Hoppa yfir valmynd

Alþjóðleg sakamálasamvinna

Í ljósi aukinnar tíðni skipulagðrar brotastarfsemi þvert á landamæri er sakamálasamvinna milli ríkja afar mikilvæg. Framsal sakborninga og dæmdra manna og gagnkvæm réttaraðstoð við rannsókn og meðferð sakamála er vaxandi viðfangsefni og er Ísland aðili að mörgum fjölþjóðlegum samningum á þessu sviði.

Grundvallarsamningar hvað þetta varðar eru Evrópuráðssamningurinn um framsal sakamanna frá 13. desember 1957 og Evrópuráðssamningurinn um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 en Ísland fullgilti báða samningana þann 18. september 1984 með lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Þann 25. maí 2016 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 51/2016 um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. Með frumvarpinu voru sameinuð í einni löggjöf ákvæði laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), og ný lagaákvæði er leiða af skuldbindingum Íslands vegna hinnar svokölluðu evrópsku handtökuskipunar, sbr. samning milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs, sem undirritaður var 28. júní 2006. Lögin tóku gildi þann 14. júní 2016 að því er varðar norræna handtökuskipun, en að því er varðar evrópska handtökuskipun taka lögin gildi við gildistöku framangreinds samnings milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs.

Sérreglur gilda um réttaraðstoð milli Norðurlandanna, sbr. samning um gagnkvæma dómsmálaaðstoð frá 26. maí 1975.

Það er ekki skilyrði samkvæmt íslenskum lögum að í gildi sé tvíhliða eða marghliða samningur milli Íslands og ríkis sem óskar eftir samstarfi á þessu sviði. Beiðni getur því borist og verið afgreidd á grundvelli íslenskra laga þrátt fyrir að viðkomandi ríki sé ekki aðili að samningi við Ísland eða aðili að fjölþjóðlegum samningi sem Ísland á aðild að. Í tilvikum sem þessum yrði byggt á framangreindum Evrópuráðssamningum og lögum nr. 13/1984 í samstarfinu.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 15.11.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum