Byggðaáætlun

Byggðaáætlun er lýsing á stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um land allt. Sérstök áhersla skal lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Einnig skal gera grein fyrir sérstökum áformum ríkisins um stuðning við atvinnulíf á skilgreindum stuðningssvæðum byggðakorts af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt fyrir tiltekið tímabil og tengingu þeirra við sóknaráætlanir.

Byggðaáætlun er unnin í umboði ráðherra af Byggðastofnun og í samráði við stýrihóp stjórnarráðsins um byggðamál. Áætlunin er unnin til sjö ára í senn. Tillaga um stefnumótandi byggðaáætlun skal ráðherra svo leggja fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögu.

Byggðaáætlun 2014-2017

Þingsályktunin um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017, felur í sér áherslubreytingar frá Byggðaáætlun 2010-2013. Meiri áhersla er á dreifbýli, úrbætur í fjarskiptum, orkuflutning og afhendingaröryggi, brothætt byggðarlög og samgöngur og stækkun þjónustu- og vinnusóknarsvæða. Þá er áhersla á stuðning við einstaklinga, fyrirtæki og nýsköpun og vaxtargreinar. Þá má nefna áherslu á skilvirkt stoðkerfi atvinnuþróunar og á dreifingu opinberra starfa og stefnumótun um opinbera þjónustu. Í áætluninni eru tilgreind tímamörk, ábyrgðar- og samstarfsaðilar fyrir hverja aðgerðartillögu ásamt kostnaðaráætlun. Loks má nefna áherslu sem birtist í breytingatillögu atvinnuveganefndar Alþingis um stuðning við uppbyggingu skógarauðlindar.

Umræður á Alþingi um þingsályktunartillöguna og afgreiðslu hennar má nálgast hér.

Fylgirit Byggðastofnunar með þingsályktunartillögunni, Stöðugreining 2013, er að finna hér.

Byggðaáætlun 2018-2024

Þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 verður lögð fram á Alþingi vorið 2018. Áætlunin er unnin í samræmi við lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015 þar sem kveðið er á um að áætlunin lýsi stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætluninni er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða og að efla samkeppnishæfni þeirra sem og landsins alls. 

 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn