A.01. Háhraðatengingar
Aðgerðinni er lokið | |
Fréttir af aðgerðinni
Febrúar 2025 Aðgerðinni er lokið. Með stuðningi byggðaáætlunar og fjarskiptasjóðs lauk ljósleiðaravæðingu í dreifbýli árið 2021. Vorið 2024 lá fyrir hvaða lögheimili í öllu þéttbýli landsins fjarskiptafyrirtækin hugðust tengja á markaðsforsendum. Eftir stóðu 4.438 heimilisföng, með einu eða fleiri lögheimilum, í 48 sveitarfélögum. IRN og fjarskiptasjóður sendu þeim sveitarfélögum sameiginlegt tilboð um styrk, sem 25 sveitarfélög þáðu og nýtast mun 4.251 heimilisfangi fyrir árslok 2026, gangi öll uppbygging eftir. Jafnframt mun vinnustöðum í öllu þéttbýli bjóðast ljósleiðaratenging samhliða tengingu lögheimila, þó að ríkið styðji ekki þá framkvæmd. Ráðherrar byggðamála og fjarskipta staðfestu samninga fjarskiptasjóðs og sveitarfélaga 19. september 2024.
September 2024 Ljósleiðaravæðing landsins undirrituð. Innviðaráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra staðfestu, þann 19. september 2024, samninga við 25 sveitarfélög um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026.
Júlí 2024 Ljósleiðaravæðing landsins klárast innan þriggja ára. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og innviðaráðherra kynntu áfrom í ríkisstjórn þann 2. júlí um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins.
Janúar 2024 Síðustu sveitarfélögin eru við það að ljúka uppbyggingu ljósleiðarakerfa á grundvelli Ísland ljóstengt. Könnun á áformum fjarskiptafyrirtækja um uppbyggingu á ljósleiðara í öllum þéttbýlisstöðum og byggðakjörnum hefst snemma árs 2024. Slíkri könnun er ætlað að draga fram hvar fjarskiptafyrirtækin hyggjast leggja ljósleiðara á markaðslegum forsendum í fyrirsjáanlegri framtíð og hvar ekki. Til að stuðla m.a. að betri þátttöku voru leigðir út tveir ljósleiðarar (í NATO-streng) árið 2022. Jafnframt var talið nauðsynlegt að ljúka ráðstöfun á tíðnum til reksturs á farnetum um allt land og gekk það eftir vorið 2023.
Tengiliður
Ottó V. Winther, innviðaráðuneyti - [email protected]
Aðgerðin
Markmið: Að öll lögheimili og vinnustaðir eigi kost á háhraðanettengingu um ljósleiðara.
Stutt lýsing: Staða háhraðanettenginga á landsvísu verði greind og sú greining lögð til grundvallar samkeppnishvetjandi aðgerðum og aðkomu opinberra aðila að verkefninu, reynist þess þörf. Forgangsmál verði að koma um 50 minni byggðakjörnum sem hafa takmarkað aðgengi að nútímaháhraðanettengingum í tengingu við ljósleiðara. Gripið verði til annarra ásættanlegra lausna í þeim tilfellum þar sem ekki er talið ákjósanlegt að tengja með ljósleiðara.
- Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
- Framkvæmdaraðili: Fjarskiptafyrirtæki og sveitarfélög.
- Dæmi um samstarfsaðila: Fjarskiptastofa, Fjarskiptasjóður og innviðaráðuneytið
- Tímabil: 2022–2025.
- Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Fjarskiptaáætlun, nýsköpunarstefna.
- Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, einkum undir¬markmið 9.1 og 9.4
- Tillaga að fjármögnun: 172 millj. kr. úr byggðaáætlun.