Hoppa yfir valmynd

Vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum

Lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum gilda um atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem reka starfsemi á innlendum vinnumarkaði, hvort sem hún er ótímabundin eða tímabundin, eða senda starfsmenn hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu innan tiltekinna atvinnugreina. Markmið laganna er að tryggja að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum.

Samkvæmt lögunum skulu samtök aðila vinnumarkaðarins semja nánar um það í kjarasamningum sín á milli til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lögin taka á hverjum tíma. Skulu þeir kjarasamningar sem og aðrir samningar sem gerðir eru milli aðila um nánari framkvæmd laganna gilda um alla atvinnurekendur sem starfa innan þeirra atvinnugreina á innlendum vinnumarkaði sem tilgreindar eru í samningum aðila. Félagsmálaráðuneytið skal birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda með lista yfir þær atvinnugreinar sem lögin skulu taka til á hverjum tíma samkvæmt kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins.

Samkvæmt lögunum skal atvinnurekandi sjá til þess að hann sjálfur og starfsmenn hans, hvort sem starfsmennirnir eru ráðnir beint til atvinnurekanda á grundvelli ráðningarsamnings eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu, fái vinnustaðaskírteini er þeir hefja störf og skulu þeir jafnframt hafa þau á sér við störf sín.

Lögin kveða meðal annars á um að eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda til að ganga úr skugga um að atvinnurekandi og starfsmenn hans starfi í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kjarasamninga. Skal eftirlitsfulltrúunum veittur aðgangur að vinnustöðum í þeim tilgangi.

Í tilteknum tilvikum getur Vinnumálastofnun krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Heimilt er að kæra til velferðarráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar um dagsektir að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 9.3.2022 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum