Er málum þá lokið með lögreglustjórasátt og getur sáttin verið fólgin í því að sakborningur greiði tiltekna sekt og sæti sviptingu ökuréttar og/eða þoli upptöku eigna að ákveðnu marki.

Ákærendur geta fellt mál niður, þ.e.a.s. ákveðið að ekki komi til frekari aðgerða af hálfu ákæruvalds í máli. Áður en ákærandi tekur slíka ákvörðun ber honum að kanna gögn máls vandlega og leggja hlutlægt mat á stöðuna með þá reglu að leiðarljósi að sækja skal þá til sakar sem ákærandi telur að hafi gerst sekir um brot gegn refsilögum en aðra ekki.

Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum hafa ákærendur heimildir til þess að falla frá saksókn og fresta útgáfu ákæru.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 31.1.2018
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum