Hoppa yfir valmynd

Byggðaáætlun

Byggðaáætlun er lýsing á stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um land allt. Sérstök áhersla skal lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Einnig skal gera grein fyrir sérstökum áformum ríkisins um stuðning við atvinnulíf á skilgreindum stuðningssvæðum byggðakorts af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt fyrir tiltekið tímabil og tengingu þeirra við sóknaráætlanir.

Með lögum um breytingar á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála nr. 53/2018, sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2018, var sett í lög nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, ákvæði um byggðamálaráð og hlutverk þess. Hlutverk byggðamálaráðs er að gera tillögu til ráðherra að stefnumótandi byggðaáætlun til fimmtán ára og fimm ára aðgerðaáætlun að fengnum áherslum ráðherra. Tilgangurinn með nýju lögunum er annars vegar að aðlaga vinnubrögð og aðferðafræði við gerð áætlana samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að nýrri hugsun samhæfðrar og samþættrar stefnumótunar og áætlanagerðar og hins vegar að samhæfa stefnumótun og áætlanagerð við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Við undirbúning byggðaáætlunar og fimm ára aðgerðaáætlunar skal haft samráð við öll ráðuneyti á vettvangi stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál. Þá skal haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög. Horfa skal til þeirrar stefnumótunar sem fram kemur í stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga sem gerð er samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Jafnframt skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum og skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 14.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum